Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
16.11.2010 | 08:59
Dýrleif á Parti
Um miðja tuttugustu öld urðu fleyg ummæli Baldvins skálda: Dýrleif í Parti sagði mér; ég hafði áður sagt henni. Baldvin skáldi var þingeyskur hagyrðingur og bóndi, sem uppi var 18601944, en síðast bjó hann á Auðbrekku á Húsavík. Tildrög ummælanna voru, að Baldvin skáldi safnaði þjóðsögum fyrir Odd Björnsson á Akureyri. Oddur hafði hann grunaðan um að yrkja frá rótum sumar þjóðsögur sínar. Ummælin sýna, að sá grunur var á rökum reistur.
En hver var Dýrleif í Parti? Það tók mig talsverðan tíma að leita hana uppi, eftir að ég hafði rekist á þessi skemmtilegu ummæli. Væntanlega var hún Dýrleif nokkur Jónsdóttir, sem bjó í Parti í Reykjadal og uppi var 18391872. Þótt hún félli frá ung, eignaðist hún tvö börn, og fluttist dóttir hennar vestur um haf.
Almælt var í Þingeyjarsýslu, að eldri systir Dýrleifar og alnafna, Dýrleif Jónsdóttir, sem fæddist 1835 og lést aðeins þriggja ára að aldri, væri laundóttir dansks konungssonar, Friðriks af Aldinborgarætt, sem konungur varð í Danmörku, hinn sjöundi með því nafni, og lést 1863. Hafði Friðrik verið baldinn í æsku og sendur upp til Íslands, svo að eitthvað sljákkaði í honum. Hefur hin eldri Dýrleif væntanlega verið getin haustið 1834, ef sagan er sönn.
En ummæli Baldvins skálda eiga enn við: Oft vitna menn í það, sem þeir hafa þegar komið sjálfir af stað. Er nærtækast að lesa ýmsar skýrslur alþjóðastofnana eins og OECD og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en efnið í þær kemur oftast beina leið frá Íslandi. Dýrleif í Parti sagði mér; ég hafði áður sagt henni.15.11.2010 | 07:50
Fróðleiksmolar í Morgunblaðinu
Í fimmtán ára rannsóknum mínum vegna bókarinnar Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku gróf ég upp margvíslegan fróðleik um ýmis efni og tók eftir skemmtilegum nýjum hliðum á gömlum málum. Nú hefur það orðið að samkomulagi, að ég birti fróðleiksmola úr þessu í Morgunblaðinu tvisvar í viku, og kom hinn fyrsti þar á prent laugardaginn 13. nóvember 2010. Heitir hann Dýrleif á Parti.
Á Íslandi er mikill áhugi á þjóðlegum fróðleik, einkum hjá þeim, sem rosknari eru, og raunar hafa lesendur Morgunblaðsins strax haft samband við mig símleiðis með meiri upplýsingar um einstaka menn, sem ber á góma í þessum fyrsta fróðleiksmola.
Einnig er sama dag, 13. nóvember, viðtal við mig um bókina í Fréttablaðinu, sem Bergsteinn Sigurðsson skráði. Þar benti ég á, að margt er auðvitað afar fyndið og smellið í bókinni, en annað viturlegt, vel sagt eða sögulegt. Ég sagði hið sama og í morgunútvarpi Rásar tvö daginn áður, að í þessari verki tók ég af mér hjálm vígamannsins, sem allir þekkja, og setti á mig húfu fræðimannsins, sem situr og grúskar, grefur og safnar. Mælikvarði minn á efni, sem ætti heima í bókinni, var ekki, hvort boðskapurinn væri mér að skapi, heldur hvort það væri vel sagt eða sögulegt.
Um þetta má raunar hafa eina tilvitnun úr bókinni, í Erlend í Unuhúsi: Ég er sósíalisti, en samt kýs ég fremur að lesa vel skrifaðar bækur á móti sósíalisma en illa skrifaðar bækur, sem styðja sósíalisma.
Ég sagði einnig, að ég hefði leitast við að hafa eins mikið efni eftir konur í bókinni og unnt væri. Mér finnast konur raunar oft yrkja átakanlegar um sorg en karlar. Vitaskuld er til sérstök kvenleg reynsla, sem er þáttur í mannlegri reynslu, en karlar geta lítt gert skil (þótt sumum hafi tekist það betur en öðrum).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:53 | Slóð | Facebook
13.11.2010 | 13:22
Viðtal í Morgunútvarpi Rásar tvö
Ég spjallaði í gærmorgun, 12. nóvember, við þá Frey Eyjólfsson og Guðmund Pálsson á Morgunútvarpi Rásar tvö um nýútkomna bók mína, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, sem hefur að geyma hátt í tíu þúsund tilvitnanir á 992 bls. Ég sagði þeim Frey og Guðmundi, að í þessu verki brygði ég mér úr gervi vígamannsins, sem margir þekkja mig í, og í hlutverk þjóðlegs fræðimanns.
Með þessari bók reyndi ég að smíða brú milli kynslóðanna, forða frá gleymsku ýmsu, sem sagt hefur verið viturlegt, snjallt eða sögulegt á Íslandi og annars staðar í aldanna rás. Ég lagði mikið á mig til þess, að þetta yrði gagnleg handbók öllum þeim, sem þurfa að semja greinar eða ræður eða finna af öðrum ástæðum tilvitnanir um ákveðin efni. Jafnframt vildi ég, að bókin yrði fróðleiksnáma þeim, sem gaman hafa af grúski, og opin gátt til frekari lesturs.
Ég hef unnið að þessu verki í fimmtán ár, frá því að ég gaf út Íslenskar tilvitnanir 1995, en þessi bók er þó í rauninni ný, þrefalt lengri og með miklu rækilegri skýringum. Margir aðrir hafa lagt hönd á plóginn, til dæmis sagnaþulir eins og Pétur Pétursson, Magnús Óskarsson, Eiríkur Jónsson og Kristján Albertsson, og árvökulir og fróðir yfirlesarar eins og Aðalgeir Kristjánsson, Eiríkur Hreinn Finnbogason, Jóhannes Halldórsson og Jón S. Guðmundsson.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:25 | Slóð | Facebook
12.11.2010 | 09:34
Merkileg ummæli breska varnarmálaráðherrans
Í viðtali við norska blaðið Aftenposten í dag, 11. nóvember, segir Liam Fox, varnarmálaráðherra Breta: Framkoma fyrrverandi ríkisstjórnar Bretlands í garð Íslendinga í efnahagskreppunni var alls ekki mjög fáguð. Við munum hér eftir leggja mikla áherslu á samstarfið með samstarfsaðilum okkar í Norður-Evrópu.
Hér er vægilega til orða tekið. Ótrúlegt er, að Bretar skyldu beita hryðjuverkalögum sínum gegn Landsbankanum (og raunar skamma stund einnig gegn Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu íslenska). Þeir áttu tvímælalaust sinn þátt í íslenska bankahruninu.
Einnig er ótrúlegt, að Bretar skyldu ekki veita bankanum í eigu Kaupþings, Singer & Friedlander, neyðaraðstoð í hruninu einum breskra banka.
Einhverjir svara því eflaust til, að eigendur og stjórnendur íslensku bankanna hafi ekki notið trausts. Þeir, sem svo mæla, ættu að líta á eigendur og stjórnendur annarra banka, sem hvorki voru settir á lista um hryðjuverkasamtök eins og Landsbankinn né lagðir að velli með beinum aðgerðum eins og banki Kaupþings. Þeir voru svo sannarlega engir englar allir.
Af einhverjum ástæðum hættir Íslendingum til að gleyma því, hversu mikinn þátt Bretar áttu í bankahruninu með hinni ruddalegu og óþörfu framkomu sinni. Áhrifamiklir menn á Íslandi hafa hag af því að einblína á innlendar orsakir hrunsins.
11.11.2010 | 17:31
Erindi Ragnars Árnasonar
Dr. Ragnar Árnason prófessor er okkar eini sérfræðingur í fiskihagfræði, sem nýtur alþjóðlegrar viðurkenningar (ásamt Rögnvaldi Hannessyni í Björgvin). Fróðlegt er að heyra, hvað hann sagði á nýliðnum aðalfundi Landssambands íslenskra útvegsmanna, og styðst ég þar við endursögn Fiskifrétta og Andríkis.is:
Ragnar sagði í erindi sínu að sjávarútvegur væri mikilvægasti atvinnuvegur landsins og undirstaða annars atvinnulífs. Beint framlag hans til vergrar þjóðarframleiðslu væri 8-9% en þær tölur segðu aðeins hluta sögunnar. Þjóðhagsreikningar mældu aðeins laun og hagnað en ekki hvernig framlagið margfaldast í gegnum þjónustugeirann. Hagmælingar benda til þess að sjávarútvegurinn standi undir 16-25% af því sem við höfum að bíta og brenna á Íslandi. Því er gríðarlega mikilvægt að reka sjávarútveg á eins hagkvæman hátt og frekast er unnt.
Sumir halda að aflamarkskerfið sé séríslenskt, og þá auðvitað spilling eins og sumir ímynda sér að flest sé á Íslandi. Svo er alls ekki. Aflamarkskerfi er algengasta fiskveiðistjórnarkerfi í heiminum og fjölgar stöðugt þeim ríkjum sem taka það upp. Meðal þeirra fjölmörgu ríkja sem nú nota aflamarkskerfi eru Ástralía, Bandaríkin, Bretland, Danmörk, Frakkland, Holland, Kanada, Noregur, Spánn, Svíþjóð og Þýskaland.
Eitt af því sem margir hafa á heilanum er úthlutun kvótaréttinda. Um hana sagði Ragnar í erindi sínu: Kvótaréttindum er nánast alltaf úthlutað til þeirra sem í greininni eru, sennilega í 99% tilfella. Í örfáum undantekningartilvikum, t.d. í stöku ríkjum í Afríku, er um stjórnvaldsákvarðanir að ræða. Þá eru uppboð á kvótum afar sjaldgæf. Ég hef aðeins fundið fjögur dæmi um slíkt í heiminum. Í tveimur tilvikum, í Eistlandi og Rússlandi, var kvótauppboðum hætt aftur eftir tvö ár, en [í] hinum tveimur eru uppboð ennþá tíðkuð. Annars vegar um að ræða skelfiskveiðar í Washingtonríki í Bandaríkjunum og hins vegar litlar fiskveiðar í Suður-Chile.
Þá sagði Ragnar að sérstök skattlagning á fiskveiðar í aflakvótakerfum væri afar sjaldgæf, hefði hann aðeins um það tvær undantekningar og væru það lönd með mjög takmarkaða skattstofna. Sérstök skattlagning á sjávarútveginn væri efnahagslega skaðleg, brenglaði rekstrarskilyrði, drægi úr framförum í sjávarútveginum, drægi úr alþjóðlegri samkeppnishæfni sjávarútvegsins og færði framtak og fjármuni milli atvinnuvega. Jafnframt myndi hún ef til vill draga úr skatttekjum þegar fram í sækti.
Lokaorð Ragnars mættu verða öllum til umhugsunar:
Til þess að kvótakerfi skili mestum árangri verða réttindin að vera örugg, þannig að handhafar þeirra geti treyst því að þau verði ekki tekin bótalaust af þeim. Þau þurfa að vera varanleg að minnsta kosti til mjög langs tíma og framseljanleg til að hagkvæmustu fyrirtækin stundi veiðarnar. Öruggar varanlegar aflaheimildir skapa langtímahugsunarhátt. Hvata til þess að byggja upp fiskistofna, hvata til hagkvæmrar nýtingar og verndunar lífríkisins, til skynsamlegra fjárfestinga í skipum, til að fjárfesta í og byggja upp markaði og til hagkvæmra rannsókna og þróunar. Allt sem rýrir kvótaréttindin dregur úr hagkvæmni kvótakerfisins, lækkar framlag sjávarútvegsins til þjóðarbúskaparins og grefur undan framtíð þjóðarinnar. Stjórnvöld ættu því fremur að kappkosta að styrkja þessi réttindi en veikja þau.
11.11.2010 | 10:26
Bandaríski sendiherrann í heimsókn
Bandaríski sendiherrann á Íslandi, Luis E. Arreaga, kom þriðjudaginn 9. nóvember 2010 í heimsókn í námskeiðið Bandarísk stjórnmál, sem ég kenni í stjórnmálafræðideild. Hann er annar gesturinn í námskeiðinu, en áður hafði Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra, sagt nemendum mínum frá kynnum sínum af fjórum Bandaríkjaforsetum.
Arreaga er eins og Barack Obama, núverandi forseti Bandaríkjanna, lifandi dæmi þess, hversu opið land þeirra er. Hann er fæddur og alinn upp í Guatemala, en fluttist ásamt fjölskyldu sinni til Bandaríkjanna, gerðist bandarískur ríkisborgari og gekk í utanríkisþjónustuna. Í Bandaríkjunum er ekki spurt, hvaðan menn koma, heldur hvað þeir geta.
Nemendur spurðu Arreaga spjörunum úr, um öryggisgæslu við sendiráðið, ný viðhorf á Norður-Íshafinu, framhald varnarsamstarfsins við Bandaríkin, viðskiptabannið á Kúbu, stríðið gegn fíkniefnum, varnir gegn tölvuþrjótum, heimsókn Obama til Indlands, afstöðu Bandaríkjanna til hinna nýju stórvelda, Kína og Indlands og jafnvel Brasilíu, skoðun Bandaríkjanna á umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og margt fleira. Svaraði Arreaga fimlega að hætti hins þjálfaða erindreka, en hann hefur doktorspróf í hagfræði.
9.11.2010 | 13:12
Þjóðfundurinn
Þjóðfundurinn var ekki eins slæmur og ég hafði gert ráð fyrir. Flestir, sem þangað komu, voru einlægir og góðviljaðir einstaklingar, og góður andi virðist hafa verið á fundinum. Mikilvægt er þó að missa ekki sjónar á aðalatriði málsins. Það er, að hrunið er ekki að kenna stjórnarskránni. Hún er stuttorð og gagnorð og í anda þeirrar frjálshyggju, sem einkenndi nítjándu öld, þar sem lögð var áhersla á að takmarka ríkisvaldið og tryggja réttindi einstaklinga, fundafrelsi, trúfrelsi og málfrelsi.
Ætti ég að gera tillögur um breytingar á stjórnarskránni, þá væru þær hins vegar þessar:
1) Valdsvið forseta yrði skýrt. Annaðhvort ætti að leggja embættið niður og fela forseta Alþingis að annast þær skyldur, sem forseti gegnir nú, eða viðurkenna víðtækara vald forseta en venja hefur verið um. Hallast ég frekar að fyrri leiðinni.
2) Tryggja ætti betur en nú, að skattlagningarvald og seðlaprentunarvald ríkisins yrði ekki misnotað. Þetta mætti gera með því að setja í stjórnarskrá, að ekki mætti leggja á nýja skatta nema með tveimur þriðju hluta atkvæða á þingi, að ekki mætti afgreiða fjárlög með halla lengur en í tvö ár og að menn gætu gert samninga sín í milli í hverjum þeim gjaldmiðli, sem þeir kysu.
3) Fækka mætti ráðherrum og þingmönnum og stytta þann tíma, sem Alþingi situr. Mönnum hættir til að halda, að mál leysist á fundum og með fundum. Það er misskilningur. Þau leysast í dagsins önn, í lífsbaráttunni sjálfri. Þar eru verðmætin sköpuð.
8.11.2010 | 19:18
Tekjulágir misstu mest
Aðalfyrirsögn á forsíðu Fréttablaðsins 4. nóvember 2010 er: Tekjulágir misstu minnst.
Vitnað er í rannsóknir Stefáns Ólafssonar um þetta. Ég hef áður bent á það rækilega (í bókinni Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör), hvernig Stefán hagræðir iðulega tölum í áróðursskyni. Bestu dæmin eru lífeyristekjur aldraðra (hann deildi með fjölda fólks á lífeyrisaldri í heildarlífeyrisgreiðslur, ekki með fjölda lífeyrisþega), tekjuskipting á Íslandi (hann reiknaði með söluhagnaði af hlutabréfum, sem ekki er gert annars staðar) og skattleysismörk (hann reiknaði ekki inn í þau frestun á skattgreiðslum af lífeyrissparnaði, sem koma til lækkunar).
En setjum svo, að Stefán hafi reiknað rétt í þetta skipti og kjör hinna tekjulágu hafi rýrnað tiltölulega minna en annarra hópa við hrunið.
Samt hefur þessi hópur misst mest. Hann hefur misst tækifærið til að hækka tekjur sínar, hætta að vera tekjulágur, því að það tækifæri fæst aðeins með lágum sköttum, blómlegu atvinnulífi og svigrúmi fyrir einkaframtak.
Stighækkandi tekjuskattur er í rauninni aðallega skattur á hina framsæknu, þá, sem vilja hækka sig um þrep, sækja á brattann, en komast þá að því, að skattbyrðin verður því þyngri hlutfallslega sem komist er í hærra tekjuþrep.
Fréttablaðið sýnir vel með þessum fréttaflutningi og fullkomnu gagnrýnisleysi sínu á tölum Stefáns Ólafssonar, að það er stjórnarblað, enda fær Jón Ásgeir Jóhannesson að halda yfirráðum sínum yfir þessu fyrra fjölmiðlaveldi sínu með sérstökum fyrirmælum frá Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrími J. Sigfússyni.8.11.2010 | 09:10
Þurfa Íslendingar að koma sér saman um gildi?
Ég er ekki þeirrar skoðunar, að þjóðin þurfi eða eigi að koma sér saman um einhver efnismikil gildi, heldur eigi hver maður að velja sín gildi og menn síðan að vera sammála um að vera ósammála. Þetta er aðal einstaklingshyggjunnar, en hennar vegna er vestræn menning ólík annarri.
Við erum ekki öll stödd saman á einni skútu, á einni ferð, heldur siglir hver maður sinni bátskænu, hver á sinni ferð, en þeir þurfa vitanlega að sigla eftir sömu siglingarreglum, svo að ekki verði árekstrar eða menn strandi.
Þess vegna el ég með mér efasemdir um þjóðfundi, eins og þann, sem nýlokið er, þótt vissulega sé gott og blessað, að menn komi saman og ræði um daginn og veginn.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:46 | Slóð | Facebook
6.11.2010 | 16:58
Tökum aftur upp samstarf við Bandaríkin
Íslandi. Enginn minnist á eitt aðalatriðið. Hann er, að á miklu ríður
fyrir Íslendinga að vera innan varnarlínu Bandaríkjanna. Þau settu
snemma á 19. öld fram svonefnda Monroe-kenningu, sem var, að þau liðu
öðrum ekki yfirgang í Vesturheimi. En hvað er Vesturheimur? Við
Íslendingar þurfum á því að halda, að línan sé dregin austan við Ísland,
ekki vestan við það. Svo var árin 19412006, á meðan við áttum í
farsælu samstarfi við Bandaríkin. Þau þurfa að átta sig á því, að það er
þeim í hag ekki síður en Íslandi að endurnýja þau tengsl, sem þá
mynduðust.