Norræna leiðin: Molesworth

Robert_Molesworth,_1st_Viscount_MolesworthÁ dögunum rifjaði ég upp, að franski stjórnmálaheimspekingurinn Montesquieu hefði rakið hina vestrænu frjálshyggjuhefð til Norðurlanda, til hins norræna anda. Hann var ekki einn um það. Robert Molesworth var breskur aðalsmaður og Viggi, en svo nefndust stuðningsmenn byltingarinnar blóðlausu 1688, en hún var gerð til varnar fornum réttindum Englendinga og venjum, ekki til að endurskapa skipulagið eftir forskrift misviturra spekinga. Molesworth var góðvinur Johns Lockes og Frances Hutchesons, kennara Adams Smiths, og hafði mikil áhrif á bandarísku byltingarmennina.

Molesworth var sendiherra Breta í Danmörku árin 1689–1692, og þegar heim kom, gaf hann út bókina Lýsingu Danmerkur árið 1692 (sem bandaríski frelsissjóðurinn, Liberty Fund, endurútgaf árið 2011). Þar kvað hann Dani hafa búið við verulegt frelsi fyrir 1660, þegar Danakonungur gerðist einvaldur með stuðningi borgaranna í Kaupmannahöfn. Þeir hefðu valið konunga sína og neytt þá til að samþykkja frelsisskrár. Konungarnir hefðu orðið að stjórna með samþykki þegna sinna, sem hefðu getað sett þá af, ef þeir brutu lögin. Þessar fornu hugmyndir hefðu síðan styrkst í Bretlandi, en veikst í Danmörku.

Þegar Molesworth var sendiherra í Danmörku, var byltingin blóðlausa nýlega um garð gengin í Bretlandi og enn hætta á því, að hinn burtrekni Jakob II. konungur sneri aftur og kæmi á einveldi svipuðu og í Frakklandi og Danmörku. En þótt Molesworth fyndi danskri þjóðmenningu flest til foráttu, hældi hann Dönum fyrir réttarkerfi þeirra. Lögin væru skráð á einföldu og auðskiljanlegu máli, og dómstólar væru tiltölulega óháðir. Það er lóðið. Danir bjuggu eins og aðrir Norðurlandabúar við réttarríki, sem þróast hafði á þúsund árum, og þess vegna gat frelsið skotið djúpum rótum í þessum heimshluta, þegar leið fram á nítjándu öld.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júlí 2023.)


Norræna leiðin: Montesquieu

Bordeaux_-_Statue_Montesquieu_(1)Eftir að ég sótti málstofu um Montesquieu og aðra upplýsingarmenn átjándu aldar í Jórvík á Englandi í júní 2023, varð mér ljóst, að því hefur ekki verið veitt athygli á Íslandi, hvað heimspekingurinn franski hefur fram að færa um norrænar þjóðir. Því ber mjög saman við það, sem ég hef sagt um hinn norræna og forngermanska frjálshyggjuarf.

Í 6. kafla 11. bókar Anda laganna skrifar Montesquieu, að nóg sé að lesa rit rómverska sagnritarans Tacitusar til að sjá, hvaðan Englendingar fengu stjórnmálahugmyndir sínar. Hið haglega skipulag þeirra hafi orðið til í skógum Germaníu. Sem kunnugt er hafði Tacitus lýst því í ritinu Germaníu, hvernig germanskir ættbálkar leiddu mál til lykta á almennum samkomum. Yrðu konungar og höfðingjar að lúta lögum eins og aðrir. Þótt Germanía hafi komið út í röð lærdómsrita Hins íslenska bókmenntafélags (2001), er hvergi í inngangi eða skýringum á þetta minnst.   

Í 5. kafla 17. bókar Anda laganna segir Montesquieu, að Norðurlönd geti með sönnu hreykt sér af því að vera uppspretta frelsis Evrópuþjóðanna. Í 6. kafla sömu bókar bætir Montesquieu því að vísu við, að staðhættir í Evrópu hafi leitt til skiptingar hennar í mörg ríki, sem ekki séu hvert um sig of stórt. Sæmilegt jafnvægi hafi myndast milli þeirra, svo að erfitt hafi verið fyrir eitthvert eitt þeirra að leggja önnur undir sig og þau því farið að lögum og nýtt sér kosti frjálsra viðskipta.

Eftir daga Montesquieus komust þrír harðstjórar þó nálægt því að leggja mestallt meginland Evrópu undir sig, fyrst Napóleon á öndverðri nítjándu öld, síðan þeir Hitler og Stalín í sameiningu með griðasáttmálanum sumarið 1939. Í bæði skiptin stöðvuðu Bretar þá eða eins og Montesquieu kynni að segja: Hinn norræni andi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júlí 2023.)


Westminster-höll, júní 2023

IMG_2147Breskur góðkunningi minn, Jamie Borwick, fimmti barón Borwick, var svo elskulegur að bjóða mér í hóf, sem hann hélt 28. júní 2023 í Cholmondeley-salnum í Westminster-höll, breska þinghúsinu, í tilefni þrjú hundruð ára afmælis Adams Smiths. Enginn veit með vissu, hvenær Adam Smith var fæddur, en hann var skírður 5. júní 1723, sem er venjulega talinn fæðingardagur hans. Utanríkisráðherra Breta, James Cleverly, flutti skemmtilega ræðu í hófinu og taldi frelsisboðskap Smiths enn eiga fullt erindi við okkur, en minnti líka á, að við megum ekki láta okkur nægja að njóta frelsisins, heldur verðum við líka að verja það, og nú ógna því tvö stórveldi, grá fyrir járnum og hin skuggalegustu, Rússland og Kína. Hafði ég tækifæri til að skiptast á skoðunum við Cleverly, sem er maður geðugur og gamansamur. Ég er óspar á að láta þá skoðun mína í ljós, að Ísland eigi helst heima með grannríkjunum í Norður-Atlantshafi, Noregi, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum, og síður í Evrópusambandinu.
Afmælisbarnið sjálft, Adam Smith, setti fram tvær snjallar hugmyndir, sem rifja þarf reglulega upp. Hin fyrri er, að eins gróði þurfi ekki að vera annars tap. Menn og þjóðir geta grætt á hinni alþjóðlegu verkaskiptingu, ef og þegar ólíkir hæfileikar og landkostir fá að nýtast sem best í frjálsum viðskiptum. Seinni hugmyndin er, að hagkerfi geti verið skipulegt án þess að vera skipulagt. Regla getur komist á, þótt enginn einn aðili komi henni á. Smith orðaði það svo, að við frjálsa samkeppni á markaði leiddi „ósýnileg hönd“ menn, sem aðeins ætluðu sér að keppa að eigin hag, að því að vinna að almannahag.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júlí 2023. Myndina af okkur Cleverly utanríkisráðherra tók Hannan lávarður af Highclere.)


Jórvík, júní 2023

IMG_2038Skemmtilegt var að koma til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og feta með því í fótspor Egils Skallagrímssonar, þótt mér finnist raunar Höfuðlausn, sem hann á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Gat Snorri hafa ort það sjálfur? Erindið til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.
Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir okkar hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?
Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.
Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti ég á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2023.)


Eskilstuna, júní 2023

HHGofl.18.06.2023.StockholmÁ sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 varpaði ég fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Ég benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2023.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband