Fyrirlitning á smáþjóðum

Skömmu eftir að Ráðstjórnarríkin liðuðust í sundur 1991, skrifaði ég skattstjóra bréf og mæltist til að fá að afskrifa öll rit í minni eigu eftir og um þá Karl Marx og Friedrich Engels. Þau væru orðin verðlaus. Enginn tæki lengur marxisma alvarlega. Skattstjóri synjaði beiðni minni. Nú sé ég, að hann hafði rétt fyrir sér. Árið 2007 gaf Hið íslenska bókmenntafélag út aftur Kommúnistaávarpið eftir þá Marx og Engels. Lofsamlegur inngangur stalínistans Sverris Kristjánssonar var endurprentaður athugasemdalaust. Ekki vottaði heldur fyrir gagnrýni á hugmyndir höfundanna í formála Páls Björnssonar sagnfræðings.

Söguleg greining Marx og Engels var stórgölluð, og spár þeirra rættust hvergi. En það fór bersýnilega líka fram hjá Páli Björnssyni, að fáir heimspekingar hafa gert eins lítið úr Íslendingum og þeir Marx og Engels. Töldu þeir, eins og ég hef rakið hér, Íslendinga vera frumstæða smáþjóð, sem sypi lýsi, hefðist við í jarðhúsum og fengi ekki lifað án fiskibrælu. Það er síðan kunnara en frá þurfi að segja, að dyggir lærisveinar Marx og Engels réðu lengi hálfum heiminum og ollu dauða eitt hundrað milljóna manna samkvæmt Svartbók kommúnismans. Ekki var á þetta minnst heldur í hinni nýju útgáfu.

Fyrirlitning Marx og Engels á smáþjóðum og ofbeldishugarfar þeirra leynir sér ekki. Í grein um Ungverjaland í Nýja Rínarblaðinu 13. janúar 1849 segir Engels til dæmis Hegel hafa rétt fyrir sér um, að sumar smá- og jaðarþjóðir séu ekkert annað en botnfall (Volkerabfälle). Nefnir Engels sérstaklega Kelta í Skotlandi, Bretóna í Frakklandi, Baska á Spáni og suður-slavneskar þjóðir.„Í næstu heimsstyrjöld munu ekki aðeins afturhaldsstéttir og konungsættir hverfa af yfirborði jarðar, heldur líka afturhaldsþjóðir í heild sinni. Og það eru framfarir.“ Í grein í sama blaði 7. nóvember 1848 um átök í Vín segir Marx fólk óðum vera að sannfærast um, að aðeins dugi eitt ráð til að stytta blóðugar fæðingarhríðir nýs skipulags, „ógnarstjórn byltingarinnar“ (revolutionäre[r] Terrorismus).

Svo sannarlega ber að taka marxisma alvarlega.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. ágúst 2016.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband