Skrafað um Laxness

Á fundi Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála fimmtudaginn 26. apríl síðastliðinn flutti ég erindi um nýútkomið rit mitt, Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir. Ein rannsóknin var á stjórnmálaafskiptum stalínistans Halldórs K. Laxness, beittasta penna alræðisstefnunnar á Íslandi. Ég sagði ýmsar sögur af Laxness, sem eru ekki á allra vitorði, til dæmis um tilraunir hans til að fá bækur sínar útgefnar á Ítalíu fasista og í Þýskalandi nasista, og brá hann sér þá í ýmissa kvikinda líki. Vitnaði ég í Pétur Pétursson útvarpsþul, sem sagði mér eitt sinn, að heiðurspeningur um Laxness hlyti að hafa tvær hliðar, þar sem önnur sýndi snilling, hin skálk.

Eftir erindið kvaddi Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntamálaráðherra, sér hljóðs og kvað Laxness hafa verið margbrotinn mann. Í Gerplu lýsti hann til dæmis fóstbræðrum, Þormóði og Þorgeiri. Annar væri kvensamur, skáldhneigður veraldarmaður, hinn baráttujaxl og eintrjáningur, sem sást ekki fyrir. Tómas Ingi varpaði fram þeirri skemmtilegu tilgátu, að í raun og veru væri báðir mennirnir saman komnir í Laxness. Hann væri að lýsa eigin tvíeðli.

Ég benti þá á, að svipað mætti segja um Heimsljós, þegar Ljósvíkingurinn og Örn Úlfar eiga frægt samtal. Ljósvíkingurinn er skilyrðislaus dýrkandi fegurðarinnar, en Erni Úlfari svellur móður vegna ranglætis heimsins, sem birtist ljóslifandi á Sviðinsvíkureigninni. Mér finnst augljóst, að Laxness sé með þessu samtali að lýsa eigin sálarstriði. Annars vegar togaði heimurinn í hann með skarkala sínum og brýnum verkefnum, hins vegar þráði hann fegurðina, hreina, djúpa, eilífa, handan við heiminn.

Tómas Ingi kvað reynsluna sýna, að skáldin væru ekki alltaf ratvísustu leiðsögumennirnir á veraldarslóðum, og tók ég undir það. Laxness var stalínisti og Hamsun nasisti, en skáldverk þeirra standa það af sér. Listaverkið er óháð eðli og innræti listamannsins. Raunar tók ég annað dæmi: Leni Riefenstahl var viðurkenndur snillingur í kvikmyndagerð. En vegna daðurs hennar við nasisma fyrir stríð fékk hún lítið að gera í þeirri grein eftir stríð. Það var mikill missir.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 28. apríl 2018.)


Þrjár örlagasögur

screen-shot-2018-04-17-at-16_36_52.pngÚt er komið eftir mig ritið Totalitarianism in Europe: Three Case Studies, Alræði í Evrópu: Þrjár rannsóknir, og kynni ég það á fundi í Háskólatorgi, stofu 101 (Ingjaldsstofu), fimmtudaginn 26. apríl klukkan fimm.

Fyrsta rannsóknin er á örlögum svissnesku gyðingakonunnar Elinor Lipper, en útdrættir úr metsölubók eftir hana um ellefu ára vist í þrælakistum Stalíns birtust í Vísi og Tímanum í Kalda stríðinu. Hún virtist hafa horfið eftir útkomu bókar sinnar, en ég gróf upp í svissneskum og rússneskum skjalasöfnum, hver hún var, hvaðan hún kom og hvert hún fór, og er þar margt sögulegt.

Önnur rannsóknin er á, hvernig örlög tveggja Þjóðverja, sem bjuggu á Íslandi fyrir stríð, fléttuðust saman. Henny Goldstein var flóttamaður af gyðingaættum, Bruno Kress, nasisti og styrkþegi Ahnenerbe, „rannsóknastofnunar“ SS-sveitanna. Eftir stríð gerðist Kress kommúnisti og forstöðumaður Norrænu stofnunarinnar í Greifswald-háskóla. Fundum þeirra Goldsteins og Kress bar saman aftur á Íslandi 1958 á einkennilegan hátt. En Ahnenerbe tengdi þau líka saman, og vissi hvorugt af því.

Þriðja rannsóknin er á þáttum úr ævi kunnasta stalínista Íslands Halldórs K. Laxness. Hvaðan var símskeytið sem varð til þess að honum var ekki hleypt inn í Bandaríkin 1922? Hvers vegna forðaði hann sér frá Bandaríkjunum 1929? Eftir elskuleg samtöl 1934 við ítalska fasista, þar sem hann reyndi að stuðla að útgáfu bóka sinna á Ítalíu, skrifaði hann Erlendi í Unuhúsi: „Ýla skal hind, sem með úlfum býr.“ Laxness kom til Berlínar 1936 með vottorð til nasistastjórnarinnar um að hann væri ekki kommúnisti en þá var hann að reyna að liðka til um útgáfu bóka sinna í Þýskalandi.

Laxness þagði í aldarfjórðung yfir því þegar hann varð í Moskvu 1938 vitni að handtöku saklausrar stúlku, Veru Hertzsch, barnsmóður Íslendings. Hann hafði líka að engu beinar frásagnir sjónarvotta að kúguninni í kommúnistaríkjunum, til dæmis rússneskukennara síns, Teodoras Bialiackinas frá Litáen, og tveggja tékkneskra vina. Ég rek undirmálin vegna veitingar Nóbelsverðlaunanna 1955 en leita að lokum skýringa á því hvers vegna Laxness og margir aðrir vestrænir menntamenn vörðu stalínismann gegn betri vitund.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. apríl 2018).


Grafir án krossa

arvedviirlaid2.jpgEistlendingar héldu snemma á þessu ári upp á að 100 ár eru liðin frá því að þeir urðu fullvalda. En þeir voru svo óheppnir að næstu nágrannar þeirra eru Þjóðverjar og Rússar. Þýskar riddarareglur og rússneskir keisarar kúguðu þjóðina á víxl öldum saman og stundum í sameiningu. Hún var aðeins fullvalda til 1940 og síðan aftur frá 1991.

Ein magnaðasta bókin, sem sett hefur verið saman um örlög Eistlands á tuttugustu öld, Grafir án krossa, er eftir skáldið Arved Viirlaid, sem var aðeins átján ára sumarið 1940, þegar Stalín lagði undir sig land hans. Gerðist Viirlaid „skógarbróðir“ eins og þeir skæruliðar voru kallaðir, sem leyndust í skógum og börðust gegn kommúnistum. Eftir að Þjóðverjar ruddust inn í Eistland sumarið 1941 vildi Viirlaid ekki berjast með þeim svo að hann hélt til Finnlands og gekk í sérstaka eistneska hersveit innan finnska hersins sem barðist við Rauða herinn í Framhaldsstríðinu svonefnda, sem Finnar háðu við Kremlverja 1941-1944. Eftir að Finnar sömdu um vopnahlé við Stalín var Viirlaid sendur heim. Þaðan tókst honum að flýja til Svíþjóðar og síðan Bretlands en hann settist loks að í Kanada og lést árið 2015, 93 ára gamall.

Grafir án krossa er heimildaskáldsaga, sótt í reynslu Viirlaids sjálfs og félaga hans. Gamall skógarbróðir, Taavi Raudoja, snýr aftur til Eistlands 1944 eftir að hafa barist í finnska hernum. Kremlverjar hafa þá aftur lagt landið undir sig. Hann er fangelsaður og reynir leynilögregla kommúnista að pynta hann til sagna um vopnabræður hans. Hann sleppur úr fangelsinu og gerist aftur skógarbróðir. Kona hans og sonur eru fangelsuð. Eftir ótrúlegar raunir gengur kona hans af vitinu. Leynilögreglan lætur hana lausa í því skyni að lokka Taavi í gildru. Það tekst ekki en bardagar halda áfram milli skógarbræðra og leynilögreglunnar uns Taavi ákveður að reyna að komast úr landi og segja umheiminum frá öllum hinum nafnlausu fórnarlömbum kommúnista sem hvíla í gröfum án krossa.

Bókin er fjörlega skrifuð og af djúpri þekkingu á aðstæðum. Inn í hana fléttast sögur um ást og hatur, svik og hugrekki. Hún er um þá valþröng sem einstaklingar undirokaðrar smáþjóðar standa frammi fyrir. Bækur Viirlaids voru stranglega bannaðar á hernámsárunum í Eistlandi, allt til 1991.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 14. apríl 2018.)


Málið okkar

Furðu sætir, að sumir blaðamenn, sem hafa valið sér það starf að semja texta, skuli ekki vanda sig betur. Enskan skín sums staðar í gegn, til dæmis þegar þeir skrifa, að einhverjir hafi tekið eigið líf, í stað þess að þeir hafi stytt sér aldur eða ráðið sér bana. Og þeir nota ekki umritunarreglur úr rússnesku, sem settar voru með ærinni fyrirhöfn og eru aðgengilegar á vef Árnastofnunar. Maður, sem nú er mjög í fréttum, heitir Sergej Skrípal, þótt á ensku sé nafn hans ritað Sergei Skripal.

Stundum velti ég fyrir mér, hvort spá danska málfræðingsins Rasmusar Kristjáns Rasks muni rætast að breyttu breytanda: Enskan gangi af íslenskunni dauðri, ekki danskan. Íslenskir kennarar og rithöfundar gengu ötullega fram í málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð á síðari hluta nítjándu aldar og á öndverðri síðustu öld. Þeir útrýmdu að heita má flámælinu og þágufallssýkinni. Þeir smíðuðu orð, sem féllu vel að tungunni, um ný fyrirbæri. En nú er ekki örgrannt um, að slík fyrirhöfn þyki brosleg.

Þegar ég sýndi Milton og Rose Friedman söguslóðir á Íslandi haustið 1984 spurði Rose: „Af hverju takið þið ekki upp ensku? Er það ekki miklu hagkvæmara?“ Milton andmælti henni með breiðu brosi: „Nei, Rose, ég er ekki sammála þér. Íslenskan er þeirra mál, og þeir vilja auðvitað halda í hana.“

Röksemd Miltons Friedmans er enn í fullu gildi. Ástæðan til þess, að við viljum (vonandi flest) tala íslensku, er, að hún er málið okkar. Hún er samgróin okkur, annað eðli okkar, ef svo má segja, órofaþáttur í tilvist okkar. Hún veldur því, að Ísland er ekki einvörðungu verstöð eða útkjálki, heldur bólstaður sjálfstæðrar og sérstakrar þjóðar.

Bæta má við röksemdum fyrir skoðun Miltons og gegn tillögu Rose. Ein er, að við þurfum ekki að týna niður íslenskunni, þótt við lærðum ensku svo vel, að við töluðum hana næstum því eins vel og eigin tungu (eins og við ættum að gera). Málið er eins og frjálst atvinnulíf, eins gróði þarf ekki að vera annars tap. Við getum sem hægast verið tvítyngd.

Önnur er sú, að íslenskan er ekki aðeins sérstök, heldur líka falleg. Þetta sjáum við best á vel heppnuðum nýyrðum eins og þyrlu og tölvu. Fara þessi orð ekki miklu betur í munni en helikopter og komputer?

Þriðja viðbótarröksemdin er, að með málhreinsun, málvöndun og nýyrðasmíð þjálfum við okkur í móðurmálinu, spreytum okkur á nýjum verkefnum, um leið og við endurnýjum og styrkjum sálufélag okkar við þær þrjátíu og þrjár kynslóðir, sem byggðu landið á undan okkur.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. apríl 2018.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband