Lauslegar þýðingar

Sænska skáldið Esaias Tegnér sagði: Snjallar þýðingar eru, líkt og fallegar eiginkonur, ekki alltaf hinar trúustu.

Sumt verður að þýða með því að víkja frá frumtextanum. Eitt dæmi er í leikriti enska skáldsins Toms Stoppards, Night and Day, sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu fyrir mörgum árum. Þar er eftirfarandi samtal einræðisherra í Afríku og ensks blaðamanns:

[Mageeba:] Do you know what I mean by a relatively free press, Mr Wagner?

[Wagner:] Not exactly, Sir, no.

[Mageeba:] I mean a free press which is edited by one of my relatives.

Þetta missir marks, ef það er þýtt bókstaflega, eins og gert var í íslensku uppfærslunni. Davíð Oddsson stakk upp á annarri þýðingu við mig:

[Mageeba:] Veistu, Wagner, hvað ég á við með því, að frjáls blöð geri skyldu sína?

[Wagner:] Nei, herra minn, það veit ég ekki.

[Mageeba:] Ég á við það, að eitthvert skyld­­menni mitt ritstýri þeim.

Með þessari þýðingu næst merkingin án þess að fórna orðaleiknum.

Annað dæmi er áletrun á latínu yfir dyrum þinghúss aðalsmanna í Stokkhólmi, Riddarhuset: „Arte et marte.“ Orðrétt merkir hún: „Með lagni eða vopnavaldi.“ En eðlilegast væri að segja á íslensku: „Með blíðu eða stríðu.“

Í því sambandi detta mér í hug tvö vígorð róttæklingahreyfinganna í Bandaríkjunum um og eftir 1968. Annað var: „Black is beautiful.“ Því mætti snúa: „Svart er smart.“ Hitt var: „Make love, not War.“ Þá mætti segja: „Betra að ríða en stríða.“ Með þessu eru orðin þýdd á götumál frekar en klassíska íslensku, en ef til vill á það vel við um mótmælendur á götum úti.

Sennilega er þó einn enskur orðaleikur úr heimspeki með öllu óþýðanlegur á íslensku: „What is mind? No matter. What is matter: Never mind.“ Ef lesendur hafa tillögur, þá eru þær vel þegnar.

(Þessi fróðleiksmoli birtist í Morgublaðinu 11. júní og er sóttur á ýmsa staði í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út 2010 og hentar afar vel til tækifærisgjafa, til dæmis við útskriftir, fermingar og afmæli.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband