Jórvík, júní 2023

IMG_2038Skemmtilegt var að koma til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og feta með því í fótspor Egils Skallagrímssonar, þótt mér finnist raunar Höfuðlausn, sem hann á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Gat Snorri hafa ort það sjálfur? Erindið til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.
Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir okkar hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?
Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.
Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti ég á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2023.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband