Gamansemi Grundtvigs um Íslendinga

standard_N-f-s-grundtvig-portræt.v1Einn merkasti Dani allra tíma var Nikolaj F. S. Grundtvig, prestur, sálmaskáld, fornfræðingur, þýðandi, skólamaður, stjórnmálakappi og þjóðmálafrömuður. Hann lagði líklega mest allra af mörkum við að skilgreina og jafnvel skapa danska þjóðarsál, en tvær göfugustu birtingarmyndir hennar voru, þegar öll danska þjóðin tók höndum saman árið 1943 um að bjarga dönskum Gyðingum undan hrammi nasista og þegar Danir skiluðu árið 1971 og lengi eftir það Íslendingum fornum handritum, sem þeir höfðu þó fengið löglega.

Á dögum Grundtvigs var Slésvíkurmálið eitt erfiðasta úrlausnarefni Dana. Konungur Dana var jafnframt hertogi Slésvíkur og Holtsetalands. Holtsetaland var í þýska ríkjasambandinu, en Slésvík ekki. Holtsetaland var alþýskt, en um helmingur Slésvíkurbúa talaði dönsku og hinn helmingurinn þýsku. Palmerston lávarður, forsætisráðherra Breta, andvarpaði, þegar minnst var á Slésvíkurmálið: „Það eru ekki nema þrír menn, sem hafa skilið það, Albert drottningarmaður, sem er látinn, þýskur prófessor, sem gekk síðan af vitinu, og ég, og ég hef gleymt öllu um hana.“ Grundtvig vildi leysa málið með því að skipta Slésvík eftir vilja íbúanna, en fékk dræmar undirtektir landa sinna, sem vildu óðfúsir innlima Slésvík alla, líka svæði þýskumælandi manna. Eitt sinn sagði Grundtvig þó í gamni við prófessor Carsten Hauch: „Væri ekki ráð að flytja Slésvíkinga til Íslands og Íslendinga til Slésvíkur? Þá yrði langt í það, að Íslendingarnir yrðu fyrir þýskum áhrifum, og þeir gætu orðið traustir landamæraverðir.“

Auðvitað sagði Grundtvig þetta í gamni. Slésvíkurmálinu lauk í bili árið 1864 með því, að Prússar og bandamenn þeirra lögðu undir sig Slésvík og Holtsetaland eftir blóðuga bardaga við Dani. (Um þetta hafa verið gerðir áhrifamiklir sjónvarpsþættir undir nafninu 1864.) En raunar leystist málið að lokum eins og Grundtvig vildi, þegar íbúar Norður-Slésvíkur greiddu atkvæði um það árið 1920, hvort þeir yrðu í Danmörku eða Þýskalandi, og völdu hinir dönskumælandi Slésvíkingar Danmörku, svo að landamærin færðust friðsamlega suður á bóginn.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 26. ágúst 2023.)


Þrír norrænir spekingar

Snorri.21369486431_83a0b9e526_oNorðurlandaþjóðir þurftu ekki að sækja frjálshyggju til annarra. Margar hugmyndir hennar voru rótgrónar á Norðurlöndum. Íslenski sagnritarinn Snorri Sturluson (1179–1241) lýsti því í Heimskringlu, hvernig Norðurlandaþjóðir leiddu eins og aðrar germanskar þjóðir mál til lykta á samkomum, og urðu konungar að beygja sig fyrir lögunum og samþykktum alþýðu. Ella voru þeir settir af. Snorri var höfundur einnar fyrstu Íslendinga sögunnar, Egils sögu, en tvö meginstef Íslendingasagna voru, að konungar væru varasamir og menn gætu leyst flest mál sín sjálfir án afskipta þeirra. Íslendingasögur voru um sérstöðu okkar, leitina að jafnvægi í ríkisvaldslausu landi.  

Sænsk-finnski presturinn Anders Chydenius (1729–1803) sat á sænska stéttaþinginu og fékk Svía til að setja lög til tryggingar málfrelsi, jafnframt því sem hann mælti með viðskiptafrelsi, því að það væri öllum í hag. Hann hafði greint hinar slæmu afleiðingar, sem einokun hafði á verslun yfir Eystrasalt. Bók hans með þessum boðskap, Þjóðarhagur, kom út ellefu árum á undan Auðlegð þjóðanna eftir Adam Smith.

Danski presturinn, sálmaskáldið og rithöfundurinn N. F. S. Grundtvig (1783–1872) hugleiddi, hvernig valdið gæti flust frá konungi til almennings, án þess að frelsinu væri fórnað, eins og hafði gerst í frönsku stjórnarbyltingunni. Þessu marki mætti ná með því að auka menntun almennings, sérstaklega í lýðháskólum, og með því að nýta samtakamátt einstaklinga í frjálsum félögum, þar sem þeir lærðu að semja sig hver að öðrum og finna sér tilgang. Grundtvig lagði líka mikla áherslu á hina norrænu arfleifð og sneri á dönsku Heimskringlu Snorra og Danmerkursögu Saxos. Hann efldi þjóðarvitund Dana, kenndi þeim að reyna ekki að vinna önnur lönd, heldur afla nýrra markaða.

Velgengni Norðurlandaþjóða er þrátt fyrir jafnaðarstefnu, ekki vegna hennar. Skýringin á því, að þeim hefur vegnað tiltölulega vel, er, að þær búa við öflugt réttarríki, frjáls alþjóðaviðskipti og mikla samleitni, sem leiðir til ríks gagnkvæms trausts og auðveldar öll frjáls samskipti. Þeir Snorri, Chydenius og Grundtvig sköpuðu ekki hina norrænu arfleifð, því að hún skapaðist á löngum tíma. En þeir lýstu henni vel. Þeir eru merkustu frjálshyggjuhugsuðir Norðurlanda.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 12. ágúst 2023.)


Undrunarefni Sigurðar

Nordiske_flagEnglendingar eru stoltir af því, að með þeim mynduðust snemma venjur, sem stuðluðu að frjálslyndu lýðræði: allir væru jafnir fyrir lögum, en fulltrúasamkomur veittu konungum aðhald. Í merkri ritgerð í ritinu Nordic Democracy árið 1981 bendir prófessor Sigurður Líndal þó á, að Norðurlandaþjóðir bjuggu við svipaðar venjur. Þegar í fornöld lýsti rómverski sagnritarinn Tacitus því, hvernig Germanir komu saman á þingum og leiddu mál til lykta. Þá er heilagur Ansgar fór í kristniboðsferð til Svíþjóðar árið 852, sagði sænskur konungur honum: „Við höfum þá venju, að fólkið sjálft ráði fram úr almennum málum og ekki konungurinn.“

Í Noregi, Danmörku og Svíþjóð leiddu menn fram eftir öldum mál til lykta á svæðisþingum. Fóru þingin með dómsvald og raunar einnig með löggjafarvald, sem takmarkaðist þó af fornum venjum. Misnotuðu konungar vald sitt, mátti setja þá af, eins og víða getur í Heimskringlu. Til að konungar næðu kjöri, urðu þeir að lofa að virða lög og venjur. Stéttaþing voru síðan stofnuð í Svíþjóð 1435 og í Danmörku 1468. Enn fremur urðu konungar að samþykkja margvíslegar réttindaskrár, til dæmis Eiríkur klippingur Danakonungur árið 1282 og Magnús smek Svíakonungur árið 1319. Voru þær ekki síðri ensku réttindaskránni frægu Magna Carta frá 1215.

Ólíkt því sem varð á Englandi, gátu konungar í Svíþjóð og Danmörku þó aukið völd sín um skeið á sextándu og sautjándu öld. Þegar þegnar þeirra kröfðust síðan aukinna stjórnmálaréttinda á átjándu og nítjándu öld, voru kröfurnar oftast studdar enskum hugmyndum. Sigurður Líndal undrast að vonum, að ekki skyldi líka vísað til hins norræna stjórnmálaarfs, sem skýri, hversu djúpum rótum frjálslynt lýðræði gat skotið á Norðurlöndum.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 5. ágúst 2023.)


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband