Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Björn Ólafsson ráðherra

bjornolafsson.jpgHið virðulega tímarit þjóðvinafélagsins, sem Jón Sigurðsson hafði forgöngu um, Andvari, kemur út einu sinni á ári. Er það nú undir ritstjórn Gunnars Stefánssonar bókmenntafræðings. Andvari birtir jafnan fremst rækilegt æviágrip einhvers merks Íslendinga.

Mér er ljúft að segja hér frá því, að Andvari ársins 2010, sem kom út skömmu fyrir jól, flytur æviágrip Björns Ólafssonar ráðherra eftir mig á fjörutíu blaðsíðum. Rek ég þar sögu einstaks dugnaðarforks og sjálfmenntaðs gáfumanns, sem braust úr fátækt í bjargálnir.

Björn fæddist við lítil efni, nánast örbirgð, á Akranesi árið 1895, en þegar hann lést árið 1974, var hann áreiðanlega einn ríkasti Íslendingur sinnar tíðar. Hann var ekki aðeins kaupsýslumaður og iðnrekandi, heldur líka ötull baráttumaður fyrir frjálsri verslun, ráðherra og alþingismaður, auk þess sem hann tók þátt í mörgum fyrirtækjum og félögum.

Hann vitnaði eitt sinn í ráð, sem sér hefði verið gefið ungum: „Það er ekki hægt að taka þátt í pólitík nema vera sjálfstæður maður og þurfa ekki að spyrja neinn um leyfi til að gera það, sem maður telur rétt og nauðsynlegt. Það er ekki hægt að vera allt sitt líf eins og hengdur upp á þráð vegna auraleysis.“


„Our son of a bitch“

Ég hef tvíræða afstöðu til Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands.

Annars vegar sé ég ótrúlega hégómagirnd hans, valdafíkn, tilhneigingu til að ofsækja andstæðinga sína, jafnvel fyrri vini, eins og kom fram í Hafskipsmálinu, dómgreindarleysi og vanstillingu. Ég hef líka heyrt margar sögur af því, hvernig hann kemur af hroka og tillitsleysi fram við venjulegt fólk, sem eitthvað á undir honum.

Hins vegar sé ég dugnað hans, vígfimi og málakunnáttu, eins og sést vel á því, hvernig hann hefur hlaupið í skarðið, sem ríkisstjórnin skildi eftir í Icesave-málinu, og varið málstað Íslendinga af krafti erlendis.

Áður en þjóðaratkvæðagreiðslan um Icesave-málið kom til sögunnar, sem breytt hefur skoðun margra á Ólafi til hins betra, enda tók hann þar rétta ákvörðun og fylgdi henni skörulega eftir, átti ég einu sinni tal við mann, sem þekkti Ólaf Ragnar vel og hafði í forsetatíð hans þurft að eiga margvísleg samskipti við hann og nánustu stuðningsmenn hans.

Ég sagði: „Nú eru menn eins og Halldór Guðmundsson, Einar Kárason, Már Guðmundsson og Mörður Árnason aldir upp við virðingu á íslenskri menningu og andúð á tildri og titlatogi. Þeir eru að eðli og upplagi vinstri sinnaðir menntamenn með öllum kostum þess og göllum. Enginn þeirra gæti skrifað hinn hola texta Ólafs Ragnars, þar sem hrúgað er saman skrautlegum orðum í einhvers konar óviljandi skopstælingu á stíl ungmennafélagsfrömuða á öndverðri tuttugustu öld. Og sjá þessir menn ekki, hversu illgjarn og ófyrirleitinn Ólafur Ragnar er stundum? Vita þeir ekki, að hann á sér aðeins eina hugsjón, sem taka má saman í þremur orðum, Ólafur–Ragnar–Grímsson? Er þeim sama um alla sýndarmennskuna á Bessastöðum?“

Viðmælandi minn brosti í kampinn og sagði: „Þessir menn vita nákvæmlega, hvernig Ólafur Ragnar er. Þeir segja og hugsa hróðugir: He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“ Það getur verið, að hann sé skepna, en við eigum þessa skepnu.

Í bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, rek ég þessi frægu orð, en þau á Franklin Delano Roosevelt að hafa sagt um herforingjann Anastasio Somoza, sem stjórnaði Níkaragúu harðri hendi, en var hollur Bandaríkjunum. Ekki eru þau finnanleg í verkum Roosevelts, þótt oft séu þau höfð eftir honum. (Þau eru líka höfð eftir Cordell Hull, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um Rafael Trujillo, einræðisherra í Dómínikanska lýðveldinu.)

Það er hins vegar kaldhæðni örlaganna, eins og Ólafur Ragnar Grímsson hefur hegðað sér síðasta árið, að líklega gætu hægri menn tekið sér þessi orð í munn: „He may be a son of a bitch. But he is our son of a bitch.“

Ekki veit ég hins vegar, hversu lengi þeir geta sagt seinni setninguna. Líklega er því hægri mönnum jafnt og vinstri best að halda sig aðeins við þá fyrri.


Guðrúnar saga Ósvífursdóttur

Mér er það minnis stætt úr íslenskutíma í menntaskóla, að kennari okkar, Jón S. Guðmundsson, cand. mag., sagði okkur eftir Sigurði Nordal, að líklega hefði Laxdæla saga átt að heita Guðrúnar saga Ósvífursdóttur. Hún er umfram allt saga hinna einkennilegu örlaga hennar. Hún er einn aðalgerandinn í sögunni.

Ég hef einmitt verið að lesa sumar Íslendinga sögurnar á ný nú um hátíðirnar, mér til ánægju og fróðleiks, þar á meðal Laxdæla sögu. En ég furða mig á því við lesturinn, hversu misjafnlega þeim Hallgerði Langbrók í Njáls sögu og Guðrúnu í Laxdæla sögu er borin sagan. Hefur önnur verið dæmd of hart, en hin of vægt.

Guðrún er sagður skörungur, kvenna vænst, vitur og kurteis. Hallgerður Langbrók er hins vegar þjófótt, þóttafull og hefnigjörn.

En þegar sögurnar eru lesnar vandlega, sést vel, að Guðrún var litlu betri en Hallgerður. Hún þykktist við, þegar hún fékk ekki að skipa öndvegi í boði í Hjarðarholti. Hún sendi mann (bróður sinn, en ekki þræl) til að ræna af Kjartani sverði, og hún tók ófrjálsri hendi moturinn dýrmæta af Hrefnu, konu Kjartans, sem Ingibjörg konungssystir hafði gefið Kjartani.

Munurinn á þeim Guðrúnu og Hallgerði er aðallega sá, að Guðrún kunni betur að stilla skap sitt, þegar aðrir sáu til, en Hallgerður missti stundum stjórn á sér í viðurvist annarra. Guðrún lét líka hnupla hlutum, af því að hún gat ekki unnt öðrum að njóta þeirra, en ekki af ágirnd eða frekju eins og Hallgerður.

Guðrún var þó ekki síður hefnigjörn en Hallgerður, og það var að áeggjan hennar, sem Kjartan var veginn. Enginn vafi er á því, að Kjartan var hin stóra ást í lífi hennar, eins og nútímamenn myndu orða það. Þegar hún sagði roskin kona hin frægu orð: „Þeim var ég verst, sem ég unni mest,“ átti hún ekki við neinn sinna fjögurra eiginmanna, heldur við Kjartan.

Samband þeirra fóstbræðra, Kjartans og Bolla, er líka gamalkunnugt stef í bókmenntum og raunar lífinu sjálfu. Það er samband afburðamanns og mikils hæfileikamanns, sem bliknar þó í samanburðinum. Þetta er stefið um Mozart og Salieri, Hannes Hafstein og Valtý, Sigurð Nordal og Einar Ólaf og óteljandi aðra.


Frábær bók Þórs Whiteheads

ecshop_zoom_ugla88.jpgEf einhver er í vandræðum með jólagjöf, þá minnist ég auðvitað ætíð fyrst á 992 blaðsíðna bók mína, Kjarna málsins. Fleyg orð á íslensku, sem er afrakstur fimmtán ára rannsókna minna á því, sem skemmtilegast, viturlegast og snjallast hefur verið sagt á íslensku. Ég er ánægður með, hversu vel þetta verk mitt hefur spurst út. Ég játa, að ég er stoltur af því eins og foreldri getur verið af afkvæmi.

En ég er í engum vafa um, hvaða rit annað ég myndi nefna, væri ég spurður um bestu bókina og heppilegustu jólagjöfina fyrir þessi jól. Það er stórvirki dr. Þórs Whiteheads prófessors, Sovét-Ísland. Óskalandið, um íslensku kommúnistahreyfinguna 1920–1946. Hún er skrifuð af ótrúlegum lærdómi. Á bak við hverja einustu setningu þeirrar bókar liggur þrotlaust erfiði fræðimanns, sem þaulkannað hefur heimildir og lengi velt þeim fyrir sér.

Ekki er síður um hitt vert, að Þór skrifar lipran texta. Hann er svo áreynslulaus, að mikil áreynsla hlýtur að hafa verið að setja hann saman. Bókina má lesa eins og reyfara; hún er það, sem enskumælandi menn kalla „page turner“; menn eiga erfitt með að leggja hana frá sér. Hún myndar líka eina samfellda og haglega gerða heild. Ég tel fullvíst, að með þessari bók hafi Þór mikil áhrif á það, hvernig Íslendingar muni skoða stjórnmálasögu sína á tuttugustu öld.


Friðrik H. Jónsson. Minningarorð

Dr. Friðrik H. Jónsson, prófessor í sálfræði og fyrrverandi forstöðumaður Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands, var jarðsunginn í gær, 20. desember 2010, frá Dómkirkjunni í Reykjavík. Frá því að ég var skipaður lektor í stjórnmálafræði í félagsvísindadeild Háskóla Íslands sumarið 1988 og allt fram til síðasta dags, sýndi Friðrik mér ætíð hina sömu gagnrýnu vinsemd og öllum öðrum starfsfélögum sínum. Hann lagði jafnan gott til mála, en var samt hvorki vilja- né skoðanalaus, heldur einmitt mjög fastur fyrir og röggsamur. Hann hafði til dæmis ákveðnar stjórnmálaskoðanir, en fór vel með þær og tók undantekningarlaust rökum. Oft vorum við sammála, enda flokksbræður, en hann var samt aldrei á neinni réttlínu.

Ég tók snemma eftir því, hversu vel að sér Friðrik var í sérgrein sinni, félagssálfræði. Naut ég oft góðs af ábendingum hans um mál, sem þeirri grein tengdust. Við áttum líka mjög ánægjulegt samstarf, þegar hann var forstöðumaður Félagsvísindastofnunar og ég tók að mér umsjón með viðamiklu rannsóknarverkefni fyrir stofnunina, sem fjármálaráðuneytið hafði beðið um: Mat á áhrifum skattabreytinga, ekki síst á velferð, árin 1991–2007. Var Friðrik með mér í ráðum um það verkefni, sem unnið var árin 2007–2009, og las gaumgæfilega yfir bækur þær, sem voru meðal annars afrakstur verkefnisins. Kom þá í góðar þarfir, hversu margt hann kunni fyrir sér í rannsóknaraðferðum og úrvinnslu tölulegra gagna. Friðrik var forkur til vinnu og átti áreiðanlega drjúgan þátt í því, hversu öflug sálfræðin varð í Háskóla Íslands.

Friðrik var í hærra meðallagi og þéttur á velli, með stórgert andlit og góðlegan svip, jafnvel örlítið bangsalegur. Hann var glaðsinna og gamansamur og oftast glettnisglampi í augum. Kímni hans var græskulaus, en hann var alls ekki blindur á galla náunga sinna fremur en kosti; og gat hann goldið lausung við lygi. Hann var einn þeirra manna, sem gerðu félagsvísindadeild þess tíma að notalegum vinnustað. Minnist ég margra stunda með Friðrik, heima hjá honum í grillveislum, heima hjá mér í óteljandi útgáfuhófum, inni á skrifstofu hjá honum eða Ólafi Þ. Harðarsyni á föstudögum síðdegis með viskídreitil í glasi, þar sem óspart var skrafað og skeggrætt, og miklu oftar og miklu víðar.

Sá tími er liðinn og kemur aldrei aftur, en eftir lifir minningin um góðan dreng, sem kvaddur var skyndilega burt, öllum að óvörum. Minningin er eini sælureiturinn, sem enginn getur hrakið okkur út úr, og þar býr Friðrik H. Jónsson. 


Íslenskar skammavísur

Í Grágás, lögbók hins forna Þjóðveldis, segir: „Ef maður yrkir hálfa vísu um mann, þá er löstur er í eða háðung, og varðar það skóggang.“ Er ástæðan til svo harðrar refsingar sú, sem Haraldur harðráði benti á: „Er verri einn kviðlingur, ef munaður verður eftir, en lítil fémúta, um dýran mann kveðinn.“ Menn muna skammavísur.

Margar slíkar vísur hafa einmitt lifað á vörum þjóðarinnar. Ekki er þó alltaf vitað, um hverja þær eru ortar. Hjálmar Jónsson í Bólu orti:

Dó þar einn úr drengja flokk,
dagsverk hafði unnið,
lengi á sálar svikinn rokk
syndatogann spunnið.

Þetta mun ort um Sigurð hreppstjóra Jónsson í Krossanesi í Vallhólma. Stendur það handskrifað í einu eintaki Þjóðarbókhlöðunnar af kvæðabók Hjálmars, sem Hannes Hafstein gaf út 1888, og er það eintak úr bókum Finns Jónssonar prófessors.

Önnur skammavísa Hjálmars er alkunn:

Þarna liggur letragrér,
lýðir engir sýta.
Komi nú allir hrafnar hér
hans á leiði að skíta.
 
En þessi vísa var ort í gamni við séra Jón Benediktsson í Goðdölum, sem kippti sér ekki upp við hana.

Mér leikur hins vegar forvitni á að vita, um hvern Sigurður J. Gíslason frá Skarðsá orti þessa vísu:

Öll hans loforð eru svik,
allt hans tal er þvaður.
honum þykir hægra um vik
að heita en vera maður.

Ef einhverjir lesendur vita þetta, þá mættu þeir gjarnan senda mér línu (tölvuskeyti).

 

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í nýútkominni bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 18. desember 2010.)


Bók mín í sjónvarpi

Bók mín, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, kom út í nóvemberbyrjun og er til sölu í öllum bókabúðum. Hún er 992 bls. að stærð, og eru 215 bls. af henni rækileg atriðisorðaskrá, og játa ég, að mikið verk og erfitt var að vinna skrána, en nauðsynlegt og gagnlegt.

Tilgangur minn með þessu verki var ekki aðeins að semja handbók fyrir ræðumenn og rithöfunda eða fróðleiksnámu fyrir grúskara, heldur einnig að leggja mitt af mörkum til þess, að margt úr íslenskri menningu, sérstaklega hinni blómlegu mælsku- og umræðuhefð okkar Íslendinga, varðveittist.

Sigurður G. Tómasson íslenskufræðingur kynnti bókina í þætti sínum, „Segðu okkur frá bókinni,“ sem sendur var út á sjónvarpsstöðinni ÍNN sunnudagskvöldið 5. desember. Var ég síðastur í röðinni þeirra höfunda, sem hann talaði við í þeim þætti. Horfa má á þáttinn hér.

Þá birtist heilsíðuauglýsing um bókina í Morgunblaðinu þriðjudaginn 14. desember, þar sem þau Jón G. Friðjónsson, prófessor í málfræði og höfundar stórvirkisins Mergs málsins, Illugi Jökulsson, rithöfundur og höfundar mikillar bókar um Ísland á tuttugustu öld, dr. Sverrir Jakobsson sagnfræðingur, einn fróðasti maðurinn af ungu kynslóðinni, og Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi borgarstjóri, fóru nokkrum lofsamlegum orðum um bókina. Birtist auglýsingin aftur fimmtudaginn 16. desember.

Einnig var rætt um bók mína í bókmenntaþætti Egils Helgasonar, Kiljunni, miðvikudagskvöldið 15. desember. Þar sögðu þau Illugi Jökulsson og Þorgerður E. Sigurðardóttir kost og löst á ritinu frá sínu sjónarmiði séð, og sýndist mér ekki betur en ég gæti vel við unað. Horfa má á þáttinn hér.


Í Súdan og Grímsnesinu

Hótel Borg var opnuð árið 1930. Þetta var þá veglegasta gistihús borgarinnar og veitingasalinn sóttu margir góðborgarar. En þetta ár var nokkrum Indverjum, sem áttu leið um Ísland og vildu gistingu á staðnum, úthýst vegna litarháttar síns.

Tómas Guðmundsson skáld hafði forgöngu um að mótmæla þessu ásamt tveimur kunningjum sínum, þeim Hendrik Ottóssyni og Vilhjálmi S. Vilhjálmssyni. Gestgjafinn á Hótel Borg, Jóhannes Jósefsson glímukappi, samþykkti að bera afgreiðslubannið undir atkvæði fastagesta. Reyndust um 200 þeirra vera andvígir banninu, en aðeins um 20 hlynntir því.

Orti Tómas eftir þetta hið fræga ljóð um stúlkuna frá Súdan, þar sem þessi vísuorð eru:

Mér dvaldist við hennar dökku fegurð.
Samt dáðist ég enn meir að hinu,
hve hjörtum mannanna svipar saman,
í Súdan og Grímsnesinu.

Röskum tveimur áratugum síðar gerðist það hins vegar, að fest var upp spjald í anddyri Hótel Borgar, laugardagskvöldið 10. maí 1952. Þar stóð: »We do not cater for colored people here.« Hér fær þeldökkt fólk ekki afgreiðslu. Daginn eftir gerði Sigurður Magnússon kennari, sem var um skeið blaðafulltrúi Loftleiða, sér lítið fyrir og reif spjaldið niður. Var afgreiðslubannið eftir það úr sögunni. Sennilega hefur Jóhannes á Borg ekki verið að fylgja eftir neinum eigin fordómum í þessi tvö skipti, heldur aðeins að þóknast einhverjum viðskiptavinum.

Hið sama er eflaust að segja um Hermann Jónasson, sem var forsætisráðherra árið 1941, þegar Íslendingar sömdu við Bandaríkjamenn um hervernd. Í skeyti frá Bertil E. Kuniholm, ræðismanni Bandaríkjanna á Íslandi, til Bandaríkjastjórnar 23. júní 1941 segir: »The Prime Minister requests that no negroes be included in the unit assigned here.« Forsætisráðherra óskar eftir því, að engir svertingjar verði í liðssveitinni, sem skipað verður niður hér. Þessi setning var af einhverjum ástæðum felld niður úr útgáfu Bandaríkjastjórnar á skjölum árið 1959, án úrfellingarmerkis, eins og dr. Þór Whitehead prófessor hefur bent á.

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í nýútkominni bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 11. desember 2010.)

Nýi samningurinn eins óeðlilegur og sá gamli

Kjarni Icesave-málsins er, að íslenska ríkið, og um leið íslenskir skattgreiðendur, bera ekki ábyrgð á fjárhagslegum skuldbindingum Tryggingarsjóðs fjárfesta og innstæðueigenda, sem settur var upp hér á landi samkvæmt reglum EES (Evrópska efnahagssvæðisins) eins og í öðrum löndum á svæðinu. Ef sjóðnum er um megn að standa við skuldbindingar sínar við eigendur innstæðna á Icesave-reikningum, þá verður hann gjaldþrota, en getur ekki framsent reikninginn til íslenskra skattgreiðenda, komandi kynslóða.

Íslenskir lögfræðingar, Stefán Már Stefánsson prófessor, sérfræðingur í Evrópurétti, og Lárus Blöndal hæstaréttarlögmaður hafa bent á, að ekki er stafkrókur í reglum EES og alþjóðasamningum um slíka ríkisábyrgð. Forstöðumaður hins norska sjóðs, sem þar var settur upp eftir sömu reglum og hinn íslenski, þvertekur fyrir, að á honum sé ríkisábyrgð. Fjármálaráðherra Hollands og seðlabankastjóri Evrópu hafa báðir einnig tekið fram, að ábyrgðarkerfi það, sem komið var upp fyrir banka á Evrópska efnahagssvæðinu, á ekki við, þegar um bankahrun er að ræða, en það er einmitt það, sem gerðist á Íslandi.

Ekki má heldur gleyma því, að ein helsta ástæðan til þess, að allir íslensku bankarnir hrundu, nánast í einu, var fautaskapur Breta. Þeir neituðu Singer & Friedlander einum breskra banka um fyrirgreiðslu á þeim tíma, en hann var í eigu Kaupþings, og tóku þess í stað yfir rekstur bankans. Og þeir settu Landsbankann á lista yfir hryðjuverkasamtök! Með þessu felldu þeir auðvitað stórlega í verði þær eignir bankanna, sem koma á móti skuldum þeirra við innstæðueigendur. Ætla má, að Bretar hafi gert þar stórfelld mistök, þótt engin rannsókn hafi úr því skorið. Í fyrsta lagi hafi þeir haldið, að um miklu meiri og óeðlilegri flutninga fjármagns frá Bretlandi til annarra landa væri að ræða en reyndin virðist hafa verið. Í öðru lagi hafi þeir ekki gert sér fulla grein fyrir muninum, sem var á rekstrarfyrirkomulagi banka Kaupþings (dótturfélags) og banka Landsbankans (útibús). Þetta mál er órannsakað og þess vegna óupplýst.

Til að bæta gráu ofan á svart: Eftir að Bretar höfðu átt sinn þátt í að fella íslensku bankana í október 2008, greiddu þeir upp á sitt einsdæmi út stórfé til breskra eigenda innstæðna í íslensku bönkunum, sem þeir hafa síðan reynt að krefja íslenska ríkið, og um leið skattgreiðendur, um. En eins og Davíð Oddsson orðaði það í frægum Kastljóssþætti haustið 2008, eiga Íslendingar ekki að greiða skuldir óreiðumanna erlendis. Gildir þá einu, hversu góð vaxtakjör eru á þessum lánum. Þetta er ekki okkar skuld, og við eigum ekki að greiða hana.

Raunar eiga rök Sigurðar Líndals hér við, en hann hefur látið opinberlega í ljós efasemdir um, að Alþingi megi af stjórnskipulegum ástæðum samþykkja fyrir hönd þjóðarinnar stórkostlegar fjárhagsskuldbindingar, sem enginn veit á þessari stundu, hverju nema, enda fara þær eftir því, hvernig tekst að koma eignum Landsbankans í verð.

Hvers vegna er þessi asi hvort sem er? Getur málið hugsanlega ekki horfið af sjálfu sér? Komið hefur smám saman í ljós, að eignir Landsbankans erlendis fara hátt í að nægja til að greiða Bretum og Hollendum það, sem þeir lögðu út í upphafi bankahrunsins og hafa reynt að krefja íslenska ríkið um í Icesave-málinu. Af hverju er ekki haldið áfram af rósemi og hyggindum að selja þessar eignir? Ef í ljós kemur, að þær nægja fyrir höfuðstólnum, þá er málinu lokið. Ef eitthvað vantar smávægilegt upp á, þegar málinu lýkur, þá ættu Íslendingar að koma sér saman við Breta og Hollendinga um það, hvernig það verður leyst.

Stjórnarandstöðuflokkarnir hljóta ekki aðeins að greiða atkvæði gegn þessum samningi, heldur krefjast þess, að hann verður lagður í þjóðaratkvæði. Það geta hinir kunnu áhugamenn um þjóðaratkvæðagreiðslur í stjórnarflokkunum ekki annað en samþykkt.

Margir hafa síðustu dagana hins vegar orðið til að benda á þá sjálfstæðu staðreynd, að fyrri samningurinn, sem þau Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur J. Sigfússon gerðu 2009 með atbeina Svavars Gestssonar og Indriða H. Þorlákssonar, var miklu verri, og var þó reynt að troða þeim samningi ofan í kok þjóðarinnar með stórfelldum hrakspám. Hefði sá samningur kostað Íslendinga miklu meira en sá, sem nú hefur verið gerður, líklega 432 milljarða króna. Hefur sennilega ekki áður í Íslandssögunni fengist jafnskýr mæling á það, hversu mikið vanhæfni einstakra manna kostar, jafnvel þótt þá tækist að afstýra því slysi.


Á útlendum krám

Hinn kunni enski málfræðingur og orðabókarhöfundur dr. Samuel Johnson minnist tvisvar í verkum sínum á Ísland. Hann hreykti sér af því við ævisöguritara sinn, James Boswell, að hann kynni heilan kafla í Íslandsbók Níelsar Horrebows utanbókar. Það var að vonum. 72. kafli bókarinnar heitir »Um slöngur á Íslandi«. Hljóðar hann svo: »Slöngur eru alls ekki til á Íslandi.«

Ekki hefur Johnson hrifist af lýsingunni á Íslandi, því að hann sagði árið 1784: »Þótt Dyflinn sé miklu verri staður en Lundúnir, er hann ekki eins slæmur og Ísland.«

Hvað sem þessu líður hafa margir Íslendingar tekið undir það, sem dr. Johnson sagði við annað tækifæri, að maðurinn hafi ekkert fundið upp sem veitti jafnmikla hamingju og góð krá.

Veitingaþjónn á krá í Kaupmannahöfn, sem Íslendingar vöndu komur sínar á í lok nítjándu aldar, skipti þeim til hægðarauka í tvo hópa, Briemere og Bløndalare. Sagði hann: »Briemerne, de er gode betalere, men dårlige sangere. Bløndalerne, de er gode sangere, men dårlige betalere.« Briemarnir greiða vel, en syngja illa. Blöndælirnir syngja vel, en greiða illa.

Hins vegar lá við, að illa færi fyrir vöskum íslenskum sjómanni, Stefáni Pálssyni skipstjóra, í Grimsby á útmánuðum 1913. Þjóraði hann þar á öldurhúsum kvöld eitt og gerðist alldrukkinn, uns að því kom að vísa átti honum á braut. Lét Stefán sér það ekki lynda og var hann slíkur maður að burðum að sex fíleflda lögregluþjóna þurfti loks til að yfirbuga hann. Skrifuðu blöð staðarins um hinn »íslenska Herkúles«. Þegar Stefán kom fyrir rétt, mælti dómarinn við hann hin fleygu orð: »Þér eruð sterkir, Íslendingur. En gleymið því aldrei, að skoska viskíið er sterkara.« Gerði hann Stefáni að greiða nokkra sekt.

Eftir heimsstyrjöldina síðari vöndu Íslendingar í Lundúnum komur sínar á Harrington Pub þar í borg. Þegar nálgaðist lokunartíma, kallaði gestgjafinn jafnan upp hátt og snjallt: »Frúr mínar og herrar, og Íslendingar líka, við erum að loka!« 

(Þessi fróðleiksmoli er sóttur í ýmsa staði í nýútkominni bók minni, Kjarni málsins. Fleyg orð á íslensku, og birtist í Morgunblaðinu laugardaginn 4. desember 2010.)


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband