Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Þegar ég sat málsverði með bandarískum sendimönnum

Einkennilegt er að lesa skýrslur bandarískra sendimanna um viðræður þeirra við Íslendinga og mat á stjórnmálaviðhorfinu innan lands. Raunar er ótrúlegt, að mesta stórveldi heims skuli ekki hafa verið treystandi til að gæta slíkra skjala, en það er annað mál.

Ég kom stundum í boð í bandaríska sendiherrabústaðnum við Laufásveg og snæddi þar eitt sinn hádegisverð með Carol van Voorst sendiherra. Hún spurði margs um íslensk stjórnmál, og reyndi ég að svara eftir bestu getu. Bandarískt hvítvín var reitt fram með matnum, en ég gat því miður ekki drukkið nema eitt glas, því að ég þurfti að sinna brýnum erindum síðdegis.

Fróðlegt væri að lesa skýrslu um samtalið, ef skrifuð hefur verið, en ég er viss um, að ég hef ekki sagt annað en það, sem koma má á prent og ég hef raunar sett oftar en einu sinni á prent: Ég er sannfærður um, að varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna hafi orðið báðum löndum til góðs. Óheppilegt var, hvernig Bandaríkin slitu því samstarfi árið 2006. Íslendingar ættu þrátt fyrir það að reyna að hefja þetta samstarf á ný, en loka sig ekki inni í Evrópu, þótt vitanlega séum við Evrópuþjóð og Evrópusinnar í þeim skilningi, að við fögnum friði í Evrópu og frjálsum viðskiptum milli Evrópuþjóða. (Það er hins vegar sönnu næst, að það voru Bandaríkin, en ekki Evrópusambandið, sem tryggðu friðinn í Evrópu frá 1945, og Evrópuþjóðirnar gátu stundað frjáls viðskipti fyrir 1914, verslað saman á frjálsum Evrópumarkaði, án þess að nokkurt Evrópusamband væri til.)

Ég snæddi líka að minnsta kosti tvisvar kvöldverð með Neil Klopfenstein, stjórnmálafulltrúa sendiráðsins, í húsi hans við Einimel. Hann var eins og van Voorst vel menntaður og vingjarnlegur maður. Hafi hann skrifað skýrslur um þessa fundi, þá væri líka fróðlegt að lesa þær. Stundum læddist þó að mér sá grunur, að þetta sendiráðsfólk hitti oftast ekki venjulega Íslendinga, heldur aðeins einstaklinga úr hinum talandi stéttum, kaffihúsaspekinga og farandfræðimenn, sem hafa stutta viðdvöl á hverjum stað eftir því, hvaða styrkir eru í boði. Margir þessara manna láta fleðulega við bandaríska sendimenn, en eru ekki vinir Bandaríkjamanna, þegar á reynir.

Þar er munurinn á Davíð Oddssyni og Ólafi Ragnari Grímssyni skýr. Davíð er vinur Bandaríkjamanna, þótt hann hafi ætíð komið fram við þá af hreinskilni og einurð og gætt hagsmuna Íslands. Ólafur Ragnar er eins og margir aðrir vinstrisinnaðir menntamenn í raun og veru andvígur Bandaríkjunum. Hið sanna innræti hans kom í ljós, þegar hann móðgaði vísvitandi Carol van Voorst sendiherra með því að tilkynna henni, að hún fengi fálkaorðuna, er hún var á förum héðan, en lét hringja í hana í bílnum á leið til Bessastaða og segja henni, að ekkert yrði af orðuveitingunni. Hafa aldrei fengist skýringar á þessari ruddalegu og ótrúlegu framkomu, en ég hef fyrir satt, að Ólafur Ragnar hafi ætlað að hefna sín fyrir það, að van Voorst gat ekki eða vildi ekki tryggja, að hann gæti tekið þátt í innsetningarathöfn Obama forseta í janúar 2009.


Hjá Rósu í afmælismat

27527_123651407672937_3695_n.jpgÉg skrapp heim til einnar vinkonu minnar, Rósu Guðbjartsdóttur, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði, í sjávarréttasúpu að kvöldi mánudagsins 29. nóvember. Þessi gamli nemandi minn í stjórnmálafræði átti afmæli þetta kvöld, og eins og við var að búast, var súpan hennar mjög ljúffeng. Rósa hefur einmitt gefið út matreiðslubókina Eldað af lífi og sál, sem ég leyfi mér að mæla með, og fæst hún í öllum góðum bókabúðum og víðar.

Það var skemmtileg tilviljun, að fyrr um daginn hafði ég sótt starfsmannaviðtal við forseta stjórnmálafræðideildar, en mælt er fyrir um slík viðtöl árlega í nýjum reglum Háskóla Íslands. Mér var ljúft og skylt að segja deildarforsetanum, að ég væri ánægður á mínum vinnustað og hefði ekki undan neinu að kvarta í samskiptum við deildarmenn, nemendur jafnt og kennara, og því síður um tilhögun kennslu minnar og annarra starfa.

Ég ætla næstu tvö árin að endurskoða og endurbæta kennslubækur þær, sem ég nota í stjórnmálaheimspeki, og reyna að tengja efnið meira við Netið en nú er gert. Til dæmis flytja margir skemmtilegir bútar á Youtube efni náskyld viðfangsefnum stjórnmálaheimspekinnar, sem ef til vill má setja inn á glærur þær, sem ég nota til að draga fram aðalatriðin í kennslubókunum. Þó má aldrei gleyma því, að stjórnmálaheimspeki er samræða um sígild viðfangsefni mannsandans, margradda, en öguð. Hún er ekki kórsöngur og lýtur föstum reglum. Hún er leið skynseminnar, ekki ofbeldisins.

Á ýmsu gekk hins vegar á árum áður, og var Rósa Guðbjartsdóttir eini nemandinn í stjórnmálafræði sumarið 1988, sem neitaði að skrifa undir áskorun til þáverandi menntamálaráðherraum um að skipa mig ekki lektor í stjórnmálafræði (sem ráðherrann síðan gerði). Þegar ég horfi um öxl og blaða í gömlum skjölum, eins og ég neyðist stundum til að gera, segi ég eins og Steinn Steinarr, þegar hann sá gömlu hjónin leiðast yfir Austurstræti: „Hvaða læti eru þetta eiginlega?“

En allt er þetta liðin tíð. Sjálfur hef ég þann sið að minnast aðeins góðu stundanna, og þær hafa verið ófáar á mínum vinnustað.

Raunar átti ég líka mjög góða stund á heimili Rósu fyrir röskri viku, þegar hún og eiginmaður hennar, Jónas Sigurgeirsson bókaútgefandi, buðu öllum höfundum sínum í útgáfuteiti. Var þar skemmtilegt að hitta Tobbu Marínós og Kolbrúnu Bergþórsdóttur, Jakob Bjarnar Grétarsson og Þórarin Þórarinsson, Sigríði Klingenberg og Ellý Ármanns, tvær dætur Þórarins Guðmundssonar (höfundar Spilabókarinnar) og Belindu Theriault, en því miður komst Egill Gillzenegger ekki í teitið. Miða bækur flestra þessara höfunda að því að koma fólki í gott skap, og veitir ekki af á Íslandi.


Aðventan hjá Gísla Marteini

Gísli Marteinn Baldursson borgarfulltrúi hefur venjulega opið hús heima hjá sér fyrir vini sína fyrsta dag aðventunnar, og bað hann okkur Einar Kárason rithöfund um að lesa upp úr verkum okkar að þessu sinni, síðdegis sunnudaginn 28. nóvember. Bók mín, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, kom út hjá Bókafélaginu snemma í nóvember.

Var þetta hinn ánægjulegasti viðburður. Ég sagði aðallega frá þremur höfundum tilvitnana í bók minni, þeim Árna Pálssyni prófessor, Ólafi Thors forsætisráðherra og Tómasi Guðmundssyni skáldi. Þeir voru allir orðheppnir, en fyndni þeirra fylgdi líka jafnan alvarlegur boðskapur, jafnframt því sem hann var græskulaus.

Einar las upp úr tveimur verkum sínum, eins konar skáldskaparævisögu, þar sem hann segir skemmtilegar sögur af sjálfum sér í volki veraldar, og úr bók, sem hann gefur út með öðrum, þar sem hann semur texta við ljósmyndir í sama stíl og Þórarinn Eldjárn gerði í lítilli bók fyrir nokkrum árum: Ég man …

Ein dóttir Gísla Marteins skemmti ásamt vinkonu sinni með fiðluleik, og fórst þeim það vel úr hendi. Þá tóku tveir vinir Gísla Marteins, þeir Ólafur Teitur Guðnason og Rúnar Freyr Gíslason, lagið, og sungu þeir jólalög, sem sýndu, að þeir hafa geymt mjög vel jólabarnið í sjálfum sér, og get ég ekki sagt hið sama um sjálfan mig. En gestgjafinn var glaður og reifur að venju.

ÍNN-þáttur sá, sem ég hélt, að yrði á dagskrá þennan sama dag, sunnudagskvöldið 28. nóvember, verður hins vegar eftir viku. Þar röbbum við Sigurður G. Tómasson saman um bók mína.


Kápa bókar minnar

kjarni_malsins_jpg_1044932.jpgFréttatíminn fékk nokkra hönnuði til að velja bestu og verstu bókarkápur ársins, og var kápa bókar þeirrar, sem ég tók saman og Bókafélagið gefur út fyrir þessi jól, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, valin ein af tíu bestu kápunum. Björn Jónsson hannaði kápuna, en á framhlið kápunnar er mynd Þrándar Þórarinssonar listmálara, „Útifundur á Austurvelli“ og á hægri flipa ljósmynd Baldurs Kristjáns ljósmyndara af mér í fornbókabúð Braga Kristjónssonar á Klapparstíg.

Málverk Þrándar Þórarinssonar hefur marga skemmtilega drætti. Þetta er útifundur á sama stað og sumir útifundirnir eftir hrun. En fundargestir eru klæddir í föt frá nítjándu öld og bera yfirbragð þeirrar tíðar. Styttan af Jóni Sigurðssyni snýr einnig að fundargestunum. Listamaðurinn leyfir Alþingishúsinu, Dómkirkjunni, Hótel Borg og Nathan & Olsen-húsinu öllum að vera á sínum stað, en teiknar nýtt hús í stað gler- og stálvirkis Almennra trygginga, sem honum finnst greinilega ekki prýða götumyndina.

Yfir þessari mynd er einhver tímalaus og þjóðlegur blær, eins og ætlunin er, að sé yfir bókinni. Hún er í senn nútíminn og fortíðin, skírskotar til sögu og samtíðar. Bókin á einmitt að geyma það, sem sagt hefur verið sögulegast, fleygast, viturlegast og snjallast á Íslandi. Hún á líka að vera handbók fyrir þá, sem þurfa að taka til máls á fundum eins og sýndir eru í verki Þrándar eða skrifa um þá.


Lagaritun á þjóðveldisöld

Okkur á höfuðborgarsvæðinu standa til boða forvitnilegir fyrirlestrar á hverjum degi. Í fyrradag, þriðjudaginn 24. nóvember, ætlaði ég að hlýða á fyrirlestra Sigurðar Líndals og dr. Hans Hennings Hoffs um kristin og rómversk áhrif á lögbók þjóðveldisins, Grágás, í hádeginu og rökræður tveggja raunvísindamanna, Ólafs Flóvenz og Stefáns Arnórssonar um það, hvort jarðvarmi væri frekar náma eða lind, um kvöldið.

'Ég komst aðeins á fyrri fyrirlesturinn sökum tímaskorts og verð að útvega mér erindi þeirra Ólafs og Stefáns síðar. En fyrirlestrar þeirra Sigurðar og Hoffs voru afar fróðlegir. Sigurður ræddi um þann merkismann, prófessor Konrad Maurer í München, sem skrifaði margt um þjóðveldið og veitti Jóni Sigurðssyni drengilegan stuðning í sjálfstæðisbaráttunni.

Hoff setti fram skemmtilega tilgátu um það, að Hafliði Másson á Breiðabólsstað í Vesturhópi, sem hýsti ritun þjóðveldislaganna á öðrum áratug 12. aldar, hefði átt meira undir sér og lifað ævintýralegra lífi en haldið hefði verið. Verið gæti, að Hafliði hefði ungur maður verið foringi Væringja í Miklagarði (en á þeirri tíð er kunnugt um norrænan mann, sem stjórnaði lífvarðasveit keisarans, og ekki hefur tekist að finna) og haft þaðan með sér auð heim og einnig austrómverskan hugsunarhátt.

Rakti Hoff ýmis dæmi um áhrif úr austrómverskum lögum á lög Þjóðveldisins.

Í bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, valdi ég nokkur dæmi úr Lögbók Jústiníanusar keisara, sem er helsta heimildin um austrómverskan rétt, og hef mætur á þeim öllum. Er þar mikil og hnitmiðuð speki saman komin í nokkrum knöppum setningum.

Líklega er ekki til skýrari lýsing á réttlætishugtakinu en í bók Jústiníanusar:

Juris præcepta sunt hæc: honeste vivere, alterum non lædere, suum cuique tribuere.
Lögmálið er þetta: að lifa flekklausu lífi, gera öðrum ekki mein og gjalda hverjum sitt.

Einnig má minna á orð Paulusar í bókinni: Optima est legum interpres consuetudo. Siðvenjan er besti lögskýrandinn.


Seint séð, Þuríður

Ég tók eftir því fyrir nokkru, að þáverandi leiðarahöfundur Fréttablaðsins, Páll Baldvin Baldvinsson, notaði orðtakið „Seint séð, Þuríður“. Sennilega kannast fæstir við þetta orðtak nú á öndverðri tuttugustu og fyrstu öld. Þuríður var prestsfrú í Stykkishólmi á nítjándu öld, Þuríður Kúld, sem Matthías Jochumsson orti um frægt kvæði. Þar eru þessi vísuorð:

 

Hverju líkist lífið manna?

leiftri, draumi, sjónhverfing,

það er blik á brjósti hranna,

botnlaust djúp er allt í kring.

 

Þuríður var dóttir Sveinbjarnar Egilssonar rektors og var uppi 1823–1899. Hún þótti einkennileg í orðum og háttum. Maður hennar var séra Eiríkur Kúld, sem sat um skeið á Alþingi, en hann var uppi 1822–1893. Hann var kunnur að ljúfmennsku, jafnaðargeði og æðruleysi. Gekk á ýmsu í hjónabandi þeirrar Þuríðar.

Þuríður á eitt sinn að hafa sagt, að nú tæki hún eftir því, að séra Eiríkur væri ekki aðeins dökkur í andliti, heldur líka um allan líkamann, og gæti hún ekki við það unað. Þá sagði séra Eiríkur með mestu ró: „Það er seint séð, Þuríður mín.“

Ólafur Grímur Björnsson, læknir og fræðimaður, sem ég hef sótt margan fróðleik til, hefur bent mér á, að Sighvatur Grímsson Borgfirðingur víkur að Þuríði Kúld og sérkennilegum uppátækjum hennar í Prestaæfum, sem varðveitt eru í Þjóðarbókhlöðu. Skrifar Sighvatur, að Þuríður hafi verið „ofláti mikill, allt fram á elliár, tilgerðarsöm og glysgjörn úr hófi fram og skapvargur hinn mesti“. Ekki eru þessi fleygu ummæli séra Eiríks þó þar á bók.


Gunnar Thoroddsen um smáþjóðirnar

Ég er að lesa hina miklu ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Hefur Guðni haft aðgang að frábærum heimildum, ekki aðeins dagbók Gunnars, heldur einnig drögum að sjálfsævisögu og margvíslegum öðrum gögnum, og unnið vel og samviskusamlega úr þeim, að því er ég fæ best séð.

Ég hnaut um það, að Guðni kveður (160. bls.) Jón Þorláksson hafa látið af embætti borgarstjóra 1935. Jón lést, á meðan hann gegndi embættinu, en lét ekki af því. Þetta er óeðlilegt orðalag, þótt smáatriði sé.

Á öðrum stað (144. bls.) vitnar Guðni í fræg orð gríska sagnritarans Þúkídídesar um smáþjóðir, er hann segir frá hugleiðingum Gunnars um utanríkismál fyrir seinna stríð (en hann vildi, að Ísland væri á sameiginlegu áhrifasvæði Stóra-Bretlands og Hitlers-Þýskalands).

Guðni segir:

„Sá sterkari hlýtur að ráð en sá veikari að lúta,“ hafði gríski sagnaritarinn Þúkýdídes skrifað í sögu Pelopseyjarstyrjaldar í Grikklandi til forna.

Í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, er talsvert rætt um orð Þúkídídesar (eins og eðlilegast er að stafsetja nafn sagnritarans á íslensku). Hann mælti þau ekki sjálfur, heldur lagði þau í munn Aþeningum, þegar þeir kröfðust þess 416 f. Kr., að grannar þeirra, Meleyingar (íbúar Melos-eyjar), lytu þeim sökum yfirburða þeirra.

Í íslenskri þýðingu Friðriks Þórðarsonar, sem sneri orðum Þúkídídesar úr frummálinu og birti í Tímariti Máls og menningar 1964 (350. bls.), hljóða þau svo: „Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við.“

Algengast er á íslensku að kalla bók Þúkídídesar Sögu Pelopsskagastríðanna, þótt vissulega merki „Pelopannesos“ eyja Pelopsar. Eru ummælin í 5. bók, 17. kafla. Raunar má ætla, að sjálfur hafi Þúkídídes verið andvígur þeim boðskap, sem í þeim felst um réttmæt yfirráð stórþjóða yfir smáþjóðum í krafti yfirburða. Hann var að minnsta kosti gagnrýninn á framferði Aþeninga í stríðinu.

Hvað sem því líður, hlakka ég til að lesa síðari hluta bókar Guðna Th. Jóhannessonar, því að þá birtist sá Gunnar Thoroddsen, sem ég þekkti, en ég var sjálfboðaliði fyrir hann í forsetakjörinu 1968, þá fimmtán ára að aldri, og átti síðan oft eftir að hitta þennan mikilhæfa stjórnmálamann og spjalla við hann.


Fleiri bækur 2010

Ég vék í gær að nokkrum bókum, sem ég ætla að lesa um jólin. Ég er byrjaður á bók Guðna Th. Jóhannessonar um Gunnar Thoroddsen, og er hún mjög fróðleg, enda styðst Guðni við ýmsar sérlega forvitnilegar heimildir, sem ekki hafa áður komið fyrir sjónir almennings.

Ég lét þess ógetið í gær, að auðvitað ætla ég að lesa endurminningar eða málsvörn tveggja ráðherra, sem komnar eru út, þeirra Árna Mathiesens og Björgvins G. Sigurðssonar.

Árna þekki ég að góðu einu. Hann var varfærinn og samviskusamur í ráðherrastarfi sínu og fráleitt að kenna honum um það, sem miður fór í ríkisstjórninni. Ótrúlegt er einnig, að sá, sem skráði bókina eftir honum, Þórhallur Jósepsson, skyldi hafa verið rekinn fyrir það af fréttastofu Ríkisútvarpsins og það án nokkurra mótmæla fréttamanna þar eða Blaðamannafélagsins.

Björgvin þekki ég minna. Ég átti einn vinsamlegan fund með honum, á meðan hann var viðskiptaráðherra. Fróðlegt er, vegna þess að heimspekingar ganga nú ýmsir drjúgir um gólf og segja, að siðfræði hafi vantað í íslensk stjórnmál fyrir hrun, að Björgvin lauk háskólaprófi í heimspeki. Sé ég ekki, að það próf hafi auðveldað Björgvini að glíma við hina alþjóðlegu fjármálakreppu, sem hruninu olli. En bók hans ætla ég að lesa af opnum huga.

Ég ætla loks að minna á, að ég á sjálfur eina bók í jólabókaflóðinu: Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku. Þar safnaði ég á 992 bls. saman fleygustu orðum á íslensku úr sögu og samtíð. Verkið tók mig fimmtán ár, en ég ætlaði því að vera handbók fyrir þá, sem skrifa greinar eða halda ræður, fróðleiksnáma fyrir grúskara og opin gátt ungu fólki að menningararfi okkar.


Jólabækur 2010

kjarni_malsins_jpg_1043025.jpgÉg var að fá Bókatíðindi 2010 inn um dyrnar. Kennir þar margra grasa. Sjálfur gef ég auðvitað út bók fyrir jólin, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og er hún sennilega ein stærsta bókin í ár, 992 bls. í stóru broti. Reyndi ég eins og ég gat að veita lesandanum þar þjónustu, taka saman fyrir fólk fleygar setningar, sem eiga það skilið að lifa, en má líka nota í ræðum og greinum. En auðvitað er það ekki allt snilld eða speki, sem þar getur að líta. Sumt er valið, af því að það er sögulegt, oft í það vitnað.

Ég hef lesið tvær jólabókanna, Snjóblindu eftir Ragnar Jónasson og Jónínu Ben eftir Sölva Tryggvason. Snjóblinda er hugvitsamlega samin glæpasaga með flestum kostum og göllum þeirrar bókmenntagreinar. Ragnar er að verða einn af bestu glæpasagnahöfundum okkar. Afstaða mín til bókar Jónínu er blendnari. Hún er prýðilega skrifuð, en mér finnst Jónína ónærgætin við margt fólk. Hún birtir umsvifalaust ummæli þess og jafnvel tölvuskeyti frá því, sem áreiðanlega voru send í trúnaði. Hitt er annað mál, að ekki er unnt annað en dást að þrautseigju hennar og baráttugleði, og ekki vildi ég vera óvinur hennar. Minnir Jónína mig á suma kvenskörunga sögualdar, eins og sagt er frá þeim í Íslendinga sögum.

Ég ætla að reyna að finna mér tíma til að lesa á næstunni nokkrar bækur:

Útlaginn eftir Sigurjón Magnússon virðist vera forvitnileg skáldsaga. Hún er bersýnilega um Þorsteinsmálið í Austur-Þýskalandi, sem ég þekki vel af rannsóknum mínum á sögu íslenskra kommúnista.

Ég sé ekkert svona gleraugnalaus eftir Óskar Magnússon er smásagnasafn. Það fær góða dóma frá því fólki, sem ég tek mark á um bókmenntir, og hlakka ég til að lesa það.

Gunnar Thoroddsen. Ævisaga eftir dr. Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing er um mjög gáfaðan og mikilhæfan stjórnmálamann, sem hafði charisma, náðarvald, aðdráttarafl. Mér finnst enginn sérstakur galli á honum, að hann skuli hafa verið sjálfhverfur, eins og blasir við af köflum úr bókinni, sem birst hafa á prenti. Hann var ekki heldur sekur um neinn glæp, þótt hann greiddi í Reykjavík  fyrir kjósendum sínum utan af landi og gerði þeim jafnvel greiða líka á heimaslóðum þeirra. Fyrirgreiðsla þarf ekki að vera spilling; hún getur verið aðstoð.

Sovét Ísland. Óskalandið eftir dr. Þór Whitehead prófessor verður áreiðanlega ein besta bókin, sem kemur út um þessi jól. Allir lesendur Þórs vita, hversu mikla vinnu hann leggur í söfnun heimilda og úrvinnslu þeirra. Honum tekst líka öðrum sagnfræðingum betur að skrifa læsilegan og aðgengilegan stíl. Veit ég, að Þór hefur aðgang að ýmsum heimildum, sem aðrir hafa ekki notað. Hef ég fyrir satt, að með þessari bók fylgi Þór eftir ritgerð sinni í Þjóðmálum fyrir nokkrum árum, en hún vakti mikla athygli.

Fegurstu ljóð Jónasar, sem Kolbrún Bergþórsdóttir valdi, er falleg, lítil bók, sem gaman er að eiga og enn skemmtilegra að gefa. Er Jónas ekki okkar mesta þjóðskáld? Okkar íslenskasta skáld?

Eflaust  mun ég lesa fleiri bækur, en ég læt þennan lista nægja í bili.

 


Dagur íslenskrar tungu

Dagur íslenskrar tungu var í gær, 16. nóvember 2010. Ég bý enn að því, hversu góða íslenskukennslu ég fékk í Menntaskólanum í Reykjavík. Þar kenndi Jón S. Guðmundsson mér í þrjá vetur og Helga Kress í einn vetur. Þau voru bæði góðir kennarar. Enn man ég, þegar Helga brýndi fyrir okkur nemendum í fjórða bekk að flakka ekki á milli nútíðar og þátíðar í einni og sömu setningu. Jón útrýmdi villum, ambögum og ensku- og dönskuslettum af miklum dugnaði úr ritgerðum okkar. Hann reyndi að kenna okkur að skrifa einfalt, gott, íslenskt mál. Mótaði hann málsmekk þúsunda nemenda sinna til góðs.

Jón S. Guðmundsson var einn af lærisveinum Sigurðar Nordals, sem var í senn snillingur á íslenska tungu, virtur fræðimaður og vitur hugsuður. Eitt sinn í íslenskutíma í sjötta bekk spurði ég Jón, hverju hin mikla gagnrýni nokkurra íslenskumanna á hendur Sigurði sætti. Hann svaraði með vísu Steingríms Thorsteinssonar:

Eggjaði skýin öfund svört,

upp rann morgunstjarna:

„Byrgið hana, hún er of björt,

helvítið að tarna.“

Ég var svo heppinn, að Jón las yfir fyrir mig í handriti margar bækur mínar og færði þar margt til betri vegar. Ein bókin, sem hann las yfir, er sú, sem nú er komin út eftir fimmtán ára undirbúning, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku. Þar reyni ég að varðveita margt, sem vel hefur verið mælt á íslensku.

Ég hef hins vegar áhyggjur af framtíð íslenskrar tungu. Það kapp, sem áður var lagt á að skrifa hreint og gott mál, virðist vera horfið. Tökum tvö dæmi úr fjölmiðlum síðustu vikur. Talað er um malaríu. Heitir hún ekki mýrakalda á íslensku? Og upphæðir eru tilgreindar í dollurum. Af hverju ekki í Bandaríkjadölum?

Fundir í minni deild, stjórnmálafræðideild Félagsvísindasviðs, eru jafnan haldnir á ensku. Ég hef ekki gert athugasemdir við það, því að ég er öðrum þræði þeirrar skoðunar, að Háskólinn eigi að vera alþjóðlegur. En um leið verður hann að vera þjóðlegur. Við höfum ekki ræktað þar þjóðleg gildi nógu vel hin síðari ár.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband