Hver var Vladímírov?

Kristinn E. Andrésson var framkvæmdastjóri Máls og menningar, miðstjórnarmaður í Sósíalistaflokknum og vinur Kremlverja. Hann fór mikla ævintýraför snemma í seinni heimsstyrjöld.

Kristinn átti vorið 1940 erindi til Danmerkur til Svíþjóðar. Þar sem hann var staddur í Stokkhólmi 9. apríl barst honum fréttin um, að Þjóðverjar hefðu hernumið Danmörku og Noreg. Kristinn ákvað að halda heim í gegnum Rússland. Flaug hann til Riga og þaðan til Moskvu, þar sem hann dvaldist í þrjár vikur.

Skjöl í Moskvu sýna, að Kristinn gekk 16. apríl á fund ráðamanna Alþjóðasambands kommúnista, Kominterns, og gaf þeim skýrslu um starfsemi íslenskra sósíalista. Fékk hann fjárstyrk til Máls og menningar, sérstaklega til að gefa út rússnesk áróðursrit.

Ráðamenn Kominterns kölluðu Kristin aftur á sinn fund 9. maí og afhentu honum ýmis fyrirmæli til Sósíalistaflokksins, þar á meðal um að taka hvorki afstöðu með Bretum né Þjóðverjum í stríðinu. Einnig kom „Vladímírov“ í áróðursdeild Kominterns á framfæri tilmælum til íslenskra sósíalista um að kynna sér betur fræðirit marxismans.

Kristinn flaug síðan til Sofíu í Búlgaríu og ók þaðan með lest til Genúa. Þar barst honum fréttin um, að Bretar hefðu hernumið Ísland 10. maí. Hann komst með síðasta skipi frá Genúa til New York, þar sem hann afhenti bandaríska kommúnistaflokknum leynileg skilaboð. Sigldi hann síðan til Íslands.

Hver var Vladímírov, sem vildi fá íslenska sósíalista til að lesa sér betur til? Ég hygg, að hann sé búlgarski kommúnistinn Valko Tsjervenkov, sem varð eftir stríð forsætisráðherra lands síns. Var hann harður stalínisti og svo óvinsæll að sögn, að frímerki með mynd af honum var ónothæft, því að allir hræktu öfugum megin á það.

Fróðlegt væri síðan að vita, hvaða leynilegu skilaboð Kristinn flutti bandarískum kommúnistum.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgunblaðinu 27. ágúst 2011, en hann er sóttur í væntanlega bók mína, Íslenskir kommúnistar 1918–1998.)

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband