16.11.2019 | 07:27
Frá Kænugarði
Dagana 7.10. nóvember 2019 sat ég ráðstefnu evrópskra íhaldsmanna og umbótasinna, sem haldin var í Kænugarði í Úkraínu og helguð sambandi Úkraínu við önnur Evrópulönd. Ég var beðinn um að segja nokkur orð á ráðstefnunni, og benti ég fyrst á, að Ísland og Úkraína væru mjög ólík lönd, en bæði þó á útjaðri Evrópu. Ég kvað eðlilegt, að Úkraínumenn hefðu viljað stofnað eigið ríki. Þeir væru sérstök þjóð, þótt þeim hefði löngum verið stjórnað frá Moskvu. Norðmenn hefðu skilið við Svía 1905 og Íslendingar við Dani 1918 af sömu ástæðu.
Í ræðu minni rakti ég, hvernig stækkun markaða með auknum alþjóðaviðskiptum auðveldaði smækkun ríkja: Litlar þjóðir með opin hagkerfi gætu notið góðs af hinni alþjóðlegu verkaskiptingu á heimsmarkaðnum. Því stærri sem markaðurinn væri, því minni gætu ríkin orðin, enda hefði ríkjum heims snarfjölgað á seinna helmingi tuttugustu aldar.
Nú er Úkraína auðvitað engin smásmíði. En landið er samt tiltölulega lítið í samanburði við Rússland, sem nýlega hefur lagt undir sig vænan hluta landsins með hervaldi. Vandi tiltölulega lítilla ríkja með stóra og ásælna granna væri takmarkaður hernaðarmáttur. Að sumu leyti mætti leysa slíkan vanda með bandalögum eins og gert hefði verið með Atlantshafsbandalaginu. En sú lausn væri ekki alltaf í boði, og til væri önnur: að reyna að breyta Rússlandi innan frá. Með því væri ekki átt við, að landinu væri brugguð einhver launráð, heldur að Úkraína veitti með öflugu atvinnulífi og örum framförum svo gott fordæmi, að Rússar tækju upp betri siði. Þjóðirnar eru náskyldar og ættu að vera vinir.
Það fór til dæmis ekki fram hjá kínverskum kommúnistum, hversu örar framfarir urðu eftir miðja tuttugustu öld í öðrum kínverskum hagkerfum, í Hong Kong og á Singapúr og Taívan. Danir og Svíar hefðu á liðnum öldum barist hvorir við aðra, en nú væri stríð milli þessara norræna þjóða allt að því óhugsandi. Vonandi rynni slíkur dagur upp í samskiptum Úkraínumanna og Rússa.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 16. nóvember 2019.)
9.11.2019 | 17:15
Við múrinn
Berlínarmúrinn féll fyrir réttum þrjátíu árum, en sigur Vesturveldanna í Kalda stríðinu var ekki síst að þakka festu, framsýni og hyggindum þeirra Ronalds Reagans og Margrétar Thatchers. Þó var sagt fyrir um þessi endalok löngu áður í bók, sem kom út í Jena í Þýskalandi 1922, Die Gemeinwirtschaft eftir Ludwig von Mises, en þar rökstuddi hann, að kommúnismi gengi ekki upp. Þess vegna yrðu kommúnistar að grípa til kúgunar.
Kúgunin fór þó alveg fram hjá átta manna sendinefnd frá Íslandi á svokölluðu heimsmóti æskunnar í Austur-Berlín í júlílok 1973. Formaður nefndarinnar var Þorsteinn Vilhjálmsson eðlisfræðingur, og í skýrslu hennar var æskulýðssamtökum kommúnista þakkaðar frábærar móttökur og vel skipulagt mót. Enn sagði í skýrslu þeirra Þorsteins: Þjóðverjarnir, sem við hittum, voru yfirleitt tiltakanlega opnir, óþvingaðir og hrokalausir.
Auðvitað voru öll slík samtöl þaulskipulögð og undir ströngu eftirliti. En á sama tíma voru fimm ungir lýðræðissinnar staddir í Vestur-Berlín. Einn þeirra var Davíð Oddsson laganemi. Eftir að hann las skýrslu þeirra Þorsteins, skrifaði hann í Morgunblaðið, að hann hefði allt aðra sögu að segja úr stuttri heimsókn til Austur-Berlínar. Þetta væri lögregluríki, umkringt gaddavírsgirðingu og múr.
Tveir ungir Íslendingar við múrinn: annar klappaði svo kröftuglega uppi í salnum fyrir gestgjöfum sínum, að kvalastunurnar niðri í kjöllurum leynilögreglunnar drukknuðu í hávaða; hinn lagði við hlustir og heyrði hjartsláttinn í fangaklefunum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 9. nóvember 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook
26.10.2019 | 17:56
Sturla gegn Snorra
Snorri Sturluson hefur ekki notið sannmælis, því að andstæðingur hans (og náfrændi), Sturla Þórðarson, var oftast einn til frásagnar um ævi hans og störf. Sturla fylgdi Noregskonungi að málum og virðist hafa verið sannfærður um, að Íslendingum væri best borgið undir stjórn hans. Íslendinga saga hans var um land, sem vart fékk staðist sökum innanlandsófriðar, og í Hákonar sögu Hákonarsonar dró höfundur upp mynd af góðum konungi, sem ekkert gerði rangt.
Snorri hafði aðra afstöðu. Samúð hans var með friðsælum og hófsömum stjórnendum frekar en herskáum og fégjörnum, eins og sést til dæmis á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra og Orkneyjarjarlanna tveggja, Brúsa og Einars, í Heimskringlu. Snorri hagaði hins vegar jafnan orðum sínum hyggilega, svo að lesa þarf á milli lína í lýsingu hans á Ólöfunum tveimur, Tryggvasyni og Haraldssyni, sem boðuðu kristni og nutu þess vegna hylli kirkjunnar. Sagði hann undanbragðalaust frá ýmsum grimmdarverkum þeirra, svo að sú ályktun Einars Þveræings á Alþingi árið 1024 blasti við, að best væri að hafa engan konung.
Á þrettándu öld rákust jafnframt á tvær hugmyndir um lög, eins og Sigurður Líndal lagaprófessor hefur greint ágætlega. Hin forna, sem Snorri aðhylltist, var, að lög væru sammæli borgaranna um þær reglur, sem ýmist afstýrðu átökum milli þeirra eða jöfnuðu slík átök. Þetta voru hin gömlu, góðu lög, og þau voru umfram allt hemill valdbeitingar. Nýja hugmyndin var hins vegar, að lög væru fyrirmæli konungs, sem þegið hefði vald sitt frá Guði, en ekki mönnum, og beitt gæti valdi til að framfylgja þeim. Þegar sendimaður Noregskonungs, Loðinn Leppur, brást á Alþingi árið 1280 hinn reiðasti við, að búkarlar gerðu sig digra og vildu ekki treysta á náð konungs, var hann að skírskota til hins nýja skilnings á lögum.
Og enn rekast hugmyndir Snorra og Sturlu á.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. október 2019.)
19.10.2019 | 12:21
Hinn kosturinn 1262
Almennt er talið, að Íslendingar hafi ekki átt annars úrkosta árið 1262 en játast Noregskonungi og gjalda honum skatt gegn því, að hann friðaði landið, tryggði aðflutninga og virti lög og landssið. En er þessi skoðun óyggjandi? Því má ekki gleyma, að Íslendingar voru mjög tregir til, ekki síst af þeirri ástæðu, sem Snorri Sturluson lagði Einari Þveræingi í munn, að konungar væru ætíð frekir til fjárins.
Hvers vegna hefði Þjóðveldið ekki getað staðist án atbeina konungs? Þeim vísi að borgarastríði, sem hér mátti greina um miðja 13. öld, hefði ella lokið með sigri einhvers höfðingjans eða málamiðlun tveggja eða fleiri þeirra. Samgöngur voru komnar í það horf, að Íslendingar hefðu getað verslað við Skota, Englendinga eða Hansakaupmenn ekki síður en kaupmenn í Björgvin. Tvennt gerðist síðan skömmu eftir lok Þjóðveldisins, sem hefði hugsanlega rennt traustari stoðum undir það: Hinn ásælni og harðskeytti Hákon gamli lést í herför til Suðureyja árið 1263, og markaðir stækkuðu víða í Norðurálfunni fyrir íslenska skreið. Það hefði ekki verið Noregskonungi áhlaupsverk að senda flota yfir Atlantsála til að hernema landið, og enn erfiðara hefði verið að halda því gegn vilja landsmanna.
Vilhjálmur kardínáli af Sabína sagði þóttafullur árið 1247, að það væri ósannlegt, að land það þjónaði eigi undir einhvern konung sem öll önnur í veröldinni. Að vísu var athugasemd hans einkennileg, því að sjálfur hafði kardínálinn röskum tveimur áratugum áður verið fulltrúi páfa í löndum við Eystrasalt, sem voru ekki undir stjórn neins konungs, heldur þýskrar riddarareglu. Og eitt land í Norðurálfunni laut þá sem nú ekki neinum konungi: Sviss. Saga þess kann að veita vísbendingu um mögulega þróun Íslands. Árið 1291 stofnuðu þrjár fátækar fjallakantónur, Uri, Schwyz og Unterwalden, svissneska bandaríkið, Eidgenossenschaft, og smám saman fjölgaði kantónum í því, þótt það kostaði hvað eftir annað hörð átök, uns komið var til sögunnar Sviss nútímans, sem þykir til fyrirmyndar um lýðræðislega stjórnarhætti, auk þess sem það er eitt auðugasta land heims.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 19. október 2019.)
19.10.2019 | 12:17
Hvers vegna skrifaði Snorri?
Eftir Snorra Sturluson liggja þrjú meistaraverk, Edda, Heimskringla og Egla. En hvað rak hann til að setja þessar bækur saman? Hann varð snemma einn auðugasti maður Íslands og lögsögumaður 12151218 og 1222-1231. Hann hafði því í ýmsu öðru að snúast.
Snorri var skáldmæltur og hefur eflaust ort af innri þörf. En ég tek undir með prófessor Kevin Wanner, sem hefur skrifað um það bókina Snorri Sturluson and the Edda, að einföld skýring sé til á því, hvers vegna hann setti Eddu saman. Íslendingar höfðu smám saman öðlast einokun á sérstæðri vöru: lofkvæðum um konunga. Þessari einokun var ógnað, þegar norrænir konungar virtust fyrir suðræn áhrif vera að missa áhugann á slíkum lofkvæðum. Snorri samdi Eddu til að endurvekja áhugann á þessari bókmenntagrein og sýna þeim Hákoni Noregskonungi og Skúla jarli, hvers skáld væru megnug. Þeir kunnu raunar vel að meta framtak hans og gerðu hann að lendum manni, barón, í utanför hans 12181220.
Svipuð skýring á eflaust að einhverju leyti við um, hvers vegna Snorri samdi Heimskringlu á árunum 12201237. En fleira bar til. Íslendingar voru í hæfilegri fjarlægð til að geta skrifað um Noregskonunga. Þótt Snorri gætti sín á að styggja ekki konung, má lesa út úr verkinu tortryggni á konungsvald og stuðning við þá fornu hugmynd, að slíkt vald sé ekki af Guðs náð, heldur með samþykki alþýðu. Með þjóðsögunni um landvættirnar varaði Snorri konung við innrás, og í ræðu Einars Þveræings hélt hann því fram, að best væri að hafa engan konung.
Tortryggnin á konungsvald er enn rammari í Eglu, sem er beinlínis um mannskæðar deilur framættar Snorra við norsku konungsættina. Egill Skallagrímsson stígur þar líka fram sem sjálfstæður og sérkennilegur einstaklingur, eins og Sigurður Nordal lýsir í Íslenskri menningu. Hann er ekki laufblað á grein, sem feykja má til, heldur með eigin svip, skap, tilfinningalíf. Líklega hefur Snorri samið Eglu eftir síðari utanför sína 12371239, en þá hafði konungur snúist gegn honum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. október 2019.)
5.10.2019 | 08:38
Stjórnmálahugmyndir Snorra Sturlusonar
Snorri Sturluson var frjálslyndur íhaldsmaður, eins og við myndum kalla það. Fimm helstu stjórnmálahugmyndir hans getur að líta í Heimskringlu og Eglu.
Hin fyrsta er, að konungsvald sé ekki af náð Guðs, heldur með samþykki alþýðu. Haraldur hárfagri lagði að vísu Noreg undir sig með hernaði og sló síðan eign sinni á allar jarðir, en sonur hans, Hákon Aðalsteinsfóstri, bað bændur að taka sig til konungs og hét þeim á móti að skila þeim jörðum. Síðari konungar þurftu að fara sama bónarveg að alþýðu.
Önnur hugmyndin er, að með samþykkinu sé kominn á sáttmáli konungs og alþýðu, og ef konungur rýfur hann, þá má alþýða rísa upp gegn honum. Þetta sést best á frægri ræðu Þórgnýs lögmanns gegn Svíakonungi, en einnig á lýsingu Snorra á sinnaskiptum Magnúsar góða.
Hin þriðja er, að konungar séu misjafnir. Góðu konungarnir eru friðsamir og virða landslög. Vondu konungarnir leggja á þunga skatta til að geta stundað hernað. Þetta sést ekki aðeins á samanburði Haraldar hárfagra og Hákonar Aðalsteinsfóstra, heldur líka á mannjöfnuði Sigurðar Jórsalafara og Eysteins og raunar miklu víðar í Heimskringlu og ekki síður í Eglu.
Af þeirri staðreynd, að konungar séu misjafnir, dregur Snorri þá ályktun, sem hann leggur í munn Einari Þveræingi, að best sé að hafa engan konung. Íslendingar miðalda deildu þeirri merkilegu hugmynd aðeins með einni annarri Evrópuþjóð, Svisslendingum.
Fimmta stjórnmálahugmundin er í rökréttu framhaldi af því. En ef landsmenn vilja halda frelsi sínu, því er þeir hafa haft, síðan er land þetta byggðist, þá mun sá til vera að ljá konungi einskis fangstaðar á. Íslendingar skuli vera vinir Noregskonungs, flytja honum drápur og skrifa um hann sögur, en þeir skuli ekki vera þegnar hans í sama skilningi og Norðmenn.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. október 2019.)
29.9.2019 | 15:20
Utanríkisstefna Hannesar, Ólafs og Snorra
Jón Þorláksson lýsti viðhorfi samstarfsmanns síns, Hannesar Hafsteins ráðherra, til utanríkismála svo í Óðni 1923, að hann vildi afla landinu þeirra sjálfstæðismerkja og þess sjálfstæðis, sem frekast var samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi danskra stjórnmálamanna og fjármálamanna og áhuga þeirra fyrir að veita þessu landi stuðning í verklegri framfaraviðleitni sinni. Hannes var Danavinur, hvorki Danasleikja né Danahatari.
Að breyttu breytanda fylgdi Ólafur Thors sams konar stefnu, eins og Þór Whitehead prófessor skrifaði um í Skírni 1976: Ólafur vildi verja fullveldi þjóðarinnar eins og frekast væri samrýmanlegt þeirri hugsun að halda vinfengi Bandaríkjamanna, sem veitt gátu Íslendingum ómetanlegan stuðning. Honum og Bjarna Benediktssyni tókst vel að feta það þrönga einstigi eftir síðari heimsstyrjöld. Þeir voru Bandaríkjavinir, hvorki Bandaríkjasleikjur né Bandaríkjahatarar.
Þriðji stjórnmálamaðurinn í þessum anda var Snorri Sturluson. Hann hafði verið lögsögumaður frá 1215 til 1218, en fór þá til Noregs til að koma í veg fyrir hugsanlega árás Norðmanna á Ísland, en þeir Hákon konungur og Skúli jarl voru Íslendingum þá ævareiðir vegna átaka við norska kaupmenn. Jafnframt vildi Snorri endurvekja þann íslenska sið að afla sér fjár og frægðar með því að yrkja konungum lof. Honum tókst ætlunarverk sitt, afstýrði innrás og gerðist lendur maður konungs (barón).
Snorri hefur eflaust sagt Hákoni og Skúla hina táknrænu sögu af því, þegar Haraldur blátönn hætti við árás á Ísland, eftir að sendimaður hans hafði sér til hrellingar kynnst landvættum, en hana skráði Snorri í Heimskringlu. Og í ræðu þeirri, sem hann lagði Einari Þveræingi í munn, kemur fram sams konar hugsun og hjá Hannesi og Ólafi: Verum vinir Noregskonungs, ekki þegnar hans eða þý. Við þetta sætti konungur sig hins vegar ekki, og var Snorri veginn að ráði hans 1241.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. september 2019.)
21.9.2019 | 13:11
Góð saga er alltaf sönn
Tveir fróðir menn hafa skrifað mér um síðasta pistil minn hér í blaðinu, en hann var um fræga sögu af orðaskiptum Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur, og Jónasar Jónssonar frá Hriflu dómsmálaráðherra á steinbryggjunni í Reykjavík 25. júní 1930. Dóttursonur Jónasar, Sigurður Steinþórsson, segir afa sinn hafa sagt sér söguna svo: Konungur hafi spurt: Så De er Islands lille Mussolini? Jónas hafi svarað: I Deres rige behøves ingen Mussolini. Er sagan í þessari gerð mjög svipuð þeirri, sem við Guðjón Friðriksson höfum sagt í bókum okkar. Í pistli mínum rifjaði ég upp, að Morgunblaðið hefði véfengt söguna og sagt hið snjalla tilsvar Jónasar tilbúning hans. Sigurður bendir réttilega á, að Morgunblaðið fjandskapaðist mjög við Jónas um þær mundir, svo að það væri ekki áreiðanleg heimild.
Best finnst mér að vísu sagan vera eins og Ludvig Kaaber sagði hana dönskum blaðamanni eftir Jónasi þegar í ágúst 1930, og hefur hún það einnig sér til gildis, að viðtalið við Kaaber er samtímaheimild. Samkvæmt henni sagði konungur við Jónas á steinbryggjunni: Der har vi vor islandske Mussolini? Þá svaraði Jónas: En Mussolini er ganske unødvendig i et land, der regeres af Deres Majestæt. Góð saga er alltaf sönn, því að hún flytur með sér sannleik möguleikans. Ekki verður afsannað, að Jónas hafi sagt þetta, og vissulega gæti hann hafa sagt þetta. Tilsvarið er honum líkt.
Konungur var oft ómjúkur í orðum og virðist hafa lagt fæð á Jónas (sem var eindreginn lýðveldissinni). Hinn maðurinn, sem skrifaði mér, Borgþór Kærnested, hefur kynnt sér dagbækur konungs um Ísland. Hann segir konung hafa veitt náfrænda Tryggva Þórhallssonar og mági, Halldóri Vilhjálmssyni á Hvanneyri, áheyrn vorið 1931 og þá beðið hann að skila því til Tryggva að skipa Jónas ekki aftur ráðherra. (Jónas hafði vikið tímabundið úr ríkisstjórn eftir þingrofið það ár.) Ekki varð úr því, og þegar Jónas var skipaður aftur ráðherra, færði konungur í dagbók sína: Menntamálaráðherra Íslands, Jónas Jónsson, mætti í áheyrn hjá mér. Ég byrjaði á að fagna komu hans og að það hefði glatt mig að geta skipað hann aftur í stöðu menntamálaráðherra Íslands.
Verður fróðlegt að lesa væntanlega bók Borgþórs um samskipti konungs og Íslendinga.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 21. september 2019.)
14.9.2019 | 07:48
Þegar kóngur móðgaði Jónas
Í Fróðleiksmola árið 2011 velti ég því fyrir mér, hvers vegna Íslendingar settu kónginn af árið 1944, en létu sér ekki nægja að taka utanríkismál og landhelgisgæslu í sínar hendur, eins og tvímælalaust var tímabært. Ein skýringin var, hversu hranalegur Kristján konungur X. gat verið við Íslendinga. Sagði ég söguna af því, hvernig hann ávarpaði Jónas Jónsson frá Hriflu á Alþingishátíðinni 1930: Svo að þér eruð sá, sem leikið lítinn Mússólíni hér á landi? Jónas á að hafa roðnað af reiði, en stillt sig og svarað: Við þörfnumst ekki slíks manns hér á landi, yðar hátign.
Um þetta atvik fór ég eftir fróðlegri ævisögu Jónasar eftir Guðjón Friðriksson. En þegar ég var að grúska í gömlum blöðum á dögunum, tók ég eftir því, að sögunni var á sínum tíma vísað á bug. Ein fyrsta fregnin af þessu atviki var í Morgunblaðinu 13. júlí 1930. Sagði þar, að konungur hefði vikið sér að Jónasi og heilsað honum sem hinum litla Mússólíni Íslands, þegar hann steig á land í Reykjavík 25. júní. En Jónasi varð svo mikið um þetta ávarp, að hann kiknaði í hnjáliðunum og fór allur hjá sér. Erlendir blaðamenn og fregnritarar voru þar margir viðstaddir.
Morgunblaðið minntist aftur á atvikið 15. ágúst, þegar það skýrði frá viðtali við Ludvig Kaaber bankastjóra í dönsku blaði. Kvaðst Kaaber hafa það eftir Jónasi sjálfum, að kóngur hefði sagt: Þarna kemur okkar íslenski Mússólíni? Þá hefði Jónas svarað með bros á vör: Mússólíni er algerlega óþarfur í því landi, sem yðar hátign stjórnar. Hefði kóngur látið sér svarið vel líka. En Morgunblaðið andmælti sögu Kaabers og kvað marga votta hafa verið að samtalinu á steinbryggjunni 25. júní. Sagan væri aðeins um, hvernig Jónas eftir á hefur hugsað sér, að hann hefði viljað hafa svarað.
Ef til vill var tilsvar Jónasar, eins og við Guðjón höfðum það eftir, aðeins dæmi um það, sem Denis Diderot kallaði lesprit de lescalier eða andríki anddyrisins: Hið snjalla tilsvar, sem okkur dettur í hug eftir á.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. september 2019. Myndin er af Jónasi við Stjórnarráðið.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:11 | Slóð | Facebook
7.9.2019 | 06:32
Bandaríkin ERU fjölbreytileiki
Ég kenndi nokkrum sinnum námskeiðið Bandarísk stjórnmál í félagsvísindadeild og hafði gaman af. Ég benti nemendum meðal annars á, að Guðríður Þorbjarnardóttir hefði verið fyrsta kona af evrópskum ættum til að fæða barn þar vestra, Snorra Þorfinnsson haustið 1008. Fyrirmynd Mjallhvítar í Disney-myndinni frægu hefði verið íslensk, Kristín Sölvadóttir úr Skagafirði, en unnusti hennar var teiknari hjá Disney. Eitt sinn kom Davíð Oddsson í kennslustund til okkar og sagði okkur frá þeim fjórum Bandaríkjaforsetum, sem hann hafði hitt, Ronald Reagan, Bush-feðgum og Bill Clinton, en góð vinátta tókst með þeim Davíð, Bush yngra og Clinton. Sagði hann margar skemmtilegar sögur af þeim. Ég lét hvern nemanda námskeiðsins halda þrjú framsöguerindi, eitt um einhvern forseta Bandaríkjanna (til dæmis Jefferson eða Lincoln), annað um kvikmynd, sem sýndi ýmsar hliðar á stjórnmálum í Bandaríkjunum (til dæmis Mr. Smith goes to Washington eða JFK), hið þriðja um stef úr bandarískri sögu og samtíð (til dæmis tekjudreifingu, fjölmiðla og kvenfrelsi).
Í þessu námskeiði kom hinn mikli fjölbreytileiki þessarar fjölmennu þjóðar vel í ljós, og er hann líklega hvergi meiri. Þar er allt, frá hinu besta til hins versta, auður og örbirgð, siðavendni og gjálífi, hámenning og lágkúra og allt þar á milli, kristni, gyðingdómur, íslam og rammasta heiðni. Hvergi standa heldur raunvísindi með meiri blóma. Aðalatriðið er þó ef vill hreyfanleikinn, hin lífræna þróun, sem Alexis de Tocqueville varð svo starsýnt á forðum. Bandaríkjamenn eru alltaf að leita nýrra leiða, greiða úr vandræðum.
Bandaríkin hafa verið suðupottur. En þau hafa einnig verið segull á fólk úr öllum heimshornum, þar sem því hefur tekist að búa saman í sæmilegri sátt og skapa ríkasta land heims. Tugmilljónir örsnauðra innflytjenda brutust þar í bjargálnir. Bandaríski draumurinn rættist, því að hann var draumur venjulegs alþýðufólks um betri hag, ekki krafa menntamanna um endursköpun skipulagsins eftir hugarórum þeirra sjálfra. Bandaríkin eru sjálf mesti bragurinn, orti Walt Whitman. Það var því kynlegt að sjá á dögunum fulltrúa einsleitustu þjóðar heims, Íslendinga, ota táknum um fjölbreytileika að varaforseta Bandaríkjanna í stuttri heimsókn hans til landsins.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. september 2019.)