Hvað segi ég í Las Vegas?

Mánudaginn 2. apríl 2018 flyt ég erindi um íslenska bankahrunið á alþjóðlegri ráðstefnu APEE, Association of Private Enterprise Education, í Las Vegas í Nevada-ríki. Málstofan, sem ég sæki, er helguð peningum og bankamálum. Þar munu aðrir fyrirlesarar meðal annars ræða um, hvort afnema megi brotaforðakerfi (fractional reserves) banka til að koma í veg fyrir útþenslu þeirra og peningaprentun.

Í erindi mínu nálgast ég vandann úr annarri átt. Fyrsti lærdómurinn af bankahruninu íslenska er, að það þarf ekki nauðsynlega að vera slæmt fyrir hagkerfið, að bönkum sé ekki bjargað með skattfé almennings. Ísland dafnar vel.

Annar lærdómurinn er, að í öngum sínum haustið 2008 fundu Íslendingar úrræði: Það var, að ríkið ábyrgðist ekki bankainnstæður, heldur veitti innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka. Áhyggjuefnið í fjármálakreppu er síður eigendur bankanna og aðrir lánardrottnar en innstæðueigendur.

Þriðji lærdómurinn er, að afnema má ríkisábyrgð á innstæðum, ef innstæðueigendur hafa að lögum forgangskröfur í bú banka. Þá munu aðrir lánveitendur banka taka öruggari veð en nú gerist, og þeir fara gætilegar og þenjast ekki stjórnlaust út. Ríkisábyrgð skapar freistnivanda: Þegar vel gengur, hirðir bankinn ávinninginn. Þegar illa gengur, bera skattgreiðendur kostnaðinn.

Fjórði lærdómurinn er, að óbundið vald verður alltaf misnotað, eins og breska Verkamannaflokksstjórnin misnotaði hryðjuverkalög til að reyna að beygja Íslendinga.

Fimmti lærdómurinn er, að smáþjóðir standa alltaf einar, þegar á reynir. Stórþjóðir veita þeim þá og því aðeins aðstoð, að þær sjái sér hag í því.

Sjötti lærdómurinn er, að miklu máli skipti að hafa röggsama forystu í Seðlabankanum. Fyrir bankahrun höfðu seðlabankastjórarnir margsinnis varað við útþenslu bankanna og bent á úrræði gegn henni, til dæmis flutning Kaupþings til útlanda, sölu Glitnis banka í Noregi og flutning Icesave-innstæðna Landsbankans úr útibúi í banka. Í bankahruninu beittu þeir sér fyrir afgirðingu Íslands (ring-fencing) til að takmarka áhættu, og þegar ráðherrar Samfylkingarinnar voru í öllu írafárinu hættir að hlusta á þá, sendu þeir einkaþotu eftir sérfræðingum JP Morgan, sem sannfærðu ráðherrana loks um, að þetta væri eina raunhæfa lausnin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. mars 2018.)


Heimsókn Øverlands

arnulfoverland.jpgSjötíu ár eru nú liðin frá sögulegri heimsókn norska skáldsins Arnulfs Øverlands til Íslands. Hann hafði verið róttækur á yngri árum, en gekk úr norska kommúnistaflokknum eftir hreinsanir Stalíns og sýndarréttarhöld 1938. Hann hafði ort mergjað ádeilukvæði um nasismann, sem Magnús Ásgeirsson sneri á íslensku. Eftir hernám Noregs handtóku nasistar hið norska skáld og sendu í fangabúðir í Sachsenhausen. En í stríðslok sá Øverland og skildi, að ekki höfðu allir alræðissinnar verið lagðir að velli í stríðinu. Þeir réðu enn Rússlandi.

Uppnám varð á norrænu rithöfundaþingi í Stokkhólmi í árslok 1946, þegar Øverland leyfði sér að ræða um hina harkalegu sjálfsritskoðun Finna eftir ósigur þeirra fyrir Stalín 1944. Úr finnskum bókasöfnum voru þá til dæmis fjarlægðar allar bækur, sem talist gátu gagnrýnar á Stalín og stjórnarfar hans. Skrifuðu 25 rithöfundar á þinginu undir mótmæli við orðum Øverlands, þar á meðal þau Jóhannes úr Kötlum, Jón úr Vör og Þórunn Magnúsdóttir.

Næsta árið talaði Øverland víða fyrir varnarbandalagi gegn Stalín. Þegar vitnaðist, að hann kæmi til Íslands vorið 1948, hófu íslenskir kommúnistar áróðursherferð gegn honum. Jóhannes úr Kötlum skrifaði grein í tímaritið Rétt um væntanlega komu hans og valdi honum hin verstu orð. Eftir að Øverland flutti í Austurbæjarbíói fyrirlestur gegn kúgun kommúnista, birtu þeir Sverrir Kristjánsson og Halldór Kiljan Laxness svæsnar árásir á hann. Øverland hefði svikið æskuhugsjónir sínar og gengist bandarísku auðvaldi á hönd. Kallaði Laxness hann boðbera stríðs og haturs. Á stúdentafélagsfundi í Háskólanum stóð Jónas H. Haralz upp og flutti svipaðan boðskap, sem hann birti síðan í Þjóðviljanum. Aðrir tóku Øverland betur, og var húsfyllir á fyrirlestrum hans og upplestrakvöldum.

Fyrirlestrar Øverlands komu síðan út á íslensku 1949, Milli austurs og vesturs og Framtíð smáþjóðanna. Er enginn vafi á því, að hið orðsnjalla, einlæga skáld hafði talsverð áhrif í þeim umræðum, sem fram fóru eftir stríð í Noregi og Danmörku og á Íslandi um, hvort þessar þjóðir ættu erindi í varnabandalag vestrænna þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. mars 2018.)


Verða að sjá til að trúa

screen_shot_2018-03-24_at_13_37_24.png


Hvíldartími í íslenskum bókmenntum

Jæja, þá hef ég lagt lokahönd á þrjár skýrslur til Evrópuþingsins, sem ég samdi raunar 2017, en gekk frá til birtingar á dögunum: The Voices of the Victims: Towards a Historiography of Anti-Totalitarian Literature; Green Capitalism: How to Protect the Environment by Defining Private Property Rights; Lessons for Europe from the Icelandic Bank Collapse. (Lærdómarnir eru fimm: 1) röggsamleg forysta í Seðlabankanum réð úrslitum um, að ekki fór verr; 2) Það kollsteypir ekki hagkerfinu, að bankar fái að falla; 3) forgangur innstæðueigenda í bú banka er skynsamlegur; 4) hann leiðir til þess, að afnema má ríkisábyrgð á innstæðum, en hann hefur valdið freistnivanda (moral hazard); 5) víðtækt vald, eins og myndað var með bresku hryðjuverkalögunum, verður fyrr eða síðar misnotað.)


Hádegisverður í Stellenbosch

Stjórnvöld í Suður-Afríku hyggjast nú gera jarðir hvítra bænda upptækar bótalaust, en væntanlega síðan skipta þeim á milli svartra bænda. Þetta er eflaust ekki endirinn á vist hvítra manna í Suður-Afríku, en þetta gæti verið upphafið að endinum. Ástralíustjórn hefur hafið undirbúning að því að flýta útgáfu vegabréfsáritana til suðurafrísku bændanna. Væri eitthvert vit í stjórnum Brasilíu og Argentínu, þá ættu þær að gera hið sama. Landbúnaður í Suður-Afríku er háþróaður og arðbær og bændur þar kunnáttumenn.

Hvítir menn eru jafnmiklir frumbyggjar Suður-Afríku og svartir. Þeir komu af hafi, aðallega Búar frá Hollandi, á 17. öld og settust að í Suður-Afríku á sama tíma og svartir menn komu að norðan. Það voru því ekki hvítir menn, sem ráku svarta af jörðum sínum. En þetta yrði þó ekki í fyrsta sinn, sem duglegir og tiltölulega vel stæðir, en óvinsælir minnihlutahópar sæta ofsóknum. Ferdinand og Ísabella hröktu gyðinga brott úr Spánarveldi 1492. Lúðvík 14. felldi 1685 úr gildi lög, sem veittu húgenottum (mótmælendatrúarmönnum) grið, og flúðu margir þeirra Frakkland að bragði. Báðir hóparnir stóðu sig vel í viðtökulöndum.

Sagan endurtók sig á 20. öld. Hitler og Stalín beittu að vísu verri aðferðum gegn óvinsælum minnihlutahópum. Hitler drap þá í útrýmingarbúðum, en Stalín lét flytja þá í seigdrepandi þrælakistur norðan heimskautsbaugs. Tíu milljónir þýskumælandi manna voru reknar út úr Póllandi og Tékkóslóvakíu í stríðslok 1945, en ættir þeirra höfðu búið þar í marga mannsaldra. Skemmst er að minnast þess, er hinn grimmi trúður Ídí Amín rak hátt í hundrað þúsund fólks af asískum ættum frá Úganda 1972.

Ég ferðaðist um alla Suður-Afríku í þrjár vikur haustið 1987. Meðal annars lagði ég leið mína í vínyrkjuhéraðið í kringum Stellenbosch. Þar var allt fallegt og blómlegt. Þá réðu hvítir menn enn Suður-Afríku. Ég snæddi hádegisverð með prófessor einum, sem var Búi. Hann sagði: „Við Búarnir vitum, að við verðum fyrr eða síðar að viðurkenna meirihlutastjórn svartra manna. En við viljum ekki, að okkar kæra Suður-Afríka verði enn eitt misheppnaða Afríkulýðveldið.“ Það virðist þó vera að gerast.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. mars 2018.)


Böðullinn drepur alltaf tvisvar

Böðullinn drepur alltaf tvisvar, í seinna skiptið með þögninni, sagði Elie Wiesel. Alræðisstjórnir tuttugustu aldar reyndu að eyða öllum ummerkjum um fórnarlömb sín, helga þau þögninni. Eitt mikilvægasta hlutverk sagnfræðingsins er að rjúfa þessa þögn, segja frá þeim, sem faldir voru bak við gaddavírsgirðingar og gátu ekki látið af sér vita. Velflestir, sem sluppu lifandi úr þrælabúðum kommúnista, og skrifuðu endurminningar sínar, segja þá, sem eftir urðu, hafa grátbeðið þá um að skýra umheiminum frá ósköpunum. Þá hefðu þeir ekki þjáðst til einskis, ekki þurfa að óttast að vera drepnir í annað sinn með þögninni.

Almenna bókafélagið gefur nú út ritröð, sem ég ritstýri, með bókum um alræðisstefnuna og fórnarlömb hennar. Árið 2015 komu út Greinar um kommúnisma eftir heimspekinginn Bertrand Russel jarl, Konur í þrælakistum Stalíns eftir Elinor Lipper og Aino Kuusinen og Úr álögum eftir Jan Valtin, en sú bók olli hörðum deilum á Íslandi 1941.

Árið 2016 komu út á ný fimm bækur. Leyniræðan um Stalín, sem Khrústsjov hélt 1956, varð íslenskum stalínistum mikið áfall. El campesino er eftir Valentín González, sem var herforingi í spænska borgarastríðinu og slapp á undraverðan hátt úr vinnubúðum Stalíns. Tvær bókanna eru um Eystrasaltslöndin, Örlaganótt yfir Eystrasaltslöndum eftir eistneska bókmenntafræðinginn Ants Oras og Eistland: Smáþjóð undir oki erlends valds eftir sænsk-eistneska blaðamanninn Anders Küng. Þjónusta, þrælkun flótti er eftir ingríska prestinn Aatami Kuortti. Ingríar eru náskyldir Finnum, bjuggu við botn Finnska flóa og eru nú að hverfa úr sögunni.

Árið 2017 komu út Nytsamur sakleysingi eftir finnska sjómanninn Otto Larsen, Ráðstjórnarríkin: Goðsagnir og veruleiki eftir Arthur Koestler, sem hafði mikil áhrif á bæjarstjórnarkosningar í Reykjavík 1946, og Ég kaus frelsið eftir Viktor Kravtsjenko.

100 milljónir manna týndu á 20. öld lífi af völdum kommúnismans. Böðlinum mun ekki takast að drepa í annað sinn, með þögninni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. mars 2018.)


Þrír hugsjónamenn gegn alræði

Löngum var eitt helsta átakamál á Íslandi, hvort hér skyldi taka upp sameignarskipulag eins og í ríki Stalíns. Fjölmennur og áhrifamikill hópur barðist fyrir því með rausnarlegum stuðningi herranna í Kreml. Ólíkt því sem gerðist á öðrum Norðurlöndum var hann voldugasti hópurinn í verkalýðshreyfingunni, og hann réð líka um skeið langmestu í menningarlífinu.

Nógir urðu til að fræða Íslendinga um alræðisstefnu nasista, ekki síst eftir að þeir biðu ósigur í stríði. En þrír hugsjónamenn tóku að sér að kynna veruleikann að baki áróðri kommúnista.

Lárus Jóhannesson hæstaréttarlögmaður var alþingismaður Seyðfirðinga og átti Prentsmiðju Austurlands. Árið 1949 fékk hann málsnillinginn Jón Sigurðsson frá Kaldaðarnesi til að þýða dæmisögu Orwells um rússnesku byltinguna, Animal Farm, sem hlaut þá nafnið Félagi Napóleon, en hefur síðar verið kölluð Dýrabær. Lárus bætti um betur, því að 1951 gaf hann út eigin þýðingu á bók Víktors Kravtsjenkos, sem flúið hafði frá Ráðstjórnarríkjunum 1944, Ég kaus frelsið. Þýðingin var sannkallað þrekvirki, enda bók Kravtsjenkos 564 blaðsíður, þótt læsileg sé.

Tveir ungir vinir, lögfræðingarnir Geir Hallgrímsson og Eyjólfur Konráð Jónsson, stofnuðu bókaútgáfuna Stuðlaberg, sem gaf út þrjú öndvegisrit um kommúnismann. Árið 1950 kom út Guðinn sem brást, þar sem sex menntamenn segja frá vonbrigðum sínum með kommúnismann, þar á meðal Nóbelsverðlaunahafinn André Gide og rithöfundarnir kunnu Arthur Koestler, Ignazio Silone og Richard Wright. Er bókin með afbrigðum vel skrifuð. Árið 1951 kom út hrollvekja Orwells um alræðisskipulag, Nítján hundruð áttatíu og fjögur, sem iðulega er talin merkasta skáldsaga tuttugustu aldar. Árið 1952 kom út Bóndinn eftir Valentín González, sem verið hafði frægur herforingi í liði lýðveldissinna í spænska borgarastríðinu, en síðan setið í þrælabúðum Stalíns. Er hún fjörlega skrifuð bók um miklar mannraunir.

Þessir þrír hugsjónamenn, Lárus, Geir og Eyjólfur Konráð, eiga heiður skilinn. Í kalda stríðinu börðust þeir hinni góðu baráttu.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. mars 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband