Í þættinum Harmageddon

Þriðjudaginn 10. maí kl. 17.00 var ég í viðtali í þætti þeirra Frosta Logasonar og Mána Péturssonar um „þokkafull risadýr“, en svo kalla ég þau dýr, sem enskumælandi menn nefna „charismatic megafauna“. Síðan barst talið að íslenska kvótakerfinu. Þetta viðtal má hlusta á hér.

Ég sagði þeim Frosta og Mána og hlustendum þeirra frá rannsóknarverkefni, sem ég hef umsjón með í Háskóla Íslands, „Umhverfisvernd, eignaréttindi og auðlindanýting,“ en tilgangur þess er að kanna, hvernig nota má frjáls viðskipti, verðlagningu á  markaði, úthlutun eignaréttinda og skýrari skilgreiningu ábyrgðar til þess að minnka umhverfisspjöll. Hef ég nýlega flutt tvo opinbera fyrirlestra í Háskóla Íslands um þætti í þessu verkefni.

Ein slík umhverfisspjöll eru, þegar sjaldgæfum dýrum er útrýmt. Menn hafa sérstakan þokka á risadýrum eins og fílum og hvölum og vilja ekki, að þau hverfi úr sögunni. Um það er ég sammála þeim, eins og ég sagði í þættinum. Þetta eru mikilfengleg dýr, og man ég vel, hversu vel ég naut skoðunarferðar minnar, safari, í Mala Mala í Suður-Afríku haustið 1987, þar sem ég fór í framsætinu í opnum Landrover um slóðir dýranna á gresjunni í ljósaskiptum kvölds og morgna, en þá eru þau helst á ferð.

En hvernig er best að vernda þokkafull risadýr eins og fíla og nashyrninga? Svar mitt var, að það væri sennilega heppilegra með frjálsum viðskiptum en skilyrðislausu veiðibanni. Ef íbúar á slóðum fílanna og nashyrninganna mega nýta sér þessi dýr sjálfir, selja veiðileyfi á þau og hirða og selja fílabín og nashyrningahorn, sem eftirsótt eru, þá munu þeir gæta dýranna betur en nú er, þegar þeir hafa engan hag af dýrunum nema þann að skjóta þau ólöglega (sem þeir gera). Vernd krefst verndara.

Þessi leið hefur raunar verið reynd með góðum árangri sums staðar í Simbabve og Suður-Afríku, og einnig verður að hafa í huga, þótt vissulega séu allir stofnar nashyrninga í útrýmingarhættu, að sumir stofnar fíla eru það ekki.

Þeir Frosti og Máni sáu óðar hliðstæðuna við kvótakerfið íslenska í sjávarútvegi. Þar var hætta á ofveiði (og hún var raunveruleg, síldin hvarf um miðjan sjöunda áratug, og þorskstofninn var í hættu). Henni var afstýrt með því að veita þeim, sem þegar höfðu skapað sér atvinnu af að nýta fiskistofnana, réttindi til þess að gera það, sem væru ótímabundin og framseljanleg. Þannig höfðu þeir hag af því að veiða fiskinn með sem lægstum tilkostnaði og gátu skipulagt veiðarnar til langs tíma. Þeir, sem síður voru til þess fallnir að veiða fisk, seldu kvóta sína hinum, sem vildu vera eftir í greininnni.

Frá því að heildstætt kvótakerfi var tekið upp (með atkvæðum þeirra Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar), eru liðin tuttugu ár. Kerfið hefur reynst vel, og hafa margar þjóðir tekið það upp. Dr. Þráinn Eggertsson prófessor, sem er sérfræðingur í stofnanahagfræði, segir, að þetta sé eina sérstaka framlag Íslendinga til hagkvæmra stofnana eða leikreglna um nýtingu náttúruauðlinda. Engu að síður á nú að eyðileggja kerfið!

Áhyggjuefnið er, að arður myndist í sjávarútvegi. Ég benti á, að þessi arður rennur einmitt til þeirra, sem keyptu kvóta, en ekki hinna, sem hættu í greininni. Það er ómaklegt að refsa þeim mönnum, sem eftir urðu í sjávarútvegi. Á ekki frekar að vera fagnaðarefni, að arður myndist í greininni? Og spurningin er sú, hvort þessi arður nýtist einmitt ekki miklu verr og hverfi jafnvel mestallur að lokum, ef ríkið reynir að gera hann upptækan.

Fyrir þúsund árum fundu Íslendingar Ameríku, og þeir týndu henni aftur. Nýlega fundu þeir kvótakerfið, og þeir virðast ekki hafa vit á því að halda í þetta kerfi. Ætlar sagan að endurtaka sig?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband