11.8.2018 | 11:26
Engin vanræksla
Sárt er að sjá grandvaran embættismann, Ingimund Friðriksson, fyrrverandi seðlabankastjóra, sæta ómaklegum árásum fyrir það, að Seðlabankinn hefur fylgt fordæmi norska seðlabankans og falið honum ýmis verkefni, sem hann er manna best fær um að leysa. Stundin segir Rannsóknarnefnd Alþingis um bankahrunið hafa komist að þeirri niðurstöðu, að hann og hinir tveir seðlabankastjórarnir fyrir bankahrun hafi gerst sekir um vanrækslu.
Fyrra málið var, að Landsbankinn bað um stórkostlega, leynilega gjaldeyrisfyrirgreiðslu í ágúst 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni, enda voru upphæðirnar stórar og aðgerðin sennilega ólögleg. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að rannsaka betur fjárhag Landsbankans. Bankastjórarnir bentu hins vegar á, að þeir höfðu ekkert vald til þess að rannsaka fjárhag bankans. Fjármálaeftirlitið fór með það vald.
Seinna málið var, að Glitnir bað um stórt gjaldeyrislán í september 2008. Seðlabankastjórarnir höfnuðu þessari beiðni. Rannsóknarnefndin gerði enga athugasemd við þá ákvörðun, en taldi, að þeir hefðu átt að afla frekari upplýsinga um fjárhag Glitnis. Enn bentu bankastjórarnir á, að þeir höfðu ekkert vald til að rannsaka fjárhag bankans.
Sjálfar ákvarðanirnar, sem seðlabankastjórarnir tóku, voru með öðrum orðum taldar eðlilegar, en Rannsóknarnefndin var þeirrar skoðunar, að þeim hefðu átt að fylgja minnisblöð og útreikningar. Þetta sýnir takmarkað veruleikaskyn. Um allan heim voru seðlabankastjórar og fjármálaráðherrar þessa dagana að taka mikilvægar ákvarðanir, sem þoldu enga bið. Fleiri minnisblöð og frekari útreikningar hefðu hvort sem engu breytt um bankahrunið.
Málsvörn seðlabankastjóranna hlaut óvæntan stuðning eins nefndarmannsins, Sigríðar Benediktsdóttur, þegar hún hafði frumkvæði að því árið 2013, á meðan hún sinnti fjármálastöðugleika í Seðlabankanum, að Alþingi samþykkti lög um auknar heimildir Seðlabankans til að óska upplýsinga frá fjármálastofnunum.
Danska Rangvad-nefndin, sem rannsakaði fjármálakreppuna þar, komst að þeirri niðurstöðu, að danska seðlabankann hefði skort valdheimildir til að stöðva vöxt bankanna þar í landi. Ben Bernanke, seðlabankastjóri Bandaríkjanna í fjármálakreppunni, kvartaði undan því í endurminningum sínum, að hann hefði ekki haft nægar heimildir til að óska eftir upplýsingum um fjármálastofnanir.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. ágúst 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:39 | Slóð | Facebook
5.8.2018 | 02:29
Félagi nr. 3.401.317. í Nasistaflokknum
Ég birti fyrir nokkrum árum ritgerð í Þjóðmálum um nokkrar örlagasögur, þar á meðal um Bruno Kress, félaga nr. 3.401.317 í Nasistaflokknum þýska.
Eftir stríð gerðist gamli nasistinn kommúnisti og komst til metorða í Austur-Þýskalandi. Hann varð heiðursdoktor frá Háskóla Íslands 1986. Hér á hann sér ötula stuðningsmenn, eins og sjá má.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:34 | Slóð | Facebook
4.8.2018 | 14:40
Fyrir réttum tíu árum
Hús Seðlabankans við Kalkofnsveg er líkt og hús flestra annarra seðlabanka heims smíðað eins og virki, og sést þaðan vítt um sjó og land. Mikið var um að vera í þessu virki í sumarblíðunni fimmtudaginn 31. júlí 2008. Seðlabankastjórarnir þrír, Davíð Oddsson, Eiríkur Guðnason og Ingimundur Friðriksson, hittu tvo fulltrúa breska fjármálaeftirlitsins, Michael Ainley og Melanie Beaman, sem voru að fylgja eftir óskum stofnunarinnar um færslu Icesave-reikninga Landsbankans úr útbúi bankans í Lundúnum í breskt dótturfélag bankans. Þannig yrðu reikningarnir í umsjá breska innstæðutryggingasjóðsins. Seðlabankastjórarnir kváðust vera sammála breska fjármálaeftirlitinu um að þetta væri nauðsynlegt.
Seðlabankastjórarnir þrír kvöddu síðar sama dag á sinn fund bankastjóra Landsbankans, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, og komu þar þeirri skoðun sinni á framfæri, eins og þeir höfðu áður gert, að færa yrði Icesave-reikningana hið bráðasta yfir í breskt dótturfélag. Davíð sagði umbúðalaust að ekki væri hægt að ætlast til þess af hinu smáa íslenska ríki að það tæki ábyrgð á Icesave-innstæðunum, enda stæðu engin lög til þess. Þið getið sett Björgólf Guðmundsson á hausinn ef þið viljið, sagði hann, og eruð sjálfsagt langt komnir með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja þjóðina á hausinn með þessum hætti.
Um kvöldið buðu seðlabankastjórarnir einum af æðstu mönnum Alþjóðagreiðslubankans (BIS) í Basel, William R. White, í kvöldverð í Perlunni, en hann hafði verið að veiða hér lax. Talið barst, eins og við var að búast, að hinni alþjóðlegu lausafjárkreppu sem geisað hafði allt frá því í ágúst 2007. White sagði Davíð: Það er búið að ákveða að einn stór banki verði látinn fara á hausinn, það verða Lehman-bræður, og síðan eitt land, og það verðið þið. Davíð spurði: Hvað ertu búinn að fá þér marga gin og tónik? White svaraði: Bara einn. Lehman-bræður fóru í þrot 15. september sama ár, og íslensku bankarnir þrír hrundu dagana 6.-8. október.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. ágúst 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook
28.7.2018 | 09:47
Þarf prófessorinn að kynnast sjálfum sér?
Á Apollón-hofinu í Delfí er ein áletrunin tilvitnun í Sólon lagasmið, Kynnstu sjálfum þér. Þetta var eitt af heilræðum vitringanna sjö í Forn-Grikklandi. Ég er hræddur um, að einn samkennari minn, Stefán Ólafsson félagsfræðiprófessor, hafi lítt skeytt um slík sjálfskynni. Hann skrifar andsvar í tímaritið Econ Watch við ritgerð eftir mig um stjórnarstefnuna 19912004. Þar segist hann ólíkt mér aldrei hafa verið active in any political-party advocacy, aldrei hafa verið virkur í starfi stjórnmálaflokks.
Í Alþýðublaðinu 18. janúar 1983 segir á hinn bóginn, að í stjórn nýstofnaðs Bandalags jafnaðarmanna sitji meðal annarra Stefán Ólafsson félagsfræðingur. Bandalagið bauð fram 1983, en sameinaðist Alþýðuflokknum 1986. Í Þjóðviljanum 8. febrúar 1985 segir, að stofnað hafi verið Málfundafélag félagshyggjufólks, sem hafi það markmið að sameina alla vinstri menn í einum flokki. Einn af varamönnum í stjórn sé Stefán Ólafsson félagsfræðingur.
Nú kann vel að vera, að Stefán hafi hvergi verið flokksbundinn, eftir að Bandalag jafnaðarmanna geispaði golunni. En hann tók virkan þátt í kosningabaráttu Samfylkingarinnar árin 2003 og 2007. Í fyrra skiptið var eitt aðalkosningamál Samfylkingarinnar, að fátækt væri meiri á Íslandi en öðrum Norðurlöndum, og vitnaði Stefán óspart um það, meðal annars í Morgunblaðsgrein 7. maí. Þetta reyndist úr lausu lofti gripið samkvæmt mælingum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat. Í seinna skiptið hélt Stefán því fram í fjölda greina og fyrirlestra, að tekjudreifingin hefði árin 19952004 orðið miklu ójafnari en á öðrum Norðurlöndum. Vísuðu frambjóðendur Samfylkingarinnar margsinnis á hann um þetta. En það reyndist líka rangt: Árið 2004 var tekjudreifing svipuð á Íslandi og öðrum Norðurlöndum samkvæmt mælingum Eurostat.
Ef marka má dagbók Össurar Skarphéðinssonar frá 2012, Ár drekans, þá var Stefán virkur um það leyti í innanflokksátökum Samfylkingarinnar, með Jóhönnu Sigurðardóttur og á móti Árna Páli Árnasyni.
Ef til vill á hér best við breyting, sem þýska skopblaðið Simplicissimus vildi gera á hinu gríska heilræði: Kynnstu ekki sjálfum þér! Þú verður alltaf svo illa svikinn!
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. júlí 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:54 | Slóð | Facebook
21.7.2018 | 13:03
Söguskýringar prófessors
Árið 2017 birti ég yfirlitsgrein í tveimur hlutum í bandaríska tímaritinu Econwatch um frjálshyggju á Íslandi. Fyrri hlutinn var um frjálshyggju á 19. og 20. öld, þar á meðal verk Jóns Sigurðssonar, Arnljóts Ólafssonar, Jóns Þorlákssonar og Ólafs Björnssonar. Seinni hlutinn var um hinar víðtæku umbætur í frjálsræðisátt árin 1991-2004: Hagkerfið hér mældist hið 26. frjálsasta í heimi árið 1990 en hið 9. frjálsasta árið 2004. Einnig ræddi ég um ýmsar skýringar á bankahruninu. Þar eð ég vék stuttlega að gagnrýni Stefáns Ólafssonar prófessors á umbæturnar og skýringum hans á bankahruninu bauð tímaritið honum að veita andsvar. Er ritgerð mín og andsvar hans hvort tveggja aðgengilegt á netinu. Af andsvarinu er augljóst að Stefán ber þungan hug til mín. Það er þó ekki aðalatriði, heldur ýmsar hæpnar fullyrðingar hans.
Stefán andmælir því til dæmis að stuðningur Moskvumanna við íslenska vinstri sósíalista hafi skipt máli: There may possibly have been some interventions from Moscow during the interwar period (that is contested, though), but not at all from the 1960s onwards. Ef til vill höfðu Moskvumenn einhver afskipti af þeim árin milli stríða (þótt það sé umdeilt), en alls ekki frá því um 1960 að telja.
Þetta er alrangt. Það er alls ekki umdeilt meðal fræðimanna að Moskvumenn studdu fjárhagslega vinstri andstöðuna í Alþýðuflokknum og síðar kommúnistaflokkinn árin milli stríða, 1918-1939. Þetta kemur fram í bókum þeirra Arnórs Hannibalssonar, Moskvulínunni, og Jóns Ólafssonar, Kæru félögum, sem þeir gáfu út 1999 eftir að hafa kannað skjöl í rússneskum söfnum.
Aðstoðin að austan hélt áfram eftir 1960. Til dæmis reyndu Kremlverjar ekki einu sinni að leyna því að þeir sendu stóra fjárhæð í verkfallssjóð Dagsbrúnar árið 1961. Sósíalistaflokkurinn og samtök og einstaklingar á hans vegum fengu reglubundinn fjárstuðning allt fram til ársins 1972, svo að vitað sé. Ég hef reynt að meta hversu miklu þessi stuðningur nam samtals að núvirði frá 1940 til 1972 og er niðurstaðan um 3,5 milljónir Bandaríkjadala, eða 350 milljónir íslenskra króna. Voru þetta meira en 10 milljónir króna á ári, sem var veruleg fjárhæð í fámennu landi.
Furðu sætir að háskólaprófessor skuli ekki vita betur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. júlí 2018).
Stjórnmál og samfélag | Breytt 23.7.2018 kl. 11:53 | Slóð | Facebook
14.7.2018 | 12:17
Hattur Napóleons og Hannes Hafstein
Morgunblaðið birti frétt um það 18. júní 2018, að nú ætti að selja á uppboði einn af nítján höttum Napóleons Frakkakeisara, en þeir voru tvíhorna. Af því tilefni má rifja upp, að Björn Jónsson, ráðherra Íslands 1909-1911, gekk í valdatíð sinni keikur um með eins konar Napóleonshatt. Lenti sá hattur síðar í eigu starfsmanns Ísafoldarprentsmiðju, sem Björn hafði átt, og þaðan rataði hann í hendur ungs skálds, Halldórs Guðjónssonar frá Laxnesi, sem gaf kunningjakonu sinni hattinn.
Í grúski mínu vegna ævisögu skáldsins rakst ég á laust blað ómerkt í bréfasafni Ragnars Jónssonar í Smára, en það er varðveitt á handritadeild Landsbókasafnsins. Þar segir frá því, að Hannes Hafstein, forveri Björns í embætti, hafi eitt sinn hnoðað saman brjóstmynd af Birni úr möndludeigi (marsípan) og sett á hana lítinn Napóleonshatt. Síðan hafi Hannes ort gamanvísu til Napóleons fyrir hönd Björns:
Munurinn raunar enginn er
annar en sá á þér og mér,
að marskálkarnir þjóna þér,
en þjóna tómir skálkar mér.
Sem kunnugt er sæmdi Napóleon 26 herforingja sína marskálkstitli. Björn Jónsson hafði hins vegar fellt Hannes úr ráðherraembætti og eftir það rekið móðurbróður hans, Tryggva Gunnarsson, úr Landsbankanum, þótt sá verknaður yrði honum sjálfum síðan að falli. Nýttu sumir öfundarmenn Hannesar sér, að Björn fékk ekki alltaf hamið skapsmuni sína.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. júlí 2018.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:20 | Slóð | Facebook
7.7.2018 | 10:43
Knattspyrnuleikur eða dagheimili?
Þegar ég fylgdist með heimsmeistaramótinu í knattspyrnu 2018, rifjaðist upp fyrir mér samanburður, sem Ólafur Björnsson, hagfræðiprófessor og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, gerði á hægri- og vinstristefnu á ráðstefnu Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, 18. mars 1961. Hægrimenn teldu, að ríkið ætti að gegna svipuðu hlutverki og dómari og línuverðir í knattspyrnuleik. Það skyldi sjá um, að fylgt væri settum reglum, en leyfa einstaklingunum að öðru leyti að keppa að markmiðum sínum á sama velli. Vinstrimenn hugsuðu sér hins vegar ríkið eins og fóstru á dagheimili, sem ætti að annast um börnin, en um leið ráða yfir þeim. Alkunn hugmynd sænskra jafnaðarmanna um folkhemmet er af þeirri rót runnin.
Auðvitað er hvorug líkingin fullkomin. Lífið er um það frábrugðið knattspyrnuleik, að ekki geta allir verið íþróttakappar. Börn, gamalmenni, öryrkjar og sjúklingar þarfnast umönnunar, þótt búa megi svo um hnúta með sjúkratryggingum og lífeyrissjóðum, að sumt geti þetta fólk greitt sjálft fyrir umönnun annarra. Hin líkingin er þó sýnu ófullkomnari. Með skiptingunni í fóstrur og börn er gert ráð fyrir, að einn hópur hafi yfirburðaþekkingu, sem aðra vanti, svo að hann skuli stjórna og aðrir hlýða. Sú er hins vegar ekki reyndin í mannlegu samlífi, þar sem þekkingin dreifist á alla mennina.
Vinstrimenn hafa því margir horfið frá hugmyndinni um ríkið sem barnfóstru. Þeir viðurkenna, að lífið sé miklu líkara knattspyrnuleik en barnaheimili. En þeir vilja ekki láta sér nægja eins og hægrimenn að jafna rétt allra til að keppa á vellinum, heldur krefjast þess líka, að niðurstöður verði jafnaðar. Ef eitt lið skorar átta mörk og annað tvö, þá vilja vinstrimenn flytja þrjú mörk á milli, svo að fimm mörk séu skráð hjá báðum. Hægrimenn benda á það á móti, að þá dragi mjög úr hvatningunni til að leggja sig fram, jafnframt því sem upplýsingar glatast um, hverjir séu hæfastir. Það er einmitt tilgangur sérhverrar keppni að komast að því, hver skari fram úr hvar, svo að ólíkir og misjafnir hæfileikar þeirra geti nýst sem best.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. júlí 2018.)
30.6.2018 | 11:54
Hvað er þjóð?
Í snarpri gagnrýni á þjóðarhugtakið viðurkenndi ensk-austurríski heimspekingurinn Karl R. Popper, að líklega kæmust Íslendingar næst því allra heilda að kallast þjóð: Þeir töluðu sömu tungu, væru nær allir af sama uppruna og í sama trúfélagi, deildu einni sögu og byggju á afmörkuðu svæði. Því er ekki að furða, að þjóðerniskennd sé sterkari hér á landi en víðast annars staðar í Evrópu, þar sem landamæri hafa verið á reiki og mála- og menningarsvæði fara alls ekki saman við ríki. Til dæmis er töluð sænska á Álandseyjum, þótt þær séu hluti af Finnlandi. Þýska er töluð í Þýskalandi, Austurríki og mörgum kantónum í Sviss og jafnvel í Suður-Týrol, sem er hluti af Ítalíu. Í Belgíu mæla sumir á flæmsku (sem er nánast hollenska) og aðrir á frönsku, auk þess sem margir eru vitaskuld tvítyngdir. Katalónska er ekki sama málið og sú spænska, sem kennd er í skólum og oft kölluð kastilíska.
Vorið 1882 gerði franski rithöfundurinn Ernest Renan fræga tilraun til að skilgreina þjóðina í fyrirlestri í París, Quest-ce quune nation? Hvað er þjóð? Hann benti á öll þau tormerki, sem væru á að nota tungu, trú, kynþátt eða landsvæði til þess að afmarka þjóðir, og komst að þeirri niðurstöðu, að það væri viljinn til að vera ein þjóð, sem gerði heild að þjóð. Þessi vilji styddist í senn við minningar úr fortíðinni og markmið til framtíðar. Menn væru samt sem áður frjálsir að þjóð sinni. Kysi einhver þjóð að slíta sig frá annarri, þá ætti henni að vera það heimilt. Og hver maður gæti líka valið. Til þess að hann kynni vel við land sitt, yrði það að vera viðkunnanlegt. Þjóðin væri því dagleg atkvæðagreiðsla. Renan benti líka á, að stundum styddist viljinn til að vera þjóð ekki síður við gleymsku en minningar. Þjóðir hefðu iðulega orðið til við ofbeldi og yfirgang. Þjóðarsagan, sem kennd væri í skólum, væri því stundum hálfsögð, jafnvel fölsuð.
Hér er sérstaða Íslendinga aftur merkileg. Við deilum ekki aðeins tungu, trú, kynþætti, landsvæði og sögu, heldur höfum við engu að gleyma. Við höfum aldrei beitt neina aðra þjóð yfirgangi, þótt ef til vill hafi okkur frekar brostið til þess afl en áhuga. Og á íslensku er til fallegt orð um það, sem Renan taldi viljann til að vera ein þjóð. Það er sálufélag. Eins og fjósamaðurinn á Hólum átti forðum sálufélag með Sæmundi fróða, eigum við sálufélag með Agli Skallagrímssyni, Snorra Sturlusyni, Jónasi Hallgrímssyni, Laxness, Björk og íslenska landsliðinu í knattspyrnu 2018. Íslenska þjóðin stækkar af íslensku afreksfólki, án þess að aðrar þjóðir smækki.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 30. júní 2018.)
26.6.2018 | 15:00
Svör við spurningum blaðamanna
Blaðamenn á Fréttablaðinu og Stundinni hafa nýlega haft samband og spurt, hvað liði skýrslunni fyrir fjármálaráðuneytið um erlenda áhrifaþætti bankahrunsins, sem ég hef verið að semja. Svar mitt er þetta:
Ég samdi drög að rækilegri skýrslu á tilsettum tíma, en hún var allt of löng, 600 bls., auk þess sem ýmislegt átti eftir að birtast, sem ég vissi um. Þess vegna stytti ég skýrsluna niður í 320 bls. og beið eftir ýmsum frekari heimildum. Ég hef síðan fengist við það, ekki síst að áeggjan Félagsvísindastofnunar, að stytta skýrsluna verulega, auk þess sem ég hef borið ýmis atriði undir fólk, sem getið er í skýrslunni, og unnið úr athugasemdum þess. Von er á henni á næstunni. Ég gerði grein fyrir nokkrum helstu niðurstöðum úr henni á fundi Sagnfræðingafélagsins 17. október 2017, og eru glærur mínar aðgengilegar og raunar einnig upptaka af fundinum á heimasíðu Sagnfræðingafélagsins.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:08 | Slóð | Facebook
23.6.2018 | 11:00
Stolt þarf ekki að vera hroki
Þótt enskan sé auðug að orðum, enda samruni tveggja mála, engilsaxnesku og frönsku, á hún aðeins eitt og sama orðið, pride, um tvö hugtök, sem íslenskan hefur eins og vera ber um tvö orð, stolt og hroka. Þess vegna er sagt á ensku, að pride sé ein af höfuðsyndunum sjö. Íslendingar myndu ekki segja það um stolt, sem hefur jákvæðan blæ, þótt þeir myndu vissulega telja hroka vera synd.
Ég minnist á þetta vegna þess, að íslenska þjóðin fylltist stolti vegna frábærs árangurs landsliðsins í knattspyrnu síðustu tvö árin. Íslendingar eru fámennasta þjóð, sem keppt hefur til úrslita í heimsmótinu í knattspyrnu. En hvers vegna fylltumst við stolti? Vegna þess, að okkur finnst við eiga eitthvað örlítið í sigurgöngu íslenska landsliðsins. Þótt liðsmennirnir, þjálfararnir og aðrir hlutaðeigendur hafi vissulega unnið sigrana, en ekki við hin, deilum við öll með þeim einhverju sérstöku, kunnuglegu og dýrmætu, þótt það sé ekki beinlínis áþreifanlegt: Þjóðerni.
Spekingar fræða okkur á því, að þjóðernisvitund sé mannasetning frá nítjándu öld. Hvað sem öðrum líður, á það ekki við um Íslendinga. Við höfum frá öndverðu verið sérstök þjóð. Snemma á elleftu öld var Sighvatur Þórðarson skáld staddur í Svíþjóð, og hafði kona ein orð á því, að hann væri svarteygur ólíkt mörgum Svíum. Orti þá Sighvatur, að hin íslensku augu sín hefðu vísað sér langt um brattan stíg. Enn kvað hann, að hann hefði gengið á fornar brautir, sem ókunnar væru viðmælandanum. Um svipað leyti, árið 1033, gerðu Íslendingar fyrsta alþjóðasamning sinn, og var hann við Noregskonung.
Spekingar vara okkur líka við hroka. En stolt er ekki hroki og þjóðrækni ekki þjóðremba. Um eitt minnir lífið á knattspyrnuleik: Stundum hittum við í mark og stundum fram hjá, öðru hvorum megin. Fyrir bankahrunið 2008 gætti nokkurs hroka með sumum Íslendingum, en eftir það virtust sumir vilja miða fram hjá markinu hinum megin og gera minna úr þjóðinni en efni standa til. Við hittum í mark með því að vera þjóðræknir heimsborgarar, stolt af þjóð okkar án lítilsvirðingar við aðra, hvorki hrokagikkir né undirlægjur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 23. júní 2018.)