Jórvík, júní 2023

IMG_2038Skemmtilegt var að koma til Jórvíkur á Englandi í júníbyrjun 2023 og feta með því í fótspor Egils Skallagrímssonar, þótt mér finnist raunar Höfuðlausn, sem hann á forðum að hafa flutt Eiríki konungi blóðöx, grunsamlega ófornfálegt kvæði, ekki síst vegna hins suðræna endaríms. Gat Snorri hafa ort það sjálfur? Erindið til Jórvíkur var að vísu þessu óskylt. Mér var boðið ásamt nokkrum öðrum fræðimönnum á málstofu, sem bandaríski Frelsissjóðurinn, Liberty Fund, hélt þar í borg um viðskiptaskipulagið (commercial society), eins og það kom upplýsingarmönnum átjándu og nítjándu aldar fyrir sjónir, þeim Montesquieu, David Hume, Adam Smith og Benjamin Constant.
Margt kom fróðlegt fram í málstofunni. Montesquieu vakti til dæmis athygli á því í Anda laganna, að Fönikíumenn hefðu stundað viðskipti um allt Miðjarðarhaf án þess að telja sig þurfa að leggja undir sig lönd eins og Rómverjar gerðu. Söguskoðanir okkar hafa verið um of verið mótaðar af rómverskum sagnriturum. Voru Rómverjar einhverju skárri en Karþagómenn?
Hume kvað fátt stuðla eins að framförum og mörg sjálfstæð grannríki, sem tengdust saman með viðskiptum og kepptu í sæmilegu bróðerni hvert við annað. Hefði hann skilið vel þá gagnrýnendur Evrópusambandsins, sem vilja frekar opinn markað en lokað ríki. Hume var einna fyrstur til að setja fram peningamagnskenninguna, sem Milton Friedman varð síðar frægur fyrir: að verðbólga stafaði af offramboði peninga.
Hume kvað skapara heimsins hafa ætlast til þess, þegar hann skammtaði ólíkum þjóðum misjöfn gæði, að þær bættu hag sinn í frjálsum viðskiptum með þessi gæði. Á málstofunni benti ég á, að merkilegt væri að kynnast þessum rökum trúleysingjans fyrir viðskiptafrelsi.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júlí 2023.)


Eskilstuna, júní 2023

HHGofl.18.06.2023.StockholmÁ sumarskóla fyrir unga íhaldsmenn á Norðurlöndum í Sundbyholm-höll við Eskilstuna 18. júní 2023 varpaði ég fram tveimur spurningum. Önnur var: Af hverju eiga íhaldsmenn að styðja frjálsan markað? Af því að hann er ekkert annað en vettvangur manna til að keppa að markmiðum sínum, þar á meðal þeim venjum og siðum, sem íhaldsmenn vilja vernda og rækta. Ríkið hefur hins vegar tilhneigingu til þess að grafa undan slíkum venjum og siðum. Með einkarétt sinn á að beita ofbeldi er það oftast miklu róttækara og hættulegra breytingarafl en markaðurinn. Ég benti á, að heildir eins og fjölskyldan og þjóðin væru ekki fastar og óbifanlegar. Menn fæðast inn í eina fjölskyldu og stofna aðra. Menn verða líka að fá að flytjast milli landa. Til þess að maður geti elskað land sitt, verður það að vera elskulegt, minnti Edmund Burke á. Þjóðin er dagleg atkvæðagreiðsla, kvað Ernest Renan.

Hin spurningin var: Af hverju eiga norrænir íhaldsmenn að vera frjálshyggjumenn? Af því að frjálshyggjan er þeirra annað eðli. Hún er hefð, sem hefur myndast á árþúsundum. Tacitus lýsti því þegar árið 98 e. Kr., hvernig germanskir ættbálkar stjórnuðu sér sjálfir. Þegar Ansgar biskup vildi kristna Svíþjóð um miðja níundu öld, tikynnti konungur einn honum, að hann yrði að bera erindi hans upp á þingum þegna sinna. Þegar sendimaður Frakkakonungs spurði síðar á öldinni Göngu-Hrólf og menn hans, hver hefði þar forystu, sögðust þeir allir vera jafnir. Í Heimskringlu kemur sú skoðun Snorra Sturlusonar berlega í ljós, að konungar verði að lúta lögum eins og aðrir, og geri þeir það ekki, megi setja þá af, eins og Þórgnýr lögmaður tók fram við Svíakonung árið 1018. Við þessa lagahefð og sáttmálakenningu frá miðöldum bætti Anders Chydenius rökum fyrir viðskiptafrelsi og Nikolai F. S. Grundtvig fyrir frjálsum samtökum, til dæmis skólum, söfnuðum og samvinnufélögum. Þessi frjálslynda norræna arfleifð hefur staðið af sér valdastreitu konunga að fornu og jafnaðarmanna að nýju.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júlí 2023.)


Bloggfærslur 8. júlí 2023

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband