Matthías og Kalda stríðið

MatthíasHKLMatthías Johannessen sætti löngum árásum vinstri manna. Hann galt þess sem skáld og rithöfundur að vera ritstjóri Morgunblaðsins og stuðningsmaður vestræns samstarfs. Árið 1963 valdi hann bók sinni, Hugleiðingum og viðtölum, einkunnarorð úr frægu ljóði Stephans G. Stephanssonar, „Og lífsins kvöð og kjarni er það að líða/og kenna til í stormum sinna tíða.“ Þá hreytti Sverrir Kristjánsson út úr sér í Tímariti Máls og menningar: „Þegar allar þrettán bækur Matthíasar Johannessens, rímaðar, órímaðar og í prósa, verða horfnar aftur til uppruna síns og orðnar að leir, munu eikur Stepháns G. Stephánssonar standa enn djúpt í sinni gömlu mold, stoltar, fagrar og í fullu laufi.“ Dómur Sverris var með afbrigðum ósanngjarn. Margt af því, sem Matthías skildi eftir sig, á eftir að lifa lengi með þjóðinni. Hér skal ég aðeins nefna eitt. Það er drengilegur stuðningur Matthíasar við hina hugrökku andófsmenn í kommúnistaríkjunum sálugu. Morgunblaðið fylgdist vel með þeim og varði þá með oddi og egg.

Unga kynslóðin og jafnvel þeir, sem nú eru miðaldra, muna ekki þá tíð, þegar kommúnistar réðu hálfum heiminum og börðu þegna sína miskunnarlaust til hlýðni. Þeir áttu sér vitorðsmenn á Vesturlöndum, sem tóku áratugum saman við fjármunum og fyrirmælum frá Moskvu. Matthías barðist ódeigur gegn þeim í Kalda stríðinu. En eftir sigurinn í því stríði árin 1989–1991 mildaðist hann og ákvað, að ekkert uppgjör við íslenska kommúnista skyldi fara fram í Morgunblaðinu. Þetta orkar tvímælis. Átti þá ekki að gera upp við nasistana í Nürnberg? Og þá, sem leynt og ljóst gengu erinda nasista? „Kalda stríðið gerði engan okkar að betri mönnum,“ sagði Matthías við Halldór Guðmundsson, forstjóra Máls og menningar, en fyrir daga Halldórs þáði það fyrirtæki stórfé að austan og býr enn að því. Ég er ekki sammála Matthíasi. Kalda stríðið var óumflýjanlegt til að halda kommúnismanum í skefjum. Sem betur fer tóku Bandaríkjamenn að sér að verja Evrópu. Kalda stríðið var aðeins þeim til minnkunar, sem skipuðu sér í sveit með kúgurunum. Þegar Matthías leit um öxl, hefði hann frekar átt að hafa eftir orð hinnar helgu bókar: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 13. apríl 2024.)


Matthías, Bjarni og Laxness

Þegar líður að forsetakjöri, má rifja upp sögu, sem minn góði vinur Matthías Johannessen, sem nú er nýlátinn, sagði stundum. Árið 1967 var vitað, að Ásgeir Ásgeirsson forseti myndi ekki gefa kost á sér til kjörs árið 1968, en tengdasonur hans, Gunnar Thoroddsen sendiherra, hafði að sögn hug á embættinu. Um haustið var rætt um hugsanlega frambjóðendur aðra, og var nafn Halldórs Laxness iðulega nefnt. Hann var talinn fremsti fulltrúi íslenskrar menningar, og hefði hann farið fram, hefðu ráðamenn átt erfitt með að styðja hann ekki. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra bað Matthías því að kanna viðhorf Laxness. Matthías fór upp á Gljúfrastein og bryddaði upp á þessu við skáldið, sem varð undrandi (eða gerði sér upp undrun), en vísaði framboði kurteislega frá sér.

Síðar um haustið kom út greinasafn eftir Laxness, Íslendingaspjall, þar sem hann vandaði Guðmundi Í. Guðmundssyni utanríkisráðherra ekki kveðjur, en Guðmundur hafði verið sýslumaður í Gullbringu- og Kjósarsýslu: „Í þessu lögsagnarumdæmi mínu höfðum við sýslumann sem sjálfsagt hefur í upphafi verið ekki ógeðslegur maður, þó marklaus með öllu, en skapari hans hafði klúðrað á hann tréhendi svo alt sem hann kom nærri varð að axarskafti.“ Laxness nefndi ekki ástæðuna til fjandskapar síns: Hann hafði orðið uppvís að því að stinga undan skatti verulegum tekjum frá útlöndum árið 1946 og Guðmundur sýslumaður orðið að innheimta skattaskuldina. Eftir útkomu bókarinnar sagði Bjarni með breiðu brosi við Matthías: „Það var eins gott, Matthías minn, að Laxness vildi þetta ekki. Hugsaðu þér ástandið, ef forsetinn hefði skrifað aðrar eins skammir um utanríkisráðherrann.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 6. apríl 2024.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband