Hvað segi ég í Las Vegas?

Mánudaginn 2. apríl 2018 flyt ég erindi um íslenska bankahrunið á alþjóðlegri ráðstefnu APEE, Association of Private Enterprise Education, í Las Vegas í Nevada-ríki. Málstofan, sem ég sæki, er helguð peningum og bankamálum. Þar munu aðrir fyrirlesarar meðal annars ræða um, hvort afnema megi brotaforðakerfi (fractional reserves) banka til að koma í veg fyrir útþenslu þeirra og peningaprentun.

Í erindi mínu nálgast ég vandann úr annarri átt. Fyrsti lærdómurinn af bankahruninu íslenska er, að það þarf ekki nauðsynlega að vera slæmt fyrir hagkerfið, að bönkum sé ekki bjargað með skattfé almennings. Ísland dafnar vel.

Annar lærdómurinn er, að í öngum sínum haustið 2008 fundu Íslendingar úrræði: Það var, að ríkið ábyrgðist ekki bankainnstæður, heldur veitti innstæðueigendum forgangskröfur í bú banka. Áhyggjuefnið í fjármálakreppu er síður eigendur bankanna og aðrir lánardrottnar en innstæðueigendur.

Þriðji lærdómurinn er, að afnema má ríkisábyrgð á innstæðum, ef innstæðueigendur hafa að lögum forgangskröfur í bú banka. Þá munu aðrir lánveitendur banka taka öruggari veð en nú gerist, og þeir fara gætilegar og þenjast ekki stjórnlaust út. Ríkisábyrgð skapar freistnivanda: Þegar vel gengur, hirðir bankinn ávinninginn. Þegar illa gengur, bera skattgreiðendur kostnaðinn.

Fjórði lærdómurinn er, að óbundið vald verður alltaf misnotað, eins og breska Verkamannaflokksstjórnin misnotaði hryðjuverkalög til að reyna að beygja Íslendinga.

Fimmti lærdómurinn er, að smáþjóðir standa alltaf einar, þegar á reynir. Stórþjóðir veita þeim þá og því aðeins aðstoð, að þær sjái sér hag í því.

Sjötti lærdómurinn er, að miklu máli skipti að hafa röggsama forystu í Seðlabankanum. Fyrir bankahrun höfðu seðlabankastjórarnir margsinnis varað við útþenslu bankanna og bent á úrræði gegn henni, til dæmis flutning Kaupþings til útlanda, sölu Glitnis banka í Noregi og flutning Icesave-innstæðna Landsbankans úr útibúi í banka. Í bankahruninu beittu þeir sér fyrir afgirðingu Íslands (ring-fencing) til að takmarka áhættu, og þegar ráðherrar Samfylkingarinnar voru í öllu írafárinu hættir að hlusta á þá, sendu þeir einkaþotu eftir sérfræðingum JP Morgan, sem sannfærðu ráðherrana loks um, að þetta væri eina raunhæfa lausnin.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 31. mars 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband