Ánægjuleg starfslokaráðstefna

Ekki verður annað sagt en Háskólinn hafi skilið virðulega við mig eftir 35 ára starf mitt í stjórnmálafræði. Hélt hann 180 manna starfslokaráðstefnu 12. maí, þar sem ellefu manns töluðu, en síðan var móttaka í húsakynnum skólans.

Dr. Barbara Kolm, forstöðumaður Hayek-stofnunarinnar í Vín og varaformaður bankaráðs austurríska seðlabankans, talaði um trausta peninga. Prófessor Bruce Caldwell, Duke-háskóla, rakti rannsóknir sínar á ævi Friedrichs von Hayeks. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lýsti því, hvernig Íslendingar komust út úr fjármálakreppunni, sem skall á 2008. Gabriela von Habsburg, myndhöggvari og fyrrverandi sendiherra Georgíu í Þýskalandi (og barnabarn síðasta keisara Austurríkis-Ungverjalands), sagði sögu Georgíu, smáríkis í hinum enda Evrópu. Prófessor Þráinn Eggertsson greindi hina stórfelldu tilraun í Kína til að sameina vaxandi atvinnulíf og flokkseinræði. Prófessor Stephen Macedo, Princeton-háskóla, varaði við þeirri illsku, sem hlaupin væri í stjórnmálaátök.

Prófessor Þór Whitehead ræddi um afstöðu Churchills og Roosevelts til Íslands. Dr. Neela Winkelmann, fyrrverandi forstöðumaður Evrópuvettvangs minningar og samvisku, sagði frá tilgangi og starfsemi vettvangsins. Yana Hrynko, safnstjóri í Kænugarði, fór orðum um samskipti Rússa og Úkraínumanna. Prófessor Ragnar Árnason leiddi rök að því, að nýta mætti ýmsar auðlindir með því að finna þeim eigendur og ábyrgðarmenn. Dr. Tom G. Palmer, forstöðumaður alþjóðasviðs Atlas Network, kvaðst hafa áhyggjur af þróuninni víða í átt frá lýðræði og frelsi.

Allar þessar fróðlegu ræður eru á Netinu. Það setti síðan notalegan blæ á starfslokin, að forseti Íslands, dr. Guðni Th. Jóhannesson, tók á móti ræðumönnum og fleiri gestum á Bessastöðum, jafnframt því sem forseti Alþingis, Birgir Ármannsson, sýndi erlendum gestum Alþingishúsið og fjármálaráðherra bauð ræðumönnum og fleiri gestum í Ráðherrabústaðinn að ráðstefnunni lokinni.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 24. júní 2023.)KjartanSpeakingDinner

ParliamentVisit.12.05.2023BjornBj.HHG.12.05.2023.WEB1. Bessastadir.11.05.2023

 

Tom G. Palmer.12.05.2023 WEB 66

HrynkospeaksWinkelmannspeaks

 

 

ThorWhitehead.12.05.2023.WEB

Bruce Caldwell WEB 41

Macedo facing audience WEB 52

Thrainn Eggertsson WEB 49

Gabriela von Habsburg 1 WEB 48

Bjarni Benediktsson WEB 42

 

 

Barbara Kolm WEB 36


Helsinki, maí 2021

HHG.Helsinki.20.05.2023Helsinki er falleg og notaleg borg, með norrænu yfirbragði. Þar flutti ég erindi á ráðstefnu norrænna íhaldsstúdenta 20. maí 2023 um, hvað skildi norræna frjálshyggju frá sambærilegum stefnum í öðrum Evrópulöndum. Ég benti á, að norrænar þjóðir hefðu allt frá frumdögum germanskrar menningar átt sér hugmynd um sjálfstjórn einstakra ættbálka, sem farið hefði fram með því, að menn hefðu komið saman á þingum og ráðið ráðum sínum, eins og rómverski sagnritarinn Tacitus sagði frá í Germaníu. Til hefði orðið norrænn réttur, viðleitni bænda til að halda konungum í skefjum, sem lýst væri í ræðum Þorgeirs Ljósvetningagoða og Þorgnýs lögmanns hins sænska, svo að ekki sé minnst á orð Einars Þveræings. Þessari hugmynd um lög sem sammæli borgaranna frekar en fyrirmæli að ofan sjái líka stað í hinum Jósku lögum frá 1241, en þau hefjast einmitt á því, að með lögum skuli land byggja. Enn fremur eru reglur fyrir dómara eftir Olaus Petri frá um 1525 í sama anda.

Tvisvar hefði verið reynt að rjúfa hina norrænu hefð laga og réttar, fyrst þegar einvaldskonungar hefðu seilst til valda á síðmiðöldum og eftir það og síðan þegar svokallaðir jafnaðarmenn hefðu öðlast víðtæk völd á tuttugustu öld í krafti fjöldafylgis. En einveldi í vaðmálsklæðum væri engu skárra en purpuraklætt einveldi, sagði danski frjálshyggjumaðurinn Nathan David á nítjándu öld. Aðalatriðið væri að takmarka ríkisvaldið, ekki í höndum hvers það væri. Ég benti á, að jafnt konungar sem jafnaðarmannaleiðtogar hefðu þó þurft að laga stefnu sína að hinni fornu norrænu hefð, og raunar hefði jafnaðarstefna látið undan síga í lok tuttugustu aldar. Velgengni Norðurlanda væri aðallega vegna öflugs réttarríkis, frjálsra alþjóðaviðskipta, mikillar samkenndar og ríks trausts manna í milli, en úr því kynni að draga með fjöldainnflutningi fólks, ef það vildi ekki semja sig að norrænum siðum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 17. júní 2023.)


Fólksfjölgun og hlýnun jarðar

Íslandsvinurinn David D. Friedman flutti fróðlegt erindi á ráðstefnu, sem ég sótti í apríl 2023. Hann kvað fyrstu fræðigrein sína hafa verið um fólksfjölgun, en skoðanir á henni fyrir hálfri öld hefðu verið svipaðar og nú um hlýnun jarðar. Um mikla vá hefði átt að vera að ræða. Hann hefði komist að þeirri niðurstöðu, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort viðbótareinstaklingar hefðu hreinan kostnað eða hreinan ábata í för með sér fyrir aðra. Hrakspár um afleiðingar fólksfjölgunar hefðu hins vegar ekki ræst.

Friedman kvaðst rökræðunnar vegna nota spár og greiningu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar: Líklega myndi jörðin hlýna um eitt til þrjú stig næstu hundrað ár, og talsvert af þeirri hlýnun yrði af manna völdum. Með því að brenna  jarðefni og losa koltvísýring út í andrúmsloftið legðu menn kostnað á aðra.

En Friedman benti á, að hlýnunin hefði í för með sér ábata ekki síður en kostnað. Vissulega myndi akuryrkja breytast og ýmis mannvirki verða ónýt. En hlýnunin yrði tiltölulega hæg, og akuryrkja væri hvort sem er sífellt að breytast og mannvirki að endurnýjast. Hlýnun væri æskileg, þar sem kalt væri, og óæskileg, þar sem hlýtt væri. En eðlisfræðin kenndi, að hún kæmi misjafnt niður. Hitastig hækkaði meira á vetrum en sumrum og meira í köldum löndum en heitum. Friedman minnti á, að talsvert færri deyja í hitabylgjum en kuldaköstum. Gróður jarðar myndi aukast talsvert og sum svæði verða byggileg, þótt önnur færu í kaf.

Niðurstaða Friedmans var, að ógerlegt væri að meta tölulega, hvort líkleg hlýnun jarðar af manna völdum hefði í för með sér hreinan kostnað eða hreinan ábata. Hann minnti á, að loftslagið væri ekki gert fyrir mennina, heldur þyrftu menn að laga sig að loftslaginu. Mannkyn hefði í sögu sinni oft orðið að sætta sig við miklu krappari sveiflur í loftslagi en nú væri spáð, og á jörðu væri loftslag líka mjög breytilegt frá einum stað til annars.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 3. júní 2023.)


Óhappamenn frekar en friðflytjendur

Palme.Castro.1975Al Gore þakker sér netið, eins og alræmt er, og nú fer Ólafur Ragnar Grímsson ískyggilega nálægt því að eigna sér frið í heiminum. Sagði hann í viðtali við Sjónvarpið 14. maí, að frumkvæði sex þjóðarleiðtoga árið 1984, sem hann kom að, þótt hann væri ekki einn leiðtoganna, hefði mjög stuðlað að friði. Þetta er fjarri lagi. Kalda stríðinu lauk með fullum sigri Vesturveldanna af tveimur ástæðum.

Hin fyrri var sú, sem austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði þegar sagt fyrir um á hagfræðingafundi í Vín í janúar 1920: Í miðstýrðu hagkerfi er miklu erfiðara að nýta sérþekkingu einstaklinganna en í dreifstýrðu, og þegar til lengdar lætur, dregst það þess vegna aftur úr. Seinni ástæðan var sú, að um 1980 stigu fram tveir öflugir leiðtogar lýðræðisríkja, þau Margrét Thatcher og Ronald Reagan. Þau efldu svo varnir Vesturlanda, að Kremlverjar sáu sitt óvænna og gáfust í raun upp. Kommúnisminn hrundi, ekki með braki, heldur snökti.

Aldrei kom neitt annað frá málvinum Ólafs Ragnars sex en frómar yfirlýsingar, og raunar voru sumir þeirra óhappamenn eins og Raúl Alfonsin í Argentínu, Julius Nyerere í Tansaníu, Olof Palme í Svíþjóð og Rajiv Gandhi á Indlandi. Argentína, sem verið hafði eitt ríkasta land heims um aldamótin 1900, var löngum á tuttugustu öld undir stjórn óábyrgra lýðskrumara, sem kunnu það ráð eitt að herða á seðlaprentun. Tansanía þáði meiri þróunaraðstoð en flest önnur ríki, en varð skýrt dæmi um aðstoð án þróunar, á meðan Hong Kong varð jafnskýrt dæmi um þróun án aðstoðar. Ríkisafskipti jukust svo í Svíþjóð undir forystu Palmes, að öll nýsköpun hvarf, og urðu Svíar að breyta um stefnu í lok níunda áratugar. Hagvöxtur á Indlandi tók ekki við sér, fyrr en eftir að Indverjar sneru frá áætlunarbúskap og ofstýringu Nehru- og Gandhi-fjölskyldunnar, sem fylgt hafði verið illu heilli frá 1947 til 1991.     

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 20. maí 2023. Myndin sýnir Olof Palme munda byssu í heimsókn hjá einræðisherranum Fidel Castro á Kúbu, en um 40 þúsund manns féllu af völdum kúbversks kommúnisma, hundruð þúsunda voru geymd í þrælkunarbúðum og tíundi hluti þjóðarinnar flýði, ein milljón manna.)


Lissabon, apríl 2023

HHG.23.04.2023Á fjölmennri ráðstefnu evrópskra frjálshyggjustúdenta í Lissabon 22.–23. apríl var sérstök dagskrá helguð mér í tilefni sjötugsafmælis míns og starfsloka í Háskóla Íslands. Robert Tyler, sérfræðingur í hugveitunni New Direction í Brüssel, ræddi við mig. Ég sagði samkomunni, að þrjár bækur hefðu haft mest áhrif á mig ungan, The Gulag Archipelago eftir Aleksandr Solzhenítsyn, The Open Society and Its Enemies eftir Karl Popper og The Road to Serfdom eftir Friedrich von Hayek. Hefði Hayek komið til Íslands í apríl 1980 og Milton Friedman í ágúst 1984, og hefðu fyrirlestrar þeirra vakið mikla athygli. Hitti ég þá tvo oft eftir það, en einkennilegt er til þess að vita, að ekki eru nú margir á lífi, sem kynnst höfðu þessum andans jöfrum jafnvel og ég.  

Mörgum ráðstefnugestum þótti merkilegt, að ég hefði haustið 1984 rekið ásamt nokkrum vinum ólöglega útvarpsstöð í því skyni að mótmæla ríkiseinokun á útvarpsrekstri. Eftir eltingarleik í röska viku fann lögreglan loks stöðina og lokaði, og hlaut ég eftir það minn fyrsta dóm og hinn eina, sem ég er stoltur af. En við náðum tilgangi okkar, því að í framhaldinu samþykkti Alþingi að afnema ríkiseinokunina.

Ég sagði líka frá hinum víðtæku umbótum, sem Davíð Oddsson og aðrir samherjar mínir beittu sér fyrir upp úr 1991, en kostir þeirra sáust best á því, hversu snöggir Íslendingar voru að rétta úr kútnum eftir bankahrunið 2008. Rifjaði ég upp, þegar ég fór með Davíð í Hvíta húsið 6. júlí 2004, en þar sungum við í Ávölustofu (Oval Office) afmælissönginn alkunna fyrir Bush Bandaríkjaforseta, því að hann varð 58 ára þennan dag, þótt ekki væri söngurinn jafnkliðmjúkur og þegar Marilyn Monroe söng forðum fyrir Kennedy forseta, eins og Colin Powell utanríkisráðherra, sem stóð þá við hlið mér, hafði orð á við mig.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. maí 2023.)


Athugasemd við sjómannadagsræðu Kára Stefánssonar í Grindavík

Þessi ræða er ekkert annað en lýðskrum. Ég skal reyna að skýra í örstuttu máli, hvers vegna kvótakerfið er í senn réttlátt, arðbært og sjálfbært. Fiskihagfræðin og raunar auðlindahagfræði almennt kennir okkur, að ótakmarkaður (ókeypis) aðgangur að takmarkaðri auðlind hefur í för með sér ofnýtingu hennar. Á einhvern hátt varð að takmarka aðgang að fiskistofnunum á Íslandsmiðum, ella hefðu þeir haldið áfram að vera ofnýttir, eins og þeir sannarlega voru áður fyrr: sextán bátar voru að landa afla, sem átta bátar hefðu hæglega getað landað. Brugðið var á það eðlilega og nánast óumflýjanlega ráð að takmarka aðganginn við þá, sem þegar voru að nýta fiskistofnana, enda hafði það í för með sér minnsta röskun fyrir þá og fyrir þjóðarheildina.

Smám saman kom í ljós, að hagkvæmast var að takmarka aðganginn með aflaheimildum, sem væru varanlegar og framseljanlegar. Þá lenti rétturinn til að veiða smám saman í frjálsum viðskiptum með kvóta í hendur þeirra, sem best voru fallnir til útgerðar sökum áhuga eða útsjónarsemi. Og af því að kvótarnir voru varanlegir (ótímabundnir), fóru útgerðarmenn að hafa áhuga á því að gera auðlindina sem arðbærasta til langs tíma litið, en láta ekki aðeins greipar sópa til skamms tíma. Þeir fóru að hegða sér eins og eigendur, ekki leigjendur, og sættu sig til dæmis við stórkostlega skerðingu á hámarksafla, þegar það var nauðsynlegt.

Þessar miklu breytingar fóru friðsamlega fram. Smám saman minnkaði sóknin niður í það, sem hagkvæmast var, og útgerðarfyrirtækin gátu einbeitt sér að því að veiða sem hagkvæmast upp í sinn kvóta. Fiskveiðarnar urðu líka öruggari og skipin betri. Það er engin tilviljun, að fyrsta árið, þegar enginn drukknaði við veiðar á Íslandsmiðum, var árið 2008. Veiðarnar voru orðnar vel skipulagðar. En var þá einhver réttur tekinn af öðrum Íslendingum en þeim, sem fengu aflaheimildirnar upphaflega í samræmi við aflareynslu? Já, rétturinn til að veiða á núlli, því að fiskihagfræðin kennir okkur, að sókn við opinn (ótakmarkaðan og ókeypis) aðgang aukist, þangað til öllum hugsanlegum gróða hefur verið sóað í sóknarkostnað.

Vissulega græddu útgerðarmenn á þessari breytingu, en sá gróði var ekki tekinn af neinum, heldur myndaðist hann við það, að veiðarnar urðu hagkvæmari, átta bátar fóru að landa afla, sem sextán bátar höfðu áður gert. Og sá gróði skilaði sér auðvitað miklu betur út í þjóðlífið en hann hefði gert, hefði ríkið hirt hann í skatta (auk þess sem hann hefði þá orðið miklu minni). Menn sjá ofsjónum yfir því, að einhverjir seldu sínar aflaheimildir og fóru út úr sjávarútvegi. En það var einn af höfuðkostum kerfisins. Ætlunin var einmitt að minnka sóknina! Menn voru keyptir út úr greininni í stað þess að vera hraktir út úr henni, eins og gerst hefði, hefði til dæmis aðgangur verið takmarkaður með uppboði ríkisins á aflaheimildum, eins og sumir hagfræðingar uppi í háskóla lögðu til og horfðu þá alveg fram hjá hagsmunum þeirra, sem höfðu gert það að ævistarfi sínu að veiða fisk og höfðu lagt mikið fé í kunnáttu og tæki.

Kerfið er réttlátt, vegna þess að réttur var ekki brotinn á neinum og eini rétturinn skertur, sem var rétturinn til að gera út á núlli, og hann er einskis verður, jafnframt því sem tekið var eðlilegt tillit til hagsmuna þeirra, sem voru að veiðum, þegar kerfið var sett á. Kerfið er arðbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna einbeita sér að því að gera út með sem minnstum tilkostnaði. Og kerfið er sjálfbært, vegna þess að handhafar aflaheimildanna vilja vitanlega fara varlega í meðferð þeirrar auðlindar, sem þeir hafa fengið nýtingarrétt á. Þeir vilja ákveða hámarksafla á hverri vertíð gætilega.

Það er engin tilviljun, að Ísland er eina landið í okkar heimshluta, þar sem sjávarútvegur er arðbær. Alls staðar annars staðar hokrar hann á ríkisstyrkjum. Eina leiðin til að túlka ákvæðið um þjóðareign er, að ráðstafa þurfi auðlindinni þannig, að þjóðin hafi sem mestan hag af henni, þegar til langs tíma er litið, og það er við núverandi fyrirkomulag. Þjóðin hefði ekki hag af því, að stjórnmálamenn og embættismenn fengju fleiri tækifæri, meira fé, til að bora jarðgöng, niðurgreiða nöldurmiðla, fara á Saga Class á ráðstefnur erlendis og reisa fleiri stórhýsi yfir þingið.


Amsterdam, apríl 2023

HHG.20.04.2023Fyrsta kauphöll heims, sem enn starfar, var stofnuð í Amsterdam árið 1602. Hún hafði lengi aðsetur í reisulegu húsi við Oudebrugsteeg (Gömlubrúarstíg), og þar flutti ég fyrirlestur 20. apríl 2023 í fallegum fundarsal stjórnar kauphallarinnar. Átti það vel við, því að ég varði þar kapítalismann fyrir rökum jöfnunarsinna. Fremstur þeirra fræðilega var bandaríski heimspekingurinn John Rawls, sem setti fram kenningu um réttlæti árið 1971. Hún var í fæstum orðum, að réttlátt væri það skipulag, þar sem hinir verst settu nytu eins góðra lífskjara og framast gæti orðið. Um slíkt skipulag hlytu upplýstir menn, sem vissu þó ekki, hvernig þeim myndi sjálfum vegna í lífinu, að semja.

Ég spurði, hvers vegna upplýstir menn, sem væru að semja um framtíðarskipulag, hefðu aðeins í huga kjör hinna verst settu. Hvað um hina best settu, sem iðulega væru hinir hæfustu? Væri ekki skynsamlegra að semja um öryggisnet, sem enginn félli niður fyrir, en leyfa hinum hæfustu síðan að afla eins hárra tekna og þeir gætu? Rawls horfði líka fram hjá því, hvers vegna sumir lentu í röðum hinna verst settu, til dæmis vegna leti og óráðsíu. Frjálst val einstaklinga á markaði hlyti enn fremur að raska tekjudreifingunni, svo að stundum yrði hún ójafnari, án þess að neinu ranglæti hefði verið beitt. Það væri eitthvað einkennilegt við að segja, að Salieri hefði orðið verr settur við það, að Mozart kom í heiminn.

Hvað sem slíkum röksemdum liði, væri ljóst, sagði ég, að hinir verst settu nytu miklu betri lífskjara við kapítalisma en annars staðar. Væri hagkerfum heims skipt í fernt eftir atvinnufrelsi, reyndust meðaltekjur 10% tekjulægsta hópsins í frjálsasta fjórðungnum hærri en meðaltekjur allra í ófrjálsasta fjórðungnum!

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 10. júní 2023.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband