Heimsókn Øverlands

arnulfoverland.jpgSjötíu ár eru nú liðin frá sögulegri heimsókn norska skáldsins Arnulfs Øverlands til Íslands. Hann hafði verið róttækur á yngri árum, en gekk úr norska kommúnistaflokknum eftir hreinsanir Stalíns og sýndarréttarhöld 1938. Hann hafði ort mergjað ádeilukvæði um nasismann, sem Magnús Ásgeirsson sneri á íslensku. Eftir hernám Noregs handtóku nasistar hið norska skáld og sendu í fangabúðir í Sachsenhausen. En í stríðslok sá Øverland og skildi, að ekki höfðu allir alræðissinnar verið lagðir að velli í stríðinu. Þeir réðu enn Rússlandi.

Uppnám varð á norrænu rithöfundaþingi í Stokkhólmi í árslok 1946, þegar Øverland leyfði sér að ræða um hina harkalegu sjálfsritskoðun Finna eftir ósigur þeirra fyrir Stalín 1944. Úr finnskum bókasöfnum voru þá til dæmis fjarlægðar allar bækur, sem talist gátu gagnrýnar á Stalín og stjórnarfar hans. Skrifuðu 25 rithöfundar á þinginu undir mótmæli við orðum Øverlands, þar á meðal þau Jóhannes úr Kötlum, Jón úr Vör og Þórunn Magnúsdóttir.

Næsta árið talaði Øverland víða fyrir varnarbandalagi gegn Stalín. Þegar vitnaðist, að hann kæmi til Íslands vorið 1948, hófu íslenskir kommúnistar áróðursherferð gegn honum. Jóhannes úr Kötlum skrifaði grein í tímaritið Rétt um væntanlega komu hans og valdi honum hin verstu orð. Eftir að Øverland flutti í Austurbæjarbíói fyrirlestur gegn kúgun kommúnista, birtu þeir Sverrir Kristjánsson og Halldór Kiljan Laxness svæsnar árásir á hann. Øverland hefði svikið æskuhugsjónir sínar og gengist bandarísku auðvaldi á hönd. Kallaði Laxness hann boðbera stríðs og haturs. Á stúdentafélagsfundi í Háskólanum stóð Jónas H. Haralz upp og flutti svipaðan boðskap, sem hann birti síðan í Þjóðviljanum. Aðrir tóku Øverland betur, og var húsfyllir á fyrirlestrum hans og upplestrakvöldum.

Fyrirlestrar Øverlands komu síðan út á íslensku 1949, Milli austurs og vesturs og Framtíð smáþjóðanna. Er enginn vafi á því, að hið orðsnjalla, einlæga skáld hafði talsverð áhrif í þeim umræðum, sem fram fóru eftir stríð í Noregi og Danmörku og á Íslandi um, hvort þessar þjóðir ættu erindi í varnabandalag vestrænna þjóða.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. mars 2018.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband