Fleiri bækur 2010

Ég vék í gær að nokkrum bókum, sem ég ætla að lesa um jólin. Ég er byrjaður á bók Guðna Th. Jóhannessonar um Gunnar Thoroddsen, og er hún mjög fróðleg, enda styðst Guðni við ýmsar sérlega forvitnilegar heimildir, sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings.

Ég lét þess ógetið í gær, að auðvitað ætla ég að lesa endurminningar eða málsvörn tveggja ráðherra, sem komnar eru út, þeirra Árna Mathiesens og Björgvins G. Sigurðssonar.

Árna þekki ég að góðu einu. Hann var varfærinn og samviskusamur í ráðherrastarfi sínu og fráleitt að kenna honum um það, sem miður fór í ríkisstjórninni. Ótrúlegt er einnig, að sá, sem skráði bókina eftir honum, Þórhallur Jósepsson, skyldi hafa verið rekinn fyrir það af fréttastofu Ríkisútvarpsins og það án nokkurra mótmæla fréttamanna þar eða Blaðamannafélagsins.

Björgvin þekki ég minna. Ég átti einn vinsamlegan fund með honum, á meðan hann var viðskiptaráðherra. Fróðlegt er, vegna þess að heimspekingar ganga nú ýmsir drjúgir um gólf og segja, að siðfræði hafi vantað í íslensk stjórnmál fyrir hrun, að Björgvin lauk háskólaprófi í heimspeki. Sé ég ekki, að það próf hafi auðveldað Björgvini að glíma við hina alþjóðlegu fjármálakreppu, sem hruninu olli. En bók hans ætla ég að lesa af opnum huga.

Ég ætla loks að minna á, að ég á sjálfur eina bók í jólabókaflóðinu: Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku. Þar safnaði ég á 992 bls. saman fleygustu orðum á íslensku úr sögu og samtíð. Verkið tók mig fimmtán ár, en ég ætlaði því að vera handbók fyrir þá, sem skrifa greinar eða halda ræður, fróðleiksnáma fyrir grúskara og opin gátt ungu fólki að menningararfi okkar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband