Umsögn Conrads Blacks

Fróðlegt er að lesa umsögn hins kunna (að sumra sögn alræmda) rithöfundar Conrads Blacks, sem var blaðaútgefandi áður fyrr, um bók, sem ég skrifaði í og kom út fyrir ári, Understanding the Crash. Black segir í tímaritinu New Criterion um framlag mitt:

Hannes Gissurarson gives a fascinating picture of the economic rise and fall and resurrection of Iceland, and shows that its own mistakes were aggravated by the Federal Reserve’s suddenly ceasing to allow currency exchanges into dollars, and by the British government’s invoking completely misapplied anti-terrorist rules against Icelandic banks operating in the U.K. There is no doubt that the reckless antics of these two great powers, normally friendly to Iceland, caused a terrible escalation in the country’s problems, but after a brief flirtation with the regulatory left, it has bounced back very well. He concludes with Thucydides that “the strong do what they can and the weak suffer what they must.


Bjarni bætir kjör almennings

bjarni-benediktsson.jpgBjarni Benediktsson fjármálaráðherra boðar afnám allra tolla (nema á landbúnaðarafurðir, sem Íslendingar framleiða sjálfir). Þetta er stórfrétt og góð frétt. Lækkun skatta er besta kjarabótin.


Hugleiðingar um gríska harmleikinn

athens.jpgVinstri menn á Íslandi eru ráðvilltir í Grikklandsmálinu. Þeir telja, að manngæska sé örlæti af annarra fé. Þess vegna skilja þeir alls ekki, að Evrópusambandið sé tregt til að ausa áfram fé í Grikkland. Vitaskuld myndu skriffinnarnir í Brussel helst kjósa þá leið, en hún er þeim lokuð af þremur ástæðum: 1) Þýskir skattgreiðendur, sem myndu bera þyngstu byrðarnar, sætta sig ekki við það. 2) Féð, sem er til ráðstöfunar í slíkar aðgerðir, er á þrotum. 3) Á eftir Grikkjum myndu koma aðrar þjóðir, sem vilja líka losna við að greiða skuldir sínar.

Gríski harmleikurinn 2015 er gerólíkur hinum íslenska 2009. Í Grikklandi skuldar ríkið öðrum fé, en á Íslandi var skuldunauturinn einkaaðili (sem hafði góða möguleika á að endurgreiða skuld sína, eins og kom í ljós) og lánardrottnarnir líka (og þeir, innstæðueigendurnir, höfðu fengið forgang með neyðarlögum Íslendinga, þótt Bretar hafi aldrei þakkað það). Í Grikklandi skýtur ríkisstjórnin greiðsluskyldu sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, en á Íslandi vildi ríkisstjórnin alls ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. Í Grikklandi lætur ríkisstjórnin öllum illum látum í því skyni að fá viðsemjendur sína til að afskrifa skuldir og lengja í lánum, en á Íslandi gerði ríkisstjórnin í rauninni ekki annað en framvísa ólundarlega til þjóðarinnar reikningnum, sem Bretar sendu fyrir einhliða aðgerðir sínar.

Gríska ríkið er auðvitað gjaldþrota. Það er ekki sjálfbært án víðtækrar endurskipulagningar, en ég sé ekki, hvernig hún á að fara fram.  Líklega heldur þjóðin áfram að hlusta á lýðskrumara (Kleon sútara og félaga hans) í stað þess að lækka skatta, fækka opinberum starfsmönnum, lengja starfsaldur, auka gagnsæi, auðvelda skattheimtu, fella niður óréttlætanlegar bætur og taka harðar á spillingu.

Gríski harmleikurinn sýnir einnig ókosti evrunnar (þótt auðvitað hafi hún kosti líka). Myntbandalög fá stundum staðist, til dæmis myntbandalag Norðurlanda fram að fyrri heimsstyrjöld og Bandaríkin, sem eru í rauninni myntbandalag fimmtíu ólíkra ríkja og nota öll einn og sama dalinn. Veikleiki evrunnar er, að kostnaðaraðlögun er miserfið í einstökum löndum evrusvæðisins. Hagkerfin eru allt of ólík til að geta notað sama gjaldmiðil. Vinnumarkaður Evrópu lýtur ósveigjanlegum reglum, svo að atvinnuleysi myndast, þegar að sverfur, í stað þess, að laun lækki. Erfiðara er að hreyfa sig á milli landa í þessu stóra myntbandalagi en var á Norðurlöndum og er í Bandaríkjunum.

Eistlendingar og aðrar Eystrasaltsþjóðir áttu í miklum erfiðleikum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og þeim tókst að sigrast á þeim með aðhaldi. Grikkir hafa ekki sama sjálfsaga, en þá er skást að fella gengið, og það geta Grikkir ekki gert. Ég er ekki að mæla með samkeppni þjóða um að fella gengi gjaldmiðla sinna í því skyni að auðvelda útflutning og takmarka neyslu innflutnings, en það getur verið skárra en götubardagar og blóðsúthellingar.


Úr bók Svavars

Ég var að lesa bók Svavars Gestssonar (sem ég hafði aðeins rennt yfir lauslega áður). Á 168. bls. er þessi óborganlega klausa:

Ég hygg að sjaldan hafi nokkrir einstaklingar staðið frammi fyrir öðru eins verkefni í borgarmálum og þau Adda Bára Sigfúsdóttir og Sigurjón Pétursson þessi ár 1978–1982.

Þetta minnir á ummæli séra Ólafs Ólafssonar fríkirkjuprests daginn fyrir alþingiskosningarnar 1911:

Allur hinn menntaði heimur stendur á öndinni!


Vildi kaupa Ísland

reykjavik_1860s.jpgMaður var nefndur William Henry Seward, utanríkisráðherra Bandaríkjanna 1861–1869 og ötull landvinningasinni. Hann keypti Alaska af Rússaveldi 1867 og samdi við Dani um að kaupa af þeim nokkrar eyjar í Karíbahafi, en öldungadeild Bandaríkjaþings samþykkti ekki þau kaup, svo að ekki varð af þeim fyrr en 1917. Jafnframt hafði Seward hug á því að kaupa Grænland og Ísland af Dönum. Hann sneri sér til áhrifamanns í Washington-borg, Roberts J. Walkers, fyrrverandi fjármálaráðherra. Walker fékk námuverkfræðing, Benjamin M. Peirce (bróður hins kunna heimspekings), til að gera skýrslu um landkosti á Grænlandi og Íslandi eftir tiltækum heimildum.

Þegar upplýst var á Bandaríkjaþingi, að slík skýrsla væri í smíðum, skellihlógu þingmenn. Einn þeirra gerði gys að Seward fyrir að vilja nú kaupa „jarðskjálfta í Karíbahafi og ísbreiður á Grænlandi“. Treysti Seward sér ekki til að bera kaup á Grænlandi og Íslandi upp við þingið, en lét utanríkisráðuneytið prenta skýrsluna vorið 1868.

Í skýrslunni kvað Peirce erfitt að afla upplýsinga um Ísland. Þó væri landið ekki eins hrjóstugt og nafnið veitti vísbendingu um. Það væri grösugt og bæri fjölda sauðfjár. Gjöful fiskimið væru undan landi, sem yrðu mikils virði við betri tækni. Einnig væri verulegt vatnsafl í landinu, þótt það væri ekki nýtt, á meðan iðnaður væri nær enginn. Peirce nefndi einnig, að landið lægi vel við sæsíma milli Vesturheims og Evrópu.

Af frásögnum að dæma væru Íslendingar heiðarlegir, flestir læsir og betur að sér en grannþjóðirnar, en drykkfelldir. Þeir væru mjög stoltir af sögu sinni, tungu og menningu. Óstjórn Dana væri um fátækt þeirra að kenna. „Þeir hlakka til glæsilegrar framtíðar, þegar frjáls og framtakssöm stjórn beinir þeim með fjármagni og dugnaði að því að nýta auðlindir landsins og skipa þann sess meðal þjóða, sem þeim ber“ (A Report on the Resources of Iceland and Greenland, bls. 43).

Í formála lagði Robert J. Walker til, að Bandaríkjastjórn keypti Grænland og Ísland af Dönum. Nefndi hann, að þá myndi fylkin í Kanada ef til vill sjá sér þann kost vænstan að ganga í Bandaríkin. Jón Sigurðsson virtist vera eini Íslendingurinn, sem las skýrsluna, og sagði hann í bréfum, að auðvitað yrði aldrei af slíkum kaupum, en hugmyndin gæti bætt samningsaðstöðu Íslendinga gagnvart Dönum, svo að taka ætti henni vel. Voru þau viðbrögð Jóni lík.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. júlí 2015.)


Útvarpsviðtal um menntamál

Útvarpsviðtal var við mig á Bylgjunni síðdegis miðvikudaginn 1. júlí um menntamál, en ég tel hagnýtar greinar vanmetnar og of marga stunda nám í félagsvísindum og hugvísindum. Auka ætti þar námskröfur, en margir, sem þar séu, fyndu hæfileikum sínum betri farveg annars staðar:


Bækurnar í sumarbústaðinn

Nú eru hinir björtu, löngu dagar sumarbústaðanna. Þar slaka menn á, fara í gönguferðir, spjalla við fjölskylduna og grilla á kvöldin. Jafnframt vilja margir líta í bók, þegar þannig á stendur. Hér eru ráð um fjórar góðar bækur, sem taka mætti með í sumarbústaðinn:

ki_769_raargu_769_nova_ka_769_pa.jpgKíra Argúnova eftir Ayn Rand er skáldsaga um sjálfstæða og hugrakka rússneska konu, sem er í sambandi við tvo menn, Lev og Andrej. Hún á fárra kosta völ, þegar heitar ástríður rekast á erfiðar aðstæður. Sagan gerist í Pétursborg í upphafi þriðja áratugarins, og notast Rand við eigin reynslu: Hún fór frá Rússlandi til Bandaríkjanna 1926 og varð fyrst handritshöfundur í Hollywood, en gaf síðan út nokkrar metsölubækur, sem enn seljast eins og heitar lummur.

Uppsprettan eftir Rand er skáldsaga um bandarískan húsameistara, Howard Roark, sem lætur aðra ekki segja sér fyrir verkum, hvorki auðjöfra né almúga. Hann er í sambandi við Dominique, sem er raunar líka í sambandi við blaðakóng, Wynand Gail, og fjórða aðalsöguhetjan er dálkahöfundur í blöðum Gails, Ellsworth Toohey. Fyrirmynd Roarks er alkunn, bandaríski húsameistarinn Frank Lloyd Wright, en blaðakóngurinn og dálkahöfundurinn minna á tvo kunna Íslendinga, Wynand Gail á Jón Ólafsson athafnamann og Ellsworth Toohey á Stefán Ólafsson prófessor, enda líkir veruleikinn stundum eftir listinni. 

undirstadan_kapa.jpgUndirstaðan eftir Rand er skáldsaga um Dagnýju Taggart, sem rekur stórfyrirtæki, og mennina í lífi hennar, sem eru margvíslegrar gerðar, en dularfyllstur þeirra er John Galt, sem stjórnvöld vilja ná til. Óvíða kemur greinarmunurinn á afburðamönnum og afætum skýrar fram, munurinn á skapandi einstaklingum annars vegar og þeim, sem gerast sníkjudýr á öðrum, hins vegar. Undirstaðan hefur breytt lífi margra, enda er hún um, hvernig menn geta stækkað af sjálfum sér í stað þess að smækka af öðrum.

Heimur batnandi fer er eftir dr. Matt Ridley, sem var lengi vísindaritstjóri Economist og skrifar nú reglulega í Times um vísindi. Hann er dýrafræðingur að menntun, en hefur skrifað margar bækur um erfðafræði og þróun. Í þessari bók, sem er mjög læsileg, bendir Ridley á, hversu miklar framfarir hafa orðið í heiminum síðustu áratugi: Smitsjúkdómar hafa horfið að mestu, glæpum hefur fækkað, matvælaframleiðsla hefur aukist, hægt hefur á fólksfjölgun, venjulegum neytendum stendur til boða miklu fjölbreyttari og betri vara en áður og svo framvegis.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband