Söguskýringar Egils Helgasonar

Egill Helgason skrifar nú á bloggi sínu:

Tíminn frá sirka 1990 og fram að hruninu er að mörgu leyti glataður tími. Menn stærðu sig af miklum efnahagsframförum, en í raun voru þær knúðar áfram af lánaþenslu.

Ójöfnuður fór vaxandi, fjármálamenn urðu ofurríkir og náðu kverkatökum á vestrænu samfélagi.

Lítilþægir stjórnmálamenn létu gott heita – þeir voru fyrst og fremst þjónar fjármálavaldsins eða höfðu ekki hugmyndaflug til að sjá út fyrir rétttrúnað samtímans. Hugmyndfræðin gekk út á markaðurinn myndi leysa öll vandamál af sjálfu sér – það reyndist vera tálsýn.

Þetta er nánast allt rangt eða stórlega úr lagi fært, að minnsta kosti um Ísland. Eins og sést á einu línuritinu í bók minni, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör, sem kom út 2009, hófst lánsfjárþensla ekki að ráði hér fyrr en 2004.

Miklar framfarir urðu í krafti aukins atvinnufrelsis og lægri skatta tímabilið 1995–2004, en næstu ár á undan var atvinnulífið að jafna sig eftir kreppu. Kjör almennings bötnuðu um þriðjung.

Tekjuskiptingin varð ekki ójafnari á þessu tímabili, svo að neinu næmi. Tölur Stefáns Ólafssonar og Þorvaldar Gylfasonar um þetta reyndust rangar, eins og ég bendi á í ofannefndri bók minni. Tekjuskiptingin hér mældist árið 2004 svipuð og annars staðar á Norðurlöndum og talsvert jafnari en í Bretlandi og Bandaríkjunum.

Fátækt var hér 2004 einna minnst í heiminum, og raunar mældist fátækt meðal roskins fólks þá hin minnsta í heimi. (Þetta sýndi viðamikil lífskjarakönnun hagstofu Evrópusambandsins.)

Lífeyrissjóðir urðu hér sjálfbærir ólíkt því, sem er í mörgum grannríkjum okkar, þar sem þeir fara fyrirsjáanlega í þrot, ef ekki verður að gert.

Stórfelldar skattalækkanir skiluðu miklum árangri, eins og ég rek í ofannefndri bók minni. Þegar tekjuskattur á fyrirtæki lækkaði úr 40% í 15%, jukust skatttekjur af þeim. Sneiðin minnkaði, en kakan stækkaði.

Mörg fleiri dæmi má nefna um það, sem á raunar ekki að þurfa að stafa ofan í nokkurn mann: Vinnufýsi manna og verðmætasköpun eykst, þegar þeir fá að halda eftir stærri hluta af afrakstrinum.

Stjórnsýslulög og Upplýsingalög voru sett til að tryggja betur rétt einstaklinga gegn kerfinu. Framkvæmdastofnun, Atvinnutryggingasjóður og aðrar stofnanir, sem höfðu það hlutverk helst að verðlauna taprekstur, voru lagðar niður, svo að biðstofa forsætisráðherra tæmdist.

Menn þurftu ekki lengur að veifa flokksskírteini eða fæðingarvottorði til að fá eðlilega afgreiðslu mála sinna.

Hér voru í gildi nákvæmlega sömu reglur um fjármálamarkaðinn og annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Hið eina, sem er rétt í þessari lýsingu Egils Helgasonar, er, að hér á landi náðu fjárglæframenn því miður kverkataki á þjóðlífinu, þótt það gerðist tímabilið 2004–2008 frekar en árin á undan.

Fámenn klíka undir forystu skuldakóngsins Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sölsaði undir sig áhrifamikla fjölmiðla og beitti þeim harkalega gegn þeim, sem þorðu að gagnrýna hana. Þessi klíka átti greiða leið inn á Bessastaði, og sumir stjórnmálamenn vörðu hana af kappi, til dæmis Ingibjörg Sólrún Gísladóttir í hinni alræmdu Borgarnesræðu vorið 2003.

Davíð Oddsson gagnrýndi þessa klíku af einurð. Hann varaði við því, að sami hópurinn réði skoðanamyndun og verðmyndun í landinu. Þess vegna var fjölmiðlum Jóns Ásgeirs sigað á hann.

En hvað sagði Egill Helgason? Hann skrifaði í DV 23. október 2004:

Fyrsta skrefið til velgengni var að kveða gömlu forréttindastéttina í kútinn. Það var heldur ekki erfitt, hún var orðin svo úr tengslum við veruleikann. Forpokuð og stöðnuð. Það þurfti bara að blása aðeins, þá hrundi gamla dótið eins og spilaborg. Engum þótti vænt um það eða kærði sig um það; það var til dæmis algerlega staðnað í yfirstéttarlegum smekk sínum. Í staðinn eru komnir þessir ævintýramenn markaðarins, menn tækifæranna sem hafa á sér yfirbragð dirfsku og útrásar.

 

Og þegar yfirvöld tóku til meðferðar kæru frá einum viðskiptafélaga Jóns Ásgeirs á hendur honum fyrir efnahagsbrot, sem hann hlaut síðar dóm fyrir, skrifaði Egill 17. ágúst 2005:

Og maður er strax orðinn dauðleiður á þessu. Allar horfur eru líka á að þetta haldi áfram fram yfir héraðsdóm og hæstarétt – það sem er einna verst er að fólk er hálfpartinn neytt til að taka afstöðu til mála sem kannski koma því ekkert sérstaklega mikið við. Fer maður kannski á endanum að segja eins og Lyga-Mörður í Njálu þegar hann frétti að Gunnar og Otkell væru að berjast við Rangá: „Þeir einir munu vera að ég hirði aldrei þó að drepist.“

 

Egill Helgason getur ekki skrifað sig frá sögulegum staðreyndum. Orð Lyga-Marðar verða ekki því sannari sem þau eru endurtekin oftar. Hér var mikið framfaraskeið árin 1991–2004. Ísland var árið 2004 eitt besta land í heimi eftir öllum mælingum. Eftir það fór hins vegar allt norður og niður, því að hin fámenna klíka fjárglæframanna hrifsaði til sín öll völd með dyggilegri aðstoð áhrifamikilla álitsgjafa eins og Egils Helgasonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband