Árás Sigrúnar á Ridley

Breski metsölurithöfundurinn Matt Ridley, sem var um skeið vísindaritstjóri Economist og hefur skrifað margar bækur um vísindi, einkum erfðafræði og þróunarkenningu Darwins, birti mánudaginn 20. júlí skemmtilega grein um Ísland í Lundúnablaðinu Times, sem hann skrifar reglulega í, en Ridley hefur oft dvalist hér á landi, haldið fyrirlestra og veitt lax. Útdráttur úr grein hans, sem er annars aðeins aðgengileg í lokaðri áskrift á Times, er hér á Eyjunni.

Ég sendi Speglinum á Ríkisútvarpinu greinina í heild sinni á ensku til fróðleiks. En í stað þess að segja frá henni var kallað á Sigrúnu Davíðsdóttur íslenskufræðing, sem flutti gegn henni pistil miðvikudaginn 23. júlí. Þar hóf hún mál sitt á að ráðast á Matt Ridley, sem er af ætt kunnra vísindamanna og frumkvöðla og fimmti vísigreifinn af Ridley. Rifjaði hún upp, að hann hefði tekið sæti föður síns í stjórn bankans Northern Rock, sem var fyrsti breski bankinn til að lenda í lausafjárþurrð árið 2007, og var á henni að skilja, að Ridley ætti þess vegna sem fæst að segja um hina alþjóðlegu lánsfjárkreppu.

Ætti ég með sömu rökum jafnan að nefna það, þegar Sigrún Davíðsdóttir er kynnt til sögunnar, að hún hefur sent frá sér tvær misheppnaðar skáldsögur, sem veldur henni bersýnilega beiskju, og að hún reyndi hvað eftir annað fyrir hrun að fá verkefni hjá sömu íslensku bankastjórunum og hún hefur síðan ráðist heiftarlega á? Ætti ég að leggja áherslu á það, þegar hún deilir á ríkisstjórn Davíðs Oddssonar fyrir einkavæðingu bankanna, eins og hún hefur margsinnis gert, að bróðir hennar var formaður einkavæðingarnefndar? Um Northern Rock er það að segja, að vandi hans var í engu frábrugðinn vanda þeirra banka, sem síðar var bjargað með stórkostlegum fjárútlágum. Munurinn var aðeins sá, að hann varð fyrstur til að lenda í erfiðleikum og sætti þess vegna ómildari meðferð en aðrir breskir bankar.

Sigrún reyndi af veikum mætti að hrekja það, sem Matt Ridley sagði, með tali um, að hann bæri það saman, sem ósambærilegt væri, og gæfi sér rangar forsendur. Ég sá ekkert slíkt í grein hans. Það, sem hann sagði, var einfalt: Íslendingar voru grátt leiknir af Bretum í bankahruninu, meðal annars vegna þess að forkólfar Verkamannaflokksins lokuðu breskum bönkum í eigu Íslendinga að tilhæfulausu og reyndu að neyða Íslendinga til að greiða skuldir, sem þeir skulduðu ekki. Er þetta rangt? Hann sagði líka: Munurinn á Íslendingum og Grikkjum er, að Íslendingar gátu fellt gjaldmiðil sinn og þannig örvað útflutningsatvinnuvegina, en Grikkir verða til aðlögunar að treysta á kostnaðarlækkanir innanlands, sem óvíst er, að gangi eftir. Er þetta rangt?

Nei, hvort tveggja þetta er rétt hjá Ridley og blasir raunar við öllum, sem vilja kynna sér málið. Ég skora á Sigrúnu Davíðsdóttur að hrekja grein Ridleys á einhvern annan hátt en þann að koma ein í útvarp og tala óljóst, en af ótrúlegu oflæti, um rangar forsendur. Ég skora líka á Spegilinn að bjóða mér í þáttinn til þess að ræða þetta mál, helst beint við Sigrúnu (en annars væri mér svo sem sama, við hvern það væri, og jafnvel þótt ég fengi að tala einn). Spegillinn á að endurspegla, ekki afskræma.

Hér ræðir Ridley (lengst t. h.) við Sigríði Snævarr sendiherra og Þorstein Friðrik Halldórsson hagfræðinema, formann Frjálshyggjufélagsins, í útgáfuhófi 2014 vegna þýðingar á bók Ridleys, Heimur batnandi fer.

ridley_sigridur_thorsteinn_30_10_2014.jpg


Bloggfærslur 29. júlí 2015

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband