Hugleiðingar um gríska harmleikinn

athens.jpgVinstri menn á Íslandi eru ráðvilltir í Grikklandsmálinu. Þeir telja, að manngæska sé örlæti af annarra fé. Þess vegna skilja þeir alls ekki, að Evrópusambandið sé tregt til að ausa áfram fé í Grikkland. Vitaskuld myndu skriffinnarnir í Brussel helst kjósa þá leið, en hún er þeim lokuð af þremur ástæðum: 1) Þýskir skattgreiðendur, sem myndu bera þyngstu byrðarnar, sætta sig ekki við það. 2) Féð, sem er til ráðstöfunar í slíkar aðgerðir, er á þrotum. 3) Á eftir Grikkjum myndu koma aðrar þjóðir, sem vilja líka losna við að greiða skuldir sínar.

Gríski harmleikurinn 2015 er gerólíkur hinum íslenska 2009. Í Grikklandi skuldar ríkið öðrum fé, en á Íslandi var skuldunauturinn einkaaðili (sem hafði góða möguleika á að endurgreiða skuld sína, eins og kom í ljós) og lánardrottnarnir líka (og þeir, innstæðueigendurnir, höfðu fengið forgang með neyðarlögum Íslendinga, þótt Bretar hafi aldrei þakkað það). Í Grikklandi skýtur ríkisstjórnin greiðsluskyldu sinni í þjóðaratkvæðagreiðslu, en á Íslandi vildi ríkisstjórnin alls ekki þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samningana. Í Grikklandi lætur ríkisstjórnin öllum illum látum í því skyni að fá viðsemjendur sína til að afskrifa skuldir og lengja í lánum, en á Íslandi gerði ríkisstjórnin í rauninni ekki annað en framvísa ólundarlega til þjóðarinnar reikningnum, sem Bretar sendu fyrir einhliða aðgerðir sínar.

Gríska ríkið er auðvitað gjaldþrota. Það er ekki sjálfbært án víðtækrar endurskipulagningar, en ég sé ekki, hvernig hún á að fara fram.  Líklega heldur þjóðin áfram að hlusta á lýðskrumara (Kleon sútara og félaga hans) í stað þess að lækka skatta, fækka opinberum starfsmönnum, lengja starfsaldur, auka gagnsæi, auðvelda skattheimtu, fella niður óréttlætanlegar bætur og taka harðar á spillingu.

Gríski harmleikurinn sýnir einnig ókosti evrunnar (þótt auðvitað hafi hún kosti líka). Myntbandalög fá stundum staðist, til dæmis myntbandalag Norðurlanda fram að fyrri heimsstyrjöld og Bandaríkin, sem eru í rauninni myntbandalag fimmtíu ólíkra ríkja og nota öll einn og sama dalinn. Veikleiki evrunnar er, að kostnaðaraðlögun er miserfið í einstökum löndum evrusvæðisins. Hagkerfin eru allt of ólík til að geta notað sama gjaldmiðil. Vinnumarkaður Evrópu lýtur ósveigjanlegum reglum, svo að atvinnuleysi myndast, þegar að sverfur, í stað þess, að laun lækki. Erfiðara er að hreyfa sig á milli landa í þessu stóra myntbandalagi en var á Norðurlöndum og er í Bandaríkjunum.

Eistlendingar og aðrar Eystrasaltsþjóðir áttu í miklum erfiðleikum í hinni alþjóðlegu fjármálakreppu, og þeim tókst að sigrast á þeim með aðhaldi. Grikkir hafa ekki sama sjálfsaga, en þá er skást að fella gengið, og það geta Grikkir ekki gert. Ég er ekki að mæla með samkeppni þjóða um að fella gengi gjaldmiðla sinna í því skyni að auðvelda útflutning og takmarka neyslu innflutnings, en það getur verið skárra en götubardagar og blóðsúthellingar.


Bloggfærslur 8. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband