Þingmaðurinn Ólafur Thors

Ólafur Thors var fyrst kjörinn á þing 1926 og sat þar óslitið til andláts síns 1964. Þótti strax sópa að honum. Eftir að hann hafði setið um hríð á þingi, sagði þó einn flokksbróðir hans, Pétur Ottesen: »Þú mætir allt of illa á nefndarfundi, Ólafur, þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið!« Ekki stóð á svarinu: »Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni!«

Kona Ólafs var Ingibjörg, dóttir Indriða Einarssonar, fyrsta Íslendingsins til að ljúka hagfræðiprófi. Raunar var Indriði kunnari fyrir áhuga sinn á leiklist. Lét Jónas Jónsson frá Hriflu einu sinni svo um mælt: »Það er einkennileg tilviljun, að hinn kunni hugsjónamaður íslenskrar leikmenntar, Indriði Einarsson, skyldi hafa átt að tengdasonum tvo mestu leikara á Íslandi, þá Jens Waage og Ólaf Thors.«

Vorið 1958 sátu þeir Ólafur, Hannibal Valdimarsson og fleiri menn á kaffistofu Alþingis. Útvarp var þar í gangi, en leikin voru óskalög sjúklinga. Ólafur raulaði undir einu þeirra. Sagði þá Hannibal: »Er nú strandkapteinninn farinn að syngja?« Ólafur svaraði: »Já, og skítkokkurinn má taka undir!«

Ein saga af Ólafi er í bókinni Kæri kjósandi, sem kom út 2000, og hafði ég ekki áður lesið hana eða heyrt. Ólafur deildi eitt sinn á þingi hart við Halldór Ásgrímsson, afa og alnafna Halldórs forsætisráðherra. Sagði Ólafur: »Herra forseti, háttvirtur annar þingmaður Austfirðinga hafði eftir mér ummæli hér áðan. Þau voru rangt höfð eftir.« Halldór kallaði fram í: »Ég hef skrifað þau hér niður hjá mér.« Ólafur svaraði að bragði: »Það er ekki að sökum að spyrja. Maður, sem hugsar vitlaust, hann skrifar vitlaust!« Væri gaman að vita, hvort þessi saga hefur birst einhvers staðar áður. Ég hef að minnsta kosti ekki fundið ummælin í Alþingistíðindum.

Frændi minn, framsóknarmaðurinn Björn Pálsson af Guðlaugsstaðakyni, settist á þing 1959. Eftir að hann hafði flutt jómfrúræðu sína á þingi, gekk hann til Ólafs og spurði: »Jæja, hvernig fannst þér ræðan?« Ólafur svaraði: »Björn minn, þú hefðir átt að vera kominn á þing fyrir löngu, því að þá hefði ég ekki alltaf verið talinn vitlausasti maðurinn á þingi!«

Þess má geta, að Björn mælti, þegar Ólafur lést á gamlársdag 1964: »Nú er bara einn skemmtilegur maður eftir á Alþingi.«

(Þessi fróðleiksmoli minn birtist í Morgunblaðinu 12. febrúar 2011 og er sóttur í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem kom út fyrir jólin 2010.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband