Pétur þulur

426722AVið Pétur Pétursson þulur vorum fjandvinir. Þegar ég setti saman bækur, hringdi ég oft í hann til að fletta upp í honum, því að hann var manna fróðastur um fyrri tíð, einkum um hagi manna og tengsl. Við vorum sammála um málvernd og málvöndun og hneyksluðumst óspart á metnaðarleysi blaðamanna. Pétur hringdi stundum í mig til að skamma mig fyrir blaðaskrif mín. Honum þótti ég hallast of langt til hægri. Hann var eindreginn vinstrisósíalisti. Þótt „íhaldið“ væri aðalóvinurinn í huga Péturs, hafnaði hann líka kreddum kommúnista. Hann var ekki blindur á höfuðspámenn þeirra hér á landi, þá Kiljan og Þórberg. Hann sagði iðulega, að Kiljan væri eins og glóandi peningur, þar sem letrað væri á aðra hlið „Snillingur“, en „Skálkur“ á hina. Þórbergur væri blanda úr fræðaþul, prédikara og trúði: Hann væri í senn Espólín, Vídalín og Sjapplín. Pétur lýsti því ósjaldan í mergjuðu máli, þegar hann var ungur maður sjónarvottur að Gúttóslagnum 1932, þar sem litlu mátti muna, að lögregluþjónar bæjarins væru drepnir. Pétur fylgdi lengi Alþýðuflokknum að málum, en sagðist hafa snúist frá honum í átökunum um utanríkisstefnuna um og eftir 1946. Hann var jafnan andvígur dvöl erlends varnarliðs á landinu.

Pétur hafði volduga rödd og gott vald á íslenskri tungu og var þess vegna ágætur útvarpsþulur, enda starfaði hann í Ríkisútvarpinu áratugum saman. Hann sagði mér, að erfiðast hefði sér reynst að lesa fréttina af því, þegar fyrstu kjarnorkusprengjunni var kastað á Híroshíma 1945. Eftir að um hægðist, sneri Pétur sér að þjóðlegum fræðum og dvaldi löngum stundum á Landsbókasafninu við grúsk. Greinar hans í Morgunblaðinu, þar sem hann rifjaði upp einstaklinga og atvik í Reykjavík á öndverðri tuttugustu öld, voru stórfróðlegar. Pétur var líka gamansamur og kunni ótal hnyttileg tilsvör. Skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins, Helgi Hjörvar, hafði mikla rödd eins og Pétur og var vinsæll upplesari. Kalt var milli hans og yfirmanns hans, Jónasar Þorbergssonar útvarpsstjóra. Eitt sinn heimsótti þingeyskur bóndi Jónas, sem sýndi honum höfuðstaðinn. Þeir komu að Alþingishúsinu og sáu Helga ganga þangað inn gustmikinn. Bóndi spurði: „Hver er þessi lágvaxni maður, sem stikar stórum og hrindir hurð af slíku afli?“ Jónas svaraði: „Þetta er Helgi Hjörvar.“ Bóndi sagði undrandi: „Nei, er hann svona lítill?“ Þá sagði Jónas af miklum þunga: „Hann er miklu minni.“

Pétur þulur átti góðan kunningja, Hauk pressara, sem ýmislegt skrýtið datt stundum út úr. Pétur átti líka nokkra kunna alnafna. Eitt sinn spurði Haukur pressari Pétur: „Ertu ekki alltaf að fá bréf, sem Pétur í Glerinu á að fá, og líka bréf, sem Pétur í Álafossi á að fá, og þeir að fá bréf, sem þú átt að fá?“ Pétur svaraði: „Jú, en það er gott á milli okkar, og hver fær sitt.“ Þá sagði Haukur: „Þið eruð orðnir of margir. Ég segi það satt. Ég er orðinn þreyttur á þessu.“ Pétur þulur hafði gaman af að segja sögu af einum þessara alnafna, Pétri í Glerinu. Vinur hans, Ewald (Lilli) Berndsen, hafði tekið hann með sér á sýningu á Skugga-Sveini Matthíasar Jochumssonar og sagt honum á undan íbygginn, að í sýningarlok væri höfundur jafnan kallaður fram og hylltur með lófataki ásamt leikstjóra og leikendum. Að sýningu lokinni kallaði Pétur í Glerinu hátt og snjallt, svo að heyrðist um allan sal: „Fram með höfundinn!“

Einn skemmtilegasti fundur, sem ég hef sótt, var, þegar við Pétur Pétursson háðum kappræðu í Tjarnarsal ráðhússins í Reykjavík sunnudaginn 1. febrúar 2004. Hún var um „Hvíta stríðið“, sem Pétur kallaði svo, en þar var barist um munaðarlausan, erlendan dreng, sem sósíalistinn Ólafur Friðriksson ritstjóri hafði séð aumur á í utanferð og tekið með sér hingað 1921. Hann reyndist vera með smitnæman augnsjúkdóm, trachoma, og vildi valdstjórnin því senda hann úr landi. Ólafur óhlýðnaðist, og þurfti þá að bjóða út varaliði lögreglu. Á móti henni var skipulögð eins konar andspyrnusveit, og var það fyrsta dæmið, en ekki hið síðasta, um, að sósíalistar á Íslandi beittu ofbeldi í stjórnmálabaráttunni. Pétur hafði fengið áhuga á málinu og grafið upp, að pilturinn hefði síðar fengið bót meins síns í Danmörku. Taldi hann brottvísun hans úr landi hina verstu valdníðslu. Ég var undrandi, þegar ég kom á fundinn, sem Pétur hafði haft allt frumkvæði að og skipulagt. Salurinn var troðfullur! Voru áheyrendur á öllum aldri. Það var áreiðanlega ekki mér að þakka, heldur Pétri. Honum var lagið að kveikja áhuga fólks á því, sem hann fékkst við.

Pétur Pétursson flutti skörulega framsöguræðu, þótt ekki talaði hann skipulega, heldur færi úr einu í annað, eins og honum var tamt. Lagði hann áherslu á, að trachoma væri læknanlegur sjúkdómur, svo að rétt hefði verið að reyna að lækna piltinn hér í stað þess að vísa honum brott. Bar hann augnlækna fyrir því, að sjúkdómurinn væri ekki eins bráðsmitandi og íslensk yfirvöld höfðu haldið fram. Ég svaraði því til, að jafnvel einbeittustu frelsisunnendur vildu takmarka frelsi til að bera smit. Árið 1921 hefðu aðstæður verið erfiðar á Íslandi til að ráða niðurlögum smitsjúkdóms eins og trachoma. Þröngbýlt hefði verið í Reykjavík, fólk fátækt, aðeins tveir sérfróðir augnlæknar á öllu landinu og spánska veikin 1918 öllum í fersku minni, en þá féllu nær fimm hundruð manns. Þetta skýrði viðbrögð valdstjórnarinnar, sem farið hefði að ráði landlæknis. Aðalatriðið væri þó, að Ólafur Friðriksson og bardagasveit hans hefðu í heimildarleysi tekið lögin í sínar hendur. Þeir hefðu reynt með ofbeldi að koma í veg fyrir, að boði yfirvalda væri fylgt, en ekkert ríki gæti þolað borgurum sínum það.

Þessi kappræða snerist upp í einvígi um íslenskan fróðleik. Hvor gat farið með mergjaðri ákvæðavísur og sært fram sterkari stuðningsmenn frá fyrri tíð? Þegar ég vitnaði í gagnrýni Ólafs Björnssonar prófessors á haftabúskapinn, sem félagshyggjumenn komu hér á í því skyni að taka innflutningsverslun úr höndum kaupmanna, svaraði Pétur því til, að Steinn Steinarr skáld hefði farið háðulegum orðum um mág sinn, Ólaf. (Steinn á að hafa sagt, að Ólafur væri eins lélegur hagfræðingur og raun bæri vitni, af því að hann hefði ekki tímt að kaupa dönsku kennslubækurnar, sem settar voru fyrir í háskólanámi hans. Auðvitað er sagan uppspuni.) Þá minnti ég Pétur á, að Steinn hefði snúist frá kommúnisma síðustu æviárin og ort mögnuð kvæði um Kremlverja, sem ég fór með. Þegar ég vitnaði í nýbirt skjöl, sem sýndu, að sósíalistar hefðu þegið fjárhagsaðstoð frá Kreml til að reisa stórhýsi Máls og menningar við Laugaveg 18, „Rúbluna“ svonefndu, rifjaði Pétur upp sögusagnir um, að Kristinn E. Andrésson, forstjóri Máls og menningar, hefði fengið fyrirgreiðslu í Búnaðarbankanum gegn loforði um, að sósíalistar styddu Stefán Hilmarsson, son Hilmars Stefánssonar bankastjóra, til að taka við starfi föður síns. Margt var skrafað á fundinum um Kleppsmálið 1930, Kollumálið 1934 og Kveldúlfsmálið 1937, en af þeim öllum urðu talsverð ærsl á sínum tíma. Skemmtu fundarmenn sér hið besta. En nú mun þrumuraust Péturs Péturssonar ekki heyrast lengur. Hann lést 23. apríl 2007, 88 að aldri.

(Styttri útgáfa birtist sem minningargrein í Morgunblaðinu 5. maí 2007.) 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband