Jólabækur 2010

kjarni_malsins_jpg_1043025.jpgÉg var að fá Bókatíðindi 2010 inn um dyrnar. Kennir þar margra grasa. Sjálfur gef ég auðvitað út bók fyrir jólin, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og er hún sennilega ein stærsta bókin í ár, 992 bls. í stóru broti. Reyndi ég eins og ég gat að veita lesandanum þar þjónustu, taka saman fyrir fólk fleygar setningar, sem eiga það skilið að lifa, en má líka nota í ræðum og greinum. En auðvitað er það ekki allt snilld eða speki, sem þar getur að líta. Sumt er valið, af því að það er sögulegt, oft í það vitnað.

Ég hef lesið tvær jólabókanna, Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson og Jónínu Ben eftir Sölva Tryggvason. Snjóblinda er hugvitsamlega samin glæpasaga með flestum kostum og göllum þeirrar bókmenntagreinar. Ragnar er að verða einn af bestu glæpasagnahöfundum okkar. Afstaða mín til bókar Jónínu er blendnari. Hún er prýðilega skrifuð, en mér finnst Jónína ónærgætin við margt fólk. Hún birtir umsvifalaust ummæli þess og jafnvel tölvuskeyti frá því, sem áreiðanlega voru send í trúnaði. Hitt er annað mál, að ekki er unnt annað en dást að þrautseigju hennar og baráttugleði, og ekki vildi ég vera óvinur hennar. Minnir Jónína mig á suma kvenskörunga sögualdar, eins og sagt er frá þeim í Íslendinga sögum.

Ég ætla að reyna að finna mér tíma til að lesa á næstunni nokkrar bækur:

Útlaginn eftir Sigurjón Magnússon virðist vera forvitnileg skáldsaga. Hún er bersýnilega um Þorsteinsmálið í Austur-Þýskalandi, sem ég þekki vel af rannsóknum mínum á sögu íslenskra kommúnista.

Ég sé ekkert svona gleraugnalaus eftir Óskar Magnússon er smásagnasafn. Það fær góða dóma frá því fólki, sem ég tek mark á um bókmenntir, og hlakka ég til að lesa það.

Gunnar Thoroddsen. Ævisaga eftir dr. Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing er um mjög gáfaðan og mikilhæfan stjórnmálamann, sem hafði charisma, náðarvald, aðdráttarafl. Mér finnst enginn sérstakur galli á honum, að hann skuli hafa verið sjálfhverfur, eins og blasir við af köflum úr bókinni, sem birst hafa á prenti. Hann var ekki heldur sekur um neinn glæp, þótt hann greiddi í Reykjavík  fyrir kjósendum sínum utan af landi og gerði þeim jafnvel greiða líka á heimaslóðum þeirra. Fyrirgreiðsla þarf ekki að vera spilling; hún getur verið aðstoð.

Sovét Ísland. Óskalandið eftir dr. Þór Whitehead prófessor verður áreiðanlega ein besta bókin, sem kemur út um þessi jól. Allir lesendur Þórs vita, hversu mikla vinnu hann leggur í söfnun heimilda og úrvinnslu þeirra. Honum tekst líka öðrum sagnfræðingum betur að skrifa læsilegan og aðgengilegan stíl. Veit ég, að Þór hefur aðgang að ýmsum heimildum, sem aðrir hafa ekki notað. Hef ég fyrir satt, að með þessari bók fylgi Þór eftir ritgerð sinni í Þjóðmálum fyrir nokkrum árum, en hún vakti mikla athygli.

Fegurstu ljóð Jónasar, sem Kolbrún Bergþórsdóttir valdi, er falleg, lítil bók, sem gaman er að eiga og enn skemmtilegra að gefa. Er Jónas ekki okkar mesta þjóðskáld? Okkar íslenskasta skáld?

Eflaust  mun ég lesa fleiri bækur, en ég læt þennan lista nægja í bili.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband