Ótrúlegra en orðum taki

Á leið um Eymundsson á dögunum keypti ég pappírskilju, Mao’s Great Famine, eftir Frank Dikötter, sem er prófessor í nútímasögu Kína við Lundúnaháskóla og prófessor í hugvísindum við Háskólann í Hong Kong.

Þetta er ótrúleg lesning. Mörg mikilvægustu skjalasöfn í Kína eru lokuð öðrum en sérvöldum fræðimönnum flokksins. En sum héraðsskjalasöfn eru opin venjulegum fræðimönnum, og þar eru stundum fyrir tilviljun geymd afrit af trúnaðarupplýsingum og strangleynilegum skýrslum, sem fóru á milli helstu forystumanna kommúnistaflokks Kína.

Með rannsóknum í mörgum slíkum héraðsskjalasöfnum, samtölum við fólk um fyrri tíð og ýmsum öðrum gögnum hefur prófessor Dikötter tekist að setja saman heillega, en um leið hroðalega mynd af hinu „Stóra stökki fram á við“, sem Kínverjar tóku undir leiðsögn Maós formanns og hófst árið 1958.

Á einni svipstundu átti að gera Kína að voldugu landbúnaðar- og iðnríki, sem fullfært yrði um að taka forystuna í fylkingu sósíalistaríkja úr höndum Kremlverja. Breyta átti bændum og verkamönnum landsins í sigursælan her, sem einbeitti sér að því að auka framleiðsluna og þramma þannig inn í sæluríkið.

Þetta mistókst hrapallega. Þetta var heljarstökk út í ófæru. Afleiðingin varð mesta hungursneyð, sem riðið hefur yfir mannkyn, frá því að sögur hófust. Dikötter telur, að um 45 milljónir manna hafi týnt lífi vegna „Stóra stökksins fram á við“. Þessi niðurstaða hans er svipuð og kínversks fræðimanns að nafni Chen Yizi, sem fékk um skeið aðgang að hinu lokaða skjalasafni kommúnistaflokksins í Beijing, en flýði frá Kína eftir fjöldamorðin á Torgi hins himneska friðar sumarið 1989. Fáir Vesturlandamenn trúðu í fyrstu Chen Yizi. Þeir héldu, að hann væri að ýkja.

Dikötter þylur þó ekki aðeins tölur í bók sinni, heldur kann ótal sögur af venjulegu fólki og örlögum þess við óblíðar aðstæður. Valdhafarnir voru miskunnarlausir ruddar, hertir í áratuga stríði. Mannslífið var þeim einskis virði. Þó urðu afleiðingarnar af „Stóra stökkinu fram á við“ svo óskaplegar, að í kommúnistaflokknum var Maó borinn ráðum árið 1962. Strax og bændur fengu að erja jörð sína í sæmilegum friði frá stjórnvöldum, jókst matvælaframleiðsla og hungursneyðinni linnti.

Maó sætti sig við þetta um tíma, sagði fátt, en hugsaði margt. Hann hefndi sín í Menningarbyltingunni frá 1966, sem var gagnsókn hans og helstu fylgismanna hans í kommúnistaflokknum gegn hinum hófsamari mönnum.

Bók Dikötters er læsileg og afar fróðleg. Kínverski rithöfundurinn Jung Chang, sem samdi Villta svani og síðan fræga ævisögu Maós ásamt eiginmanni sínum og var gestur á bókmenntahátíð hér um árið, lýkur sérstöku lofsorði á þetta rit. Í henni fær nafnlaus og hljóður skari fórnarlambanna skyndilega rödd.

Þó blasir við, að enn er mikið verk óunnið í lokuðum, kínverskum skjalasöfnum. Þar hef ég tillögu.

geir_sigurdsson.jpgGeir Sigurðsson, sem kennir nú kínversk fræði í Háskóla Íslands, hefur skrifað margt gegn þeim, sem gagnrýna kommúnistastjórnina í Kína, til dæmis Jung Chang. Geir hefur þannig gert sitt til að vera í náðinni hjá þessari stjórn. Ætti hann ekki að reyna að fá aðgang að þeim skjalasöfnum í Beijing, sem öðrum fræðimönnum eru lokuð, af því að kommúnistaflokkurinn treystir þeim ekki? Þannig gæti Háskólinn gert kínverskum fræðum mikið gagn, ekki síst ef Geir leyfir fórnarlömbunum líka að tala, en ekki aðeins böðlum þeirra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband