Þrjár greinar og ekki tilefnislausar

Þrjár helgar í röð hafa birst eftir mig myndskreyttar greinar í jafnmörgum blöðum.

Fyrsta greinin hét „Berlínarmúrinn“ og birtist í Fréttatímanum föstudaginn 12. ágúst 2011, fimmtíu árum eftir að Berlínarmúrinn var reistur (13. ágúst 1961). Þar ræddi ég meðal annars um þá Íslendinga, sem vörðu múrinn á sínum tíma, og tengsl íslenskra kommúnista við austur-þýska. Með greininni var mynd, sem ég fékk frá Þýska þjóðskjalasafninu, Bundesarchiv, og mun birtast í væntanlegri bók minni um íslenska kommúnista.

Önnur greinin hét „Minningardagur fórnarlambanna“ og birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 20. ágúst. Hún var um minningardag fórnarlamba nasismans og kommúnismans, sem Evrópusambandið og fleiri aðilar hafa lagt til, að haldinn verði árlega 23. ágúst (en þann dag árið 1939 gerðu Stalín og Hitler griðasáttmála þann, sem hleypti af stað seinni heimsstyrjöld). Í greininni ræddi ég stuttlega um sameðli þessara tveggja alræðisstefna og sagði frá nokkrum fórnarlömbum þeirra, meðal annars Margarete Buber-Neumann, en hún sat fyrst í fangabúðum Stalíns og síðan Hitlers og skrifaði um það bókina Konur í einræðisklóm, sem kom á sínum tíma út á íslensku. Með greininni birtust myndir, sem ég fékk frá Þýska þjóðskjalasafninu, Bundesarchiv, frá Þýska landsbókasafninu, Deutsches Nationalbibliotek, og úr Svartbók kommúnismans

Þriðja greinin hét „Ísland, Eystrasaltslöndin og heimskommúnisminn“ og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 27. ágúst. Hún var skrifuð af því tilefni, að tuttugu ár voru 25. ágúst liðin, frá því að Ísland endurnýjaði viðurkenningu sína á sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og tók aftur upp stjórnmálasamband við þau. Þar ræddi ég um ýmis óvænt tengsl Íslands og Eystrasaltsþjóða, til dæmis fyrirlestra Líbu Fridlands hér á útmánuðum 1923 og greinaskrif Teodorasar Bieliackinas 1946, en einnig bækur á íslensku um hlutskipti þessara ríkja og óvæntar heimsóknir ýmissa kunnra manna frá þeim. Með greininni birtust myndir, sem ég fékk úr myndasöfnum í Eistlandi og annars staðar og úr Þjóðskjalasafni Lettlands.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband