Gunnar Thoroddsen um smáþjóðirnar

Ég er að lesa hina miklu ævisögu Gunnars Thoroddsens forsætisráðherra eftir Guðna Th. Jóhannesson sagnfræðing. Hefur Guðni haft aðgang að frábærum heimildum, ekki aðeins dagbók Gunnars, heldur einnig drögum að sjálfsævisögu og margvíslegum öðrum gögnum, og unnið vel og samviskusamlega úr þeim, að því er ég fæ best séð.

Ég hnaut um það, að Guðni kveður (160. bls.) Jón Þorláksson hafa látið af embætti borgarstjóra 1935. Jón lést, á meðan hann gegndi embættinu, en lét ekki af því. Þetta er óeðlilegt orðalag, þótt smáatriði sé.

Á öðrum stað (144. bls.) vitnar Guðni í fræg orð gríska sagnritarans Þúkídídesar um smáþjóðir, er hann segir frá hugleiðingum Gunnars um utanríkismál fyrir seinna stríð (en hann vildi, að Ísland væri á sameiginlegu áhrifasvæði Stóra-Bretlands og Hitlers-Þýskalands).

Guðni segir:

„Sá sterkari hlýtur að ráð en sá veikari að lúta,“ hafði gríski sagnaritarinn Þúkýdídes skrifað í sögu Pelopseyjarstyrjaldar í Grikklandi til forna.

Í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, er talsvert rætt um orð Þúkídídesar (eins og eðlilegast er að stafsetja nafn sagnritarans á íslensku). Hann mælti þau ekki sjálfur, heldur lagði þau í munn Aþeningum, þegar þeir kröfðust þess 416 f. Kr., að grannar þeirra, Meleyingar (íbúar Melos-eyjar), lytu þeim sökum yfirburða þeirra.

Í íslenskri þýðingu Friðriks Þórðarsonar, sem sneri orðum Þúkídídesar úr frummálinu og birti í Tímariti Máls og menningar 1964 (350. bls.), hljóða þau svo: „Enda var yður fullkunnugt eigi síður en oss, að sá ríkari hlýtur að ráða, en réttlæti manna á meðal þar aðeins er jafningjar eigast við.“

Algengast er á íslensku að kalla bók Þúkídídesar Sögu Pelopsskagastríðanna, þótt vissulega merki „Pelopannesos“ eyja Pelopsar. Eru ummælin í 5. bók, 17. kafla. Raunar má ætla, að sjálfur hafi Þúkídídes verið andvígur þeim boðskap, sem í þeim felst um réttmæt yfirráð stórþjóða yfir smáþjóðum í krafti yfirburða. Hann var að minnsta kosti gagnrýninn á framferði Aþeninga í stríðinu.

Hvað sem því líður, hlakka ég til að lesa síðari hluta bókar Guðna Th. Jóhannessonar, því að þá birtist sá Gunnar Thoroddsen, sem ég þekkti, en ég var sjálfboðaliði fyrir hann í forsetakjörinu 1968, þá fimmtán ára að aldri, og átti síðan oft eftir að hitta þennan mikilhæfa stjórnmálamann og spjalla við hann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband