5.9.2019 | 15:47
Fróðleg ráðstefna síðdegis á föstudag
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:51 | Slóð | Facebook
31.8.2019 | 08:00
Falsfréttir um regnskóga
Ætti að mega treysta einhverju, þá ætti það að vera vísindavefur Háskóla Íslands. En þar segir Jón Már Halldórsson líffræðingur um regnskógana í Amasón: Regnskógarnir eru sagðir vera lungu jarðar. Margir fræðimenn telja að um 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amazon-skógunum í Suður-Ameríku. Fréttamenn hafa síðustu daga vitnað í þessa speki í tilefni skógarelda þar syðra.
Auðvitað eru regnskógarnir ekki lungu jarðar, eins og líffræðingurinn ætti manna best að vita. Með lungunum öndum við að okkur súrefni og öndum síðan frá okkur koltvísýringi. En tré og aðrar plöntur í regnskógum og annars staðar gefa frá sér súrefni og taka til sín (binda) koltvísýring. Verkan þeirra er því þveröfug við verkan lungna.
Hvaðan fær líffræðingurinn það síðan, að 20% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi? Raunar virðist enginn vita, hvernig þessi tala komst á kreik, en hún er röng. Jafnvel umhverfisöfgamaður eins og Michael Mann (sem haldið hefur fyrirlestra í Háskóla Íslands) viðurkennir, að innan við 6% af nýmyndun súrefnis á jörðinni eigi sér stað í Amasónskógi. Talan lækki, játar Mann, ef í stað skóganna er settur þar niður annar gróður, til dæmis nytjajurtir, en þær framleiða vitaskuld einnig súrefni með ljóstillífun. Raunar er líklegast, þar sem tré í skógi geta rotnað eða eyðst á annan hátt og þannig tekið til sín súrefni, að engin (eða sáralítil) nýmyndun súrefnis eigi sér þar stað. Líffræðingurinn ætti einnig að vita, að megnið af nýmyndun súrefnis í jarðarhjúpnum á sér stað í sjávargróðri, aðallega svifþörungum.
Það er líka rangt, að skógareldarnir í Amasón séu óvenjumiklir þetta árið. Þeir eru í meðallagi miðað við síðustu fimmtán ár og raunar talsvert minni en skógareldar, sem geisa um þessar mundir í Afríku og Asíu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. ágúst 2019.)
24.8.2019 | 10:36
23. ágúst 1939
Í gær voru rétt 80 ár liðin frá því, að Stalín og Hitler gerðu griðasáttmála. Þar skiptu þeir með sér Mið- og Austur-Evrópu. Stalín fékk í sinn hlut Eystrasaltsríkin, Finnland og austurhluta Póllands, en Hitler vesturhluta Póllands. Þegar Hitler réðst inn í Pólland að vestan 1. september 1939, sögðu Bretar og Frakkar honum stríð á hendur, en þegar Stalín réðst inn í Pólland að austan 17. september, höfðust ríkin tvö ekki að. Eystrasaltslöndin töldu sig ekki hafa afl til að hafna kröfu Stalíns um herstöðvar. En þegar hann krafðist hins sama af Finnum, neituðu þeir og börðust hetjulega í Vetrarstríðinu svokallaða fram á vor 1940, en urðu þá að lúta ofureflinu.
Griðasáttmálinn vakti hvarvetna uppnám í röðum ráðstjórnarvina, sem höfðu löngum talið nasista höfuðandstæðinga sína. Þetta átti líka við í Sósíalistaflokknum íslenska, sem stofnaður hafði verið haustið áður við samruna vinstri sósíalista og kommúnista. Vinstri sósíalistar kröfðust þess, að flokkurinn fordæmdi landvinninga Stalíns, en kommúnistar harðneituðu. Skömmu eftir árás Hitlers á Póllandi hitti Þórbergur Þórðarson Guðmund Finnbogason landsbókavörð á Hótel Borg. Þá sagðist Þórbergur skyldu hengja sig, ef Stalín réðist á Póllandi. Eftir árás Stalíns birti hann ámátlega varnargrein, þar sem hann sagðist hafa sagt það eitt, að hann skyldi hengja sig, ef Stalín hæfi þátttöku í stríðinu við hlið Hitlers. Halldór Kiljan Laxness skrifaði í Þjóðviljann, að það ætti að vera fagnaðarefni, ef íbúar Vestur-Úkraínu eins og hann kallaði Austur-Pólland, yrðu þegnar Stalíns.
Griðasáttmálinn er til marks um, að Heimsstyrjöldin síðari var í rauninni tvö stríð. Frá hausti 1939 til sumars 1941 áttu Bretar og Frakkar í höggi við Hitler, sem var í eins konar bandalagi við Stalín. Frá sumri 1941, þegar Hitler rauf griðasáttmálann og réðst á Stalín, börðust Bretar og Rússar við Þjóðverja, en Frakkar voru úr leik. Í árslok 1941 gengu Bandaríkjamenn í lið með Bretum og Rússum, en Japanir með Þjóðverjum, og voru þá úrslitin ráðin: Enginn stenst Bandaríkin, ef þau beita sér.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. ágúst 2019.)
17.8.2019 | 06:44
Hænurnar 97
Ein fjöður getur ekki aðeins orðið að fimm hænum, eins og segir í orðtakinu. Hún getur orðið að 97 hænum. Staglast er á því í fjölmiðlum, að 97 af hundraði vísindamanna telji hnattræna hlýnun vera af manna völdum. Nú efast ég ekki um það, að hlýnað hafi síðustu áratugi: ég man þá tíð fyrir hálfri öld, er skólahald var stundum fellt niður í Reykjavík vegna veðurs og strætisvagnar ösluðu um á keðjum. Ég hef aðeins bent á tvennt, sem liggur í augum uppi. Í fyrsta lagi er afar ólíklegt, að nú muni skyndilega ekki lengur um náttúrlegar loftslagsbreytingar eins og orðið hafa frá aldaöðli. Í öðru lagi er alls óvíst, að loftslagið, sem var í heiminum um og eftir 1990, þegar hlýnunin hófst, sé hið eina ákjósanlega. Hlýnun jafnt og kólnun hafa í senn jákvæðar og neikvæðar afleiðingar.
Uppruni staglsins um 97 vísindamenn af hundraði er í rannsókn eftir eðlisfræðinginn John Cook og fleiri, sem greint var frá í veftímariti árið 2013. Þar voru skoðaðir rösklega 11 þúsund útdrættir úr ritrýndum ritgerðum um loftslagsmál tímabilið 19912011. Cook og félagar héldu því fram, að samkvæmt rannsókninni teldu 97 af hundraði vísindamanna hnattræna hlýnun vera af manna völdum (97.1% endorsed the consensus position that humans are causing global warming).
Þegar grein þeirra Cooks er skoðuð nánar, kemur þó annað í ljós, eins og eðlisfræðingurinn og hagfræðingurinn David Friedman hefur bent á. Í tveimur þriðju hlutum ritgerðanna er engin afstaða tekin til þess, hvort hnattræn hlýnun sé af manna völdum. En hvað um þann einn þriðja hluta, þar sem afstaða er tekin? Í rannsókn sinni flokkuðu Cook og félagar ritgerðir, þar sem hnattræn hlýnun var talin af manna völdum, í þrennt. Í fyrsta flokki voru ritgerðir, þar sem sagt var beint, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, og lögð fram töluleg gögn um það. Í öðrum flokki voru ritgerðir, þar sem fullyrt var, að hnattræn hlýnun væri að miklu leyti af manna völdum, án þess að sérstakar tölur væru nefndar. Í þriðja flokknum voru ritgerðir, þar sem sagt var óbeint, að hnattræn hlýnun væri að einhverju leyti af manna völdum.
Af þeim ritgerðum, þar sem afstaða var tekin, voru 1,6% í fyrsta flokki, 23% í öðrum flokki og 72% í þriðja flokki. Þess vegna hefði verið nákvæmara að segja, að 1,6% vísindamanna, sem birt hefðu ritrýndar ritgerðir um loftslagsmál, héldu því fram, að hnattræn hlýnun væri mestmegnis af manna völdum, en að þorri vísindamanna teldi menn hafa einhver áhrif á loftslagsbreytingar án þess að horfa fram hjá hlut náttúrunnar sjálfrar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. ágúst 2019.)
10.8.2019 | 07:48
Tvær gátur Njáls sögu
Brennu-Njáls saga er ekki aðeins lengsta Íslendingasagan, heldur líka sú, sem leynir helst á sér. Ég hef lengi velt fyrir mér tveimur gátum sögunnar í ljósi þeirrar leiðarstjörnu hagfræðinnar, að óskynsamleg hegðun kann að verða skiljanleg, þegar gætt er að þeim skorðum, sem söguhetjum eru settar, valinu um vondan kost eða óþolandi.
Ein gátan er, hvers vegna Gunnar sneri aftur, rauf með því sátt við andstæðinga sína og kostaði til lífinu. Í kvæðinu Gunnarshólma skýrir Jónas Hallgrímsson þetta með ættjarðarást. Sú tilgáta er tímaskekkja, því að sú tilfinning var varla til á Þjóðveldisöld. Í formála Brennu-Njáls sögu skýrir Einar Ól. Sveinsson atvikið með metnaði Gunnars. Hann hafi ekki viljað auðmýkja sig. En sú tilgáta stríðir gegn eðli Gunnars samkvæmt sögunni. Sennilegast er, þegar honum varð litið að Hlíðarenda, þar sem Hallgerður sat eftir, að hann hafi ekki viljað skilja hana eina eftir. Sagan geymir vísbendingu: Í 41. kafla segir, að Hallgerður hafi þjónað Sigmundi Lambasyni eigi verr en bónda sínum. Hjónabandið var Gunnari og Hallgerði báðum girndarráð, en Gunnar hafði samt fulla ástæðu til að vantreysta Hallgerði.
Önnur gátan er, hvers vegna Njáll hörfaði inn í húsið á Bergþórshvoli, þótt hann vissi, að með því gæfi hann umsátursmönnum færi á brennu. Líklega fyrirgaf Njáll aldrei sonum sínum víg Höskuldar Hvítanessgoða, sem hann unni heitar en þeim. Hann taldi þá eiga refsingu skilið, þótt hann gæti sjálfur ekki framkvæmt hana, þar eð hann var faðir þeirra. Sagan geymir vísbendingu, þegar Njáll segir í 129. kafla, að Guð muni oss eigi láta brenna bæði þessa heims og annars. Brennan var öðrum þræði syndaaflausn Njáls fyrir hönd sona hans, þótt hann sæi ef til vill ekki fyrir, að Bergþóra og Þórður Kárason myndu vilja fylgja honum hinsta spölinn.
Við greiningu á aðstæðum verður óskynsamleg hegðun skyndilega skiljanleg. Hinn kosturinn var verri: Gunnar þoldi ekki tilhugsunina um, að Hallgerður lægi með öðrum mönnum. Njáll þoldi sonum sínum ekki að hafa vegið Höskuld Hvítanessgoða og vildi milda refsingu Guðs.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. ágúst 2019. Teikningin er eftir Jón Hámund og skreytir útdrátt minn á ensku úr Njáls sögu, The Saga of Burnt Njal.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:51 | Slóð | Facebook
3.8.2019 | 11:25
Frá Gimli í Grynningum
Þegar Kristófer Kólumbus fann aftur Vesturheim 1492, eftir að Íslendingar höfðu týnt álfunni fimm hundruð árum áður, kom hann fyrst að einni eyjunni í eyjaklasa, sem hann nefndi Bahamas og merkir grunnsævi. Mætti því nefna eyjaklasann Grynningar á íslensku. Ein eyjan ber nafnið Paradise Island, og ætti því íslenska nafnið að vera Gimli. Bandarísku samtökin Association of Private Enterprise Education, Samtök um einkaframtaksfræði, héldu ársfund sinn í Gimli á Grynningum í apríl 2019, og flutti ég þar erindi 6. apríl um norræna frjálshyggju, eins og ég hef gert víðar á þessu ári.
Norðurlandaþjóðirnar búa að langri og sterkri frjálshyggjuhefð. Til dæmis hafði sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius sett fram kenninguna um samband ávinningsvonar og almannahags í krafti frjálsrar samkeppni á undan Adam Smith, og frjálslyndir sænskir stjórnmálamenn nítjándu aldar beittu sér fyrir víðtækum umbótum, sem hleyptu af stað örum og samfelldum hagvexti í marga áratugi, og má kalla það fyrstu sænsku leiðina. Velgengni Svía á tuttugustu öld hvíldi eins og annarra Norðurlandaþjóða á öflugu réttarríki, opnu hagkerfi og samheldni og sáttarhug vegna samleitni þjóðarinnar. Það var ekki fyrr en árin 19701990, sem sænskir jafnaðarmenn lögðu inn á braut ofurskatta og stórfelldra afskipta af atvinnulífinu.
Önnur sænska leiðin, sem farin var 19701990, reyndist ófær. Svíar voru lentir öfugum megin á Laffer-boganum svonefnda, þar sem aukin skattheimta hafði ekki í för með sér auknar skatttekjur, heldur minnkandi. Sjá mátti í Svíþjóð þá sviðsmynd, sem Ayn Rand hafði brugðið upp í skáldsögunni Undirstöðunni (Atlas Shrugged), en hún hefur komið út á íslensku: Þeir, sem sköpuðu verðmæti, hurfu ýmist á brott, hættu að framleiða eða fitjuðu ekki upp á nýjungum. Í einkageiranum urðu nánast engin störf til á þessu tímabili, aðeins í opinbera geiranum. En nú reyndist Svíum vel samheldnin og sáttarhugurinn: Með þjóðinni myndaðist óskráð samkomulag frá 1990 og áfram um að fara þriðju sænsku leiðina, sem felst ekki síst í að efla einkaframtak og halda sköttum í hófi. Geta aðrar þjóðir lært margt af Svíum, eins og ég sagði áheyrendum mínum í Gimli á Grynningum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. ágúst 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:00 | Slóð | Facebook
27.7.2019 | 05:39
Bláa hagkerfið í Gdansk
Á fyrra helmingi ársins 2019 flutti ég átta fyrirlestra opinberlega, sex þeirra erlendis. Hinn fyrsti þeirra var á ráðstefnu í Gdansk í Póllandi 22. mars um bláa hagkerfið, en Anna Fotyga, þingmaður á Evrópuþinginu og fyrrverandi utanríkisráðherra Póllands, boðaði til ráðstefnunnar. Ég lýsti þar stuttlega kvótakerfinu íslenska, sem ég hef skrifað um tvær bækur á ensku, Overfishing: The Icelandic Solution, sem Institute of Economic Affairs gaf út í Lundúnum 2000, og The Icelandic fisheries: Sustainable and Profitable, sem Háskólaútgáfan gaf út í Reykjavík 2015. Eru bæði ritin aðgengileg ókeypis á Netinu.
Eftir því sem árin hafa liðið, hef ég áttað mig betur á tveimur aðalatriðum kvótakerfisins, og reyndi ég að koma þeim til skila í þessum fyrirlestri. Annað er, hvaða munur er á ókeypis úthlutun seljanlegra aflaheimilda í upphafi eins og þeirri, sem framkvæmd var á Íslandi í áföngum 19791990, og opinberum leigumarkaði með aflaheimildir, eins og sumir hagfræðingar börðust fyrir á sínum tíma. Munurinn er, að fyrri aðferðin er hagfræðilega réttari, því að hún er Pareto-hagkvæm, sem kallað er. Breyting er Pareto-hagkvæm, ef enginn tapar og allir eða að minnsta kosti sumir græða á henni. Við ókeypis úthlutun græddi ríkið á hagkvæmari fiskveiðum. Þeir, sem héldu í aflaheimildir sínar og keyptu nýjar, græddu. Þeir, sem seldu aflaheimildir og hættu veiðum, græddu líka. En hefði fiskimiðunum verið lokað og aflaheimildir verið leigðar hæstbjóðendum, þá hefði ríkið að vísu grætt leigutekjurnar. Þeir, sem hefðu haft fjárhagslegt bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu hvorki grætt né tapað, því að þeir hefðu notað það fé í að leigja aflaheimildir, sem þeir sóuðu áður í offjárfestingar. En þeir, sem hefðu ekki haft bolmagn til að leigja aflaheimildir, hefðu tapað, því að allar þeirra fjárfestingar hefðu í einni svipan orðið verðlausar.
Hitt aðalatriðið er, að enginn verðmætur réttur var tekinn af öðrum, þegar fiskimiðunum var lokað. Eini rétturinn, sem aðrir en kvótahafar voru þá sviptir, var rétturinn til að gera út á núlli, en fiskihagfræðin kennir okkur, að sú verður niðurstaðan, ef fiskimiðin eru opin öllum, því að þá aukast fiskveiðar að því marki, að kostnaður verður jafnmikill ávinningi. Þessi réttur er því eðli málsins samkvæmt verðlaus.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. júlí 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 05:42 | Slóð | Facebook
20.7.2019 | 18:17
Grænn kapítalismi í Las Vegas
Árlega halda frjálslyndir menn og íhaldssamir í Bandaríkjunum, andstæðingar vinstri stefnu, eins konar uppskeruhátíð, bera saman bækur sínar og sýna kvikmyndir, í Las Vegas undir heitinu Freedomfest, frelsisveisla. Er hún mjög fjölmenn og fjölbreytni mikil í vali fyrirlesara og umræðuefna. Mér var boðið að halda þar fyrirlestur 17. júlí 2019 um grænan kapítalisma, en um hann skrifaði ég bókarlanga skýrslu á ensku fyrir hugveituna New Direction í Brüssel 2017.
Í fyrirlestrinum gerði ég greinarmun á hófsamri umhverfisverndarstefnu (wise use environmentalism), þar sem stefnt er að sjálfbærri og arðbærri nýtingu náttúruauðlinda, og öfgaumhverfisstefnu (ecofundamentalism), þar sem náttúran er gerð að sjálfstæðum rétthafa æðri venjulegu fólki og stefnt að friðun frekar en verndun. Benti ég á, að öfgaumhverfisstefna bæri svip af ofsatrú og ætti sínar heilögu kýr eins og hindúasiður.
Ef markmiðið er hins vegar verndun, þá krefst hún raunverulegra verndara. Til dæmis er unnt að breyta veiðiþjófum í Afríku í veiðiverði með einu pennastriki: með því að gera þá að eigendum dýrastofna í útrýmingarhættu, svo sem fíla og nashyrninga, en bein fílanna og horn nashyrninganna eru eftirsótt. Raunhæfasta ráðið til að tryggja skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda er að skilgreina eigna- eða afnotaréttindi á þeim, koma þeim í umsjá. Í því sambandi lýsti ég stuttlega kvótakerfinu í íslenskum sjávarútvegi, en við Íslendingar búum ólíkt flestum öðrum þjóðum við sjálfbært og arðbært kerfi í fiskveiðum.
Úr því að ég var í Bandaríkjunum, gat ég ekki stillt mig um að gera hvalveiðar að umtalsefni, en Bandaríkjamenn hafa lengi krafist þess með nokkrum þjósti, að við hættum hvalveiðum. Virðast hvalir vera umhverfisöfgamönnum sem heilagar kýr. Ég minnti á, að á Íslandsmiðum veiðum við árlega um og yfir einni milljón lesta (tonna) af fiski, en hvalir éta á sama tíma um sex milljónir lesta af sjávarfangi og fiski. Krafa öfgaumhverfissinna er með öðrum orðum, að við fóðrum hvalina á eigin kostnað, en fáum ekki að veiða þá. Þeir verða þá eins og freki bóndinn, sem rekur sauði sína í bithaga annarra, en harðneitar grönnum sínum um nytjar af þeim.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. júlí 2019.)
13.7.2019 | 08:11
Ekki er allt sem sýnist
Eitt meginhlutverk vísindanna er að gera greinarmun á sýnd og reynd, skynveruleika og raunveruleika. Það er að endurskoða og leiðrétta þá mynd af veruleikanum, sem við fáum fyrir tilstilli skynfæranna. Jörðin sýnist til dæmis flöt, en er í raun hnöttótt. Annað dæmi er munurinn á nafnvöxtum og raunvöxtum: Ef maður tekur lán á 5% vöxtum í 3% verðbólgu, þá eru raunvextir 2%, þótt nafnvextir séu 5%.
Mér varð hugsað til þessa greinarmunar á sýnd og reynd, þegar Sjálfstæðisflokkurinn varð níræður á dögunum. Það er alveg rétt, sem jafnan er sagt, að hann varð til, þegar Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust 25. maí 1929. Síðan er iðulega sagt með skírskotun til þess, að í flokknum takist á frjálslynd öfl og íhaldssöm.
Menn mega þó ekki láta nöfnin blekkja sig. Íhaldsflokkurinn var í raun frjálslyndur flokkur, en Frjálslyndi flokkurinn íhaldssamur. Þetta má sjá með því að kynna sér stefnuskrár flokkanna, starfsemi og verk. Jón Þorláksson stofnaði Íhaldsflokkinn 24. febrúar 1924, vegna þess að hann vildi halda í fengið frelsi, eins og hann skýrði út í snjallri grein í Eimreiðinni 1926. Hann vildi verja þetta frelsi gegn nýstofnuðum stéttarflokkum, Framsóknarflokki bænda og Alþýðuflokki verkalýðsrekenda. Ólíkt frjálslyndishugtakinu er íhaldshugtakið afstætt frekar en sjálfstætt: Öllu máli skiptir, í hvað er haldið. Þegar Jón var fjármálaráðherra 19241927, jók hann atvinnufrelsi með því að leggja niður ríkisfyrirtæki og lækka skuldir hins opinbera. Sigurður Eggerz, leiðtogi Frjálslynda flokksins, hafði hins vegar verið örlátur á almannafé, á meðan hann var fjármálaráðherra 19171920, og safnað skuldum.
Frjálslyndi flokkurinn, sem var að vísu losaralegur sína stuttu starfstíð, lagði megináherslu á ramma þjóðernisstefnu, en hún er auðvitað af ætt íhaldsstefnu frekar en frjálshyggju. Einn aðalmaður Frjálslynda flokksins, Bjarni Jónsson frá Vogi, hafði einmitt sett það skilyrði fyrir stuðningi við stjórn Íhaldsflokksins, að ný ættarnöfn yrðu bönnuð með lögum, því að hann taldi þau óíslenskuleg. Annar forystumaður Frjálslynda flokksins, Benedikt Sveinsson, hafði verið andvígur sambandslagasáttmálanum 1918, því að hann vildi ekki veita Dönum þau réttindi á Íslandi, sem kveðið var á um í sáttmálanum.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. júlí 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:16 | Slóð | Facebook
6.7.2019 | 08:00
Ásgeir Pétursson
Þótt furðulegt sé, átti Josíf Stalín marga vini í Norðurálfunni um miðja tuttugustu öld. Hér á landi voru þeir raunar fleiri en víðast annars staðar. Flokkur þeirra, sem hafði kastað kommúnistanafninu og kenndi sig við sósíalisma, fékk nær fimmtung atkvæða í þingkosningum 1946 og 1949. Naut hann rausnarlegra, en leynilegra framlaga frá Moskvu, sem auðveldaði honum að reka voldug útgáfufyrirtæki og kosta verkföll í stjórnmálaskyni. Andstæðingarnir sættu ofsóknum og útskúfun, ef og þegar til þeirra náðist, ekki síst rithöfundar. Eins og Þór Whitehead prófessor lýsir í smáatriðum í bókinni Sovét-Íslandi, óskalandinu, beittu kommúnistar ekki aðeins ofbeldi í vinnudeilum, heldur reyndu líka með öllum ráðum að koma í veg fyrir Keflavíkursamninginn 1946. Þeir létu svívirðingar ekki duga, heldur veittust að ráðamönnum á götum úti og fóru að heimilum þeirra.
Það þurfti kjarkmenn til að skora þetta illvíga lið á hólm. Ásgeir Pétursson, sem lést í hárri elli 24. júní 2019, var slíkur kjarkmaður. Hann var laganemi, þegar hann birti árið 1948 tímamótagrein þess efnis, að lýðræðissinnar yrðu að sameinast um að tryggja lög og reglu í landinu. Það féll síðan í hlut hans að skipuleggja varalið til stuðnings lögreglu, þegar kommúnistar gerðu sig líklega til að ráðast á Alþingishúsið 30. mars 1949 og hindra afgreiðslu þingsályktunartillögu um aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu. Tókst að hrinda þeirri árás, en ein áreiðanlegasta heimildin um atburðarásina þann örlagadag er rækilegur hæstaréttardómur frá 1950.
Sennilega er annað framtak Ásgeir síður kunnugt. Hann var aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar í menntamálaráðuneytinu 19531956, og er óhætt að segja, að þeir hafi í sameiningu skipulagt gagnsókn lýðræðissinna í menningarmálum. Þeir Guðmundur G. Hagalín og Kristmann Guðmundsson, sem kommúnistar höfðu lagt í einelti, fengu til dæmis störf, þar sem hæfileikar þeirra fengu að njóta sín, og Almenna bókafélagið var stofnað 17. júní 1955 til að búa borgaralegum rithöfundum skjól. Rek ég stuttlega þá sögu í formála bókarinnar Til varnar vestrænni menningu: Ræður sex rithöfunda 19501958, sem Almenna bókafélagið gaf út 1. desember 2018 á 100 ára afmæli fullveldisins. Ásgeir Pétursson var einn þeirra manna, sem stóðu vörð um fullveldi Íslands, þegar á reyndi.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. júlí 2019.)