29.6.2019 | 07:48
Söguleg epli
Á dögunum rakst ég á skopteikningu, þar sem þjónn gengur með epli á bakka að borði, og sitja þar ýmsar kunnar söguhetjur. Fyrst skal telja þau Adam, Evu og höggorminn. Þegar höggormurinn hafði vélað Adam og Evu til að eta af skilningstrénu, kallaði Drottinn til Adams: Hvar ertu? Adam varð svo hræddur, að ávöxturinn stóð í honum og Adamseplið myndaðist. Önnur saga er um þrætueplið, sem falla átti í skaut fegurstu gyðjunni grísku, og Paris af Tróju veitti Afrodítu, eftir að honum hafði verið lofuð Helena hin fagra frá Spörtu. Samkvæmt norrænni goðafræði áttu epli Iðunnar að veita goðunum eilífa æsku, þótt ekki væri ásynjan raunar sýnd á skopteikningunni, kveikju þessa mola.
Í þýska miðaldaævintýrinu um Mjallhvíti segir, að hin illa stjúpa hennar hafi eitrað epli og gefið stúpdóttur sinni, og hafi hún þá fallið í dá. Walt Disney gerði fræga teiknimynd eftir ævintýrinu, en eins og ég hef áður bent hér á, var þar fyrirmynd Mjallhvítar íslensk stúlka, Kristín Sölvadóttir. Í svissneskri þjóðsögu er frá því hermt, að árið 1307 hafi fógeti Habsborgara í Uri-fylki reiðst bogaskyttunni Vilhjálmi Tell, sem vildi ekki beygja sig undir stöng með hatti fógetans. Gaf hann Vilhjálmi kost á því að bjarga lífi sínu og sonar síns, ef hann hitti á epli, sem sett var á höfuð drengsins í hundrað skrefa fjarlægð. Vann Vilhjálmur þetta afrek og gerðist einn af leiðtogum sjálfstæðisbaráttu Svisslendinga. Minnir sagan á þátt af Hemingi Áslákssyni, sem þreytti skotfimi við Harald harðráða. Þegar hann varð hlutskarpari, reiddist konungur og skipaði Hemingi að skjóta í hnot á höfði bróður hans, og tókst honum það.
Oft hefur verið sögð sagan af Ísaki Newton, þegar epli féll á höfuð hans árið 1666, þar sem hann lá upp við tré í garði móður sinnar í Lincoln-skíri, en eftir það uppgötvaði hann þyngdarlögmálið. Stórborgin Nýja Jórvík, New York, er stundum kölluð Stóra eplið, en uppruninn mun vera í ádeiluriti frá 1909, þar sem sagt var, að þetta stóra epli drægi til sín of mikið af hinum bandaríska þjóðarsafa. Nú þekkja margir epli aðallega af tölvufyrirtækinu Apple. Steve Jobs, stofnandi þess, kveðst hafa valið nafnið, eftir að hann hafði verið nokkurn tíma á ávaxtafæði einu saman. Sér hefði fundist nafnið skemmtilegt, óáleitið og andríkt.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 29. júní 2010.)
27.6.2019 | 18:22
Hvern hefði það skaðað?
Vasílíj Grossman var einn snjallasti rithöfundur Rússlands á valdadögum kommúnista, en fátt eitt hefur verið frá honum sagt á Íslandi. Hann var af gyðingaættum, fæddist í Úkraínu 1905 og varð efnaverkfræðingur. Á fjórða áratug tók hann að gefa sig að skrifum, en gat sér fyrst orð, þegar hann gerðist stríðsfréttaritari og lýsti meðal annars aðkomunni að útrýmingarbúðum nasista. Eftir stríð gældi Stalín við gyðingaandúð og bannaði útkomu svartbókar, sem Grossman og Ílja Erenbúrg höfðu tekið saman um gyðingaofsóknir nasista. Grossman fékk ekki heldur að gefa út tvær mestu skáldsögur sínar, Líf og örlög og Allt fram streymir, því að þær þóttu fjandsamlegar kommúnismanum.
Grossman lauk við Líf og örlög 1960, fjórum árum áður en hann féll frá, ekki orðinn sextugur. Sögusviðið er að nokkru leyti Stalínsgarður 1943, þar sem alræðisríkin tvö, Þýskaland Hitlers og Rússland Stalíns, börðust upp á líf og dauða. Höfundur lætur þá skoðun oftar en einu sinni í ljós, að nasismi og kommúnismi séu greinar af sama meiði. Hann veltir mjög fyrir sér því furðulega fyrirbæri tuttugustu aldar, að menn fremja hryllilega glæpi í nafni háleitra hugsjóna. Ein söguhetjan, rússneski stríðsfanginn Pavljúkov, átti sér hins vegar hversdagslegan draum:
Frá því að ég var krakki, hefur mig langað að reka eigin búð, þar sem menn gætu keypt allt, sem þá vantaði. Með litlum veitingastað. Jæja, núna hefurðu verslað nóg, nú skaltu fá þér bjór, smávegis af vodka, bita af grilluðu kjöti! Ég hefði boðið upp á sveitamat. Og ég hefði ekki sett upp hátt verð. Bakaðar kartöflur! Fitusprengt beikon með hvítlauk! Súrkál! Og veistu, hvað ég hefði látið fólk fá með drykkjunum? Merg úr beinum! Ég hefði látið þau malla í pottinum. Jæja, nú hefurðu greitt fyrir vodkað þitt. Nú skaltu fá þér svart brauð og beinmerg! Og ég hefði verið með leðurstóla, svo að engin lús gæti komist að. Þú skalt sitja þarna og láta þér líða vel, við sjáum um þig. Nú, ef ég hefði sagt eitt einasta orð um þetta, þá hefði ég verið sendur beina leið til Síberíu. En ég fæ ekki séð, hvernig þetta hefði skaðað nokkurn mann.
Frjálshyggja snýst um að leyfa Pavljúkovum heimsins að reka búðirnar sínar. Hvern hefði það skaðað?
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 22. júní 2019.)
15.6.2019 | 08:18
Stoltenberg, Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur
Smáríki eru notalegar, mannlegar einingar, þar sem gæði eins og samheldni og gagnsæi njóta sín miklu betur en í stærri ríkjum. En smæðin veldur tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi er markaðurinn lítill í smáríkjum. Þennan vanda má leysa með alþjóðlegu viðskiptafrelsi. Þá njóta smáríki kosta hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Í annan stað eru smáríki auðveld skotmörk stærri ríkja, eins og reynsla áranna milli stríða sýnir best. Þessi vandi var leystur með Atlantshafsbandalaginu undir kjörorðinu: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, heimsótti Ísland á dögunum og hafði mörg orð um það í ræðu í Norræna húsinu 11. júní, hversu vinsamlegur hann væri Íslendingum. Hvernig sýndi hann það, þegar hann var forsætisráðherra Noregs árin 20082009? Ólíkt Færeyingum og Pólverjum, sem veittu okkur í bankahruninu aðstoð án skilyrða, neituðu Norðmenn öllum okkar óskum um aðstoð. Stoltenberg, sem er jafnaðarmaður, lagði flokksbræðrum sínum í Bretlandi, Alistair Darling og Gordon Brown, lið á alþjóðavettvangi og beitti sér gegn því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlypi undir bagga, fyrr en við hefðum gengið að freklegum kröfum Darlings og Browns, sem þá þegar höfðu sett á okkur hryðjuverkalög. (Hryðjuverkalög! Á annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins!)
Norsk stjórnvöld aðstoðuðu síðan norska fjáraflamenn við að sölsa undir sig vænar eignir Glitnis á smánarverði, eins og ég lýsi nákvæmlega í skýrslu minni fyrir fjármálaráðuneytið, sem aðgengileg er á Netinu. Og það var dapurlegt að sjá Stoltenberg skálma um ganga Seðlabankans 27. febrúar 2009 eins og hann væri hér jarl, eftir að undarlegur norskur maður hafði verið ráðinn seðlabankastjóri þvert á stjórnarskrárákvæði um, að allir íslenskir embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar. Það var eins og Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur væru aftur komnir til Íslands.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2019.)
8.6.2019 | 12:57
Upp koma svik um síðir
Vorið 2003 var stutt í þingkosningar. Helsta kosningamál Samfylkingarinnar var, að Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra, væri harðstjóri, sem sigaði lögreglunni á óvini sína. Fréttablaðið, sem þá var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, þótt leynt færi, birti frétt 1. mars um, að stjórn Baugs hefði á öndverðu ári 2002 óttast aðgerðir Davíðs, nokkrum mánuðum áður en lögregla gerði húsrannsókn hjá fyrirtækinu vegna kæru starfsmanns (en sannleiksgildi kærunnar var síðar staðfest af dómstólum). Hafði fundargerðum stjórnarinnar verið lekið í Fréttablaðið. Jón Ásgeir, aðaleigandi Baugs, birti þá yfirlýsingu um, að lekinn væri ekki frá sér. Ritstjóri blaðsins, Gunnar Smári Egilsson, staðfesti þá yfirlýsingu opinberlega. En fáir hafa veitt því athygli, að höfundur fréttarinnar hefur upplýst málið. Reynir Traustason segir beinlínis í bók sinni, Afhjúpun, sem kom út árið 2014, að þessi yfirlýsing sé ósönn (97. bls.). Það merkir auðvitað á mannamáli, að lekinn var frá Jóni Ásgeiri.
Vorið 2009 var aftur stutt í þingkosningar. Þá birti Stöð tvö, sem var í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, frétt um það, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið við 30 milljón króna styrk frá FL Group árið 2006, en það var síðasta ár án takmarkana á styrkjum til stjórnmálaflokka. Allir flokkar flýttu sér þá að upplýsa um styrki frá fyrirtækjum það ár. Samfylkingin sagðist (í Fréttablaðinu 11. apríl) hafa fengið 36 milljónir í styrki yfir 500 þúsund krónur frá fyrirtækjum, en Sjálfstæðisflokkurinn kvaðst hafa fengið 81 milljón í styrki yfir eina milljón. Kjósendur gengu með þessar upplýsingar inn í kjörklefann og veittu Sjálfstæðisflokknum ráðningu. En í janúar 2010 birtist skýrsla Ríkisendurskoðunar um styrki fyrirtækja til stjórnmálaflokka árið 2006. Í ljós kom, að Sjálfstæðisflokkurinn hafði þetta ár fengið samtals 104 milljónir króna, sem er í góðu samræmi við veittar upplýsingar, því að munurinn fólst í smærri styrkjum en einni milljón. En Samfylkingin, hafði þá fengið samtals 102 milljónir króna frá fyrirtækjum. Aldrei hefur verið veitt nein skýring á þessu hróplega misræmi. Í Morgunblaðinu 12. janúar 2006 hafði einn samkennari minn, Margrét S. Björnsdóttir, einmitt skrifað: Það getur verið hætta á að orðtakið; æ sér gjöf til gjalda, eigi við í einhverjum tilvikum og því mikilvægt að öll stærri framlög séu opinber.
Æ sér gjöf til gjalda, sagði Margrét. Upp koma svik um síðir, segjum við hin.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 8. júní 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:11 | Slóð | Facebook
8.6.2019 | 12:48
Talnameðferð Pikettys
Hið nýja átrúnaðargoð jafnaðarmanna, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, telur fjármagn hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að leggja verði á alþjóðlega ofurskatta, 80% hátekjuskatt og 5% stóreignaskatt. Máli sínu til stuðnings þylur hann í bókinni Fjármagni á 21. öld tölur um þróun eigna- og tekjudreifingar í mörgum vestrænum löndum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að baki þeim liggja að hans sögn margra ára rannsóknir.
En sýna gögn, að eigna- og tekjudreifing hafi orðið miklu ójafnari síðustu áratugi? Um það má efast. Sumar tölur Pikettys virðast vera mælingaskekkjur frekar en niðurstöður áreiðanlegra mælinga. Til dæmis er eina ástæðan til þess, að eignadreifing mælist nú ójafnari í Frakklandi og víðar en áður, að fasteignaverð hefur rokið upp. Því veldur aðallega tvennt: Ríkið hefur haldið vöxtum óeðlilega langt niðri, og einstök bæjarfélög hafa skapað lóðaskort á margvíslegan hátt, meðal annars með ströngu bæjarskipulagi. (Við Íslendingar þekkjum þetta hvort tveggja.) Ef hins vegar er litið á arð af því fjármagni, sem bundið er í fasteignum, þá hefur hann ekki aukist að ráði síðustu áratugi. Þess vegna er hæpið að tala um, að eignadreifing hafi orðið til muna ójafnari.
Tölur Pikettys um ójafnari tekjudreifingu í Bandaríkjunum vegna skattalækkana Ronalds Reagans virðast líka helst vera mælingaskekkjur. Árið 1981 var jaðarskattur á fjármagnstekjur lækkaður úr 70% í 50%. Þá brugðust fjármagnseigendur við með því að selja skattfrjáls verðbréf á lágum vöxtum, til dæmis skuldabréf bæjarfélaga, og kaupa þess í stað arðbærari verðbréf og aðrar eignir. En þótt tekjudreifingin hefði því ekki breyst, svo að heitið gæti, mældist hún ójafnari. Árið 1986 var jaðarskattur á tekjur síðan lækkaður úr 50% í 28%. Þetta hvatti hátekjufólk eins og lækna og lögfræðinga til að vinna meira og greiða sér frekar laun beint í stað þess að taka tekjurnar út í fríðindum eins og kaupréttar- og lífeyrissamningum. Enn þarf ekki að vera, að tekjudreifingin hefði breyst verulega, þótt hún mældist ójafnari. Piketty notaði líka tölur um tekjur fyrir skatt, en tekjudreifingin var vitanlega miklu jafnari eftir skatt.
Margar fróðlegar greinar um gallana á talnameðferð Pikettys birtast í bókinni Anti-Piketty, sem Cato Institute í Washington gaf út árið 2017.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:50 | Slóð | Facebook
25.5.2019 | 08:25
Viska og viðkvæmni í sögu Austens
Í áróðri sínum fyrir ofursköttum á auðmenn vitnar franski hagfræðingurinn Thomas Piketty óspart í skáldsögur þeirra Honorés de Balzacs og Jane Austens: Nú sé dreifing tekna og eigna að verða eins ójöfn og á dögum þeirra, á öndverðri nítjándu öld. Ég hef þegar bent á, að skáldsaga Balzacs, Faðir Goriot, er ekki um óviðráðanlega upphleðslu auðs, heldur fallvelti hans. Skáldsaga Austens, Viska og viðkvæmni (Sense and sensibility), styður ekki heldur hugmyndir Pikettys.Flestir þekkja eflaust þessa skáldsögu af verðlaunamynd Emmu Thompsons eftir henni. Hún er um Dashwood-systurnar þrjár, sem standa skyndilega uppi tekjulágar og eignalitlar, eftir að faðir þeirra fellur frá og eldri hálfbróðir þeirra efnir ekki loforð um að sjá fyrir þeim. Hrekjast þær ásamt móður sinni af óðalinu, þar sem þær höfðu alist upp. En þetta segir okkur ekkert um þá tekjudreifingu samkvæmt frjálsu vali á markaði, sem Piketty hefur þyngstar áhyggjur af, heldur sýnir aðeins, hversu ranglátur óðalsrétturinn forni var, þegar elsti sonur erfði ættarjörðina óskipta. Þetta sýnir líka, hversu ranglátt það var, þegar stúlkur nutu ekki erfða til jafns við syni. Nú á dögum eru báðar þessar reglur fallnar úr gildi.
Leiða má þetta í ljós með hinum kunna Gini-mælikvarða á tekjudreifingu. Þegar einn aðili í hóp hefur allar tekjurnar, er Gini-stuðullinn 1, en þegar allir í honum hafa sömu tekjur, er hann 0. Hefðu Dashwood-systurnar erft sama hlut og hálfbróðir þeirra, eins og verið hefði á okkar dögum, þá hefði Gini-stuðullinn um tekjur þeirra eða eignir verið 0. En af því að hálfbróðirinn erfði allt einn, var hann 1.
Elsta Dashwood-systirin, Elinor, er skynsöm og jarðbundin, en systir hennar, Marianne, lætur iðulega tilfinningarnar ráða. Marianne verður ástfangin af hinum glæsilega John Willoughby, sem lætur fyrst dátt við hana, en kvænist síðan til fjár, eftir að hann hafði sólundað arfi sínum, og er það eitt dæmið af mörgum úr skáldsögum Balzacs og Austens um fallvelti auðsins. Allt fer þó vel að lokum. Marianne lætur skynsemina ráða, og þær Elinor giftast mönnum, sem þær treysta. Nú á dögum hefðu þær líka haldið út á vinnumarkaðinn og orðið fjárhagslega sjálfstæðar. Kapítalisminn leysti fólk úr álögum, ekki síst konur.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 25. maí 2019.)
21.5.2019 | 16:26
Auðnum fórnað fyrir ástríður
Í bókinni Fjármagni á 21. öld heldur Thomas Piketty því fram, að auður sé að hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að þjóðskipulagið sé að verða svipað því, sem var á fyrri hluta 19. aldar, þegar dreifing tekna og eigna var mjög ójöfn. Piketty vitnar óspart í skáldsögu Honorés de Balzacs, Föður Goriot, máli sínu til stuðnings, en hún kom út í íslenskri þýðingu Sigurjóns Björnssonar árið 2017.Þegar sú saga er hins vegar lesin, sést, að hún er ekki um það, að auðurinn festist í höndum einstakra manna, heldur einmitt um hitt, hversu fallvaltur hann sé. Goriot var auðugur kaupmaður, sem elskaði dætur sínar tvær út af lífinu og hafði afhent þeim nær allt sitt fé. Hann er dæmi um mann, sem lætur ástríður ráða, ekki fégirnd. Dætur hans, sem giftust aðalsmönnum, eru báðar í fjárhagsvandræðum, því að friðlar þeirra eru þurftafrekir, en eiginmennirnir naumir á fé. Grípur önnur þeirra til þess óyndisúrræðis að hnupla ættardýrgripum eiginmannsins og selja.
Aðalsöguhetjan, sem býr á sama fátæklega gistiheimilinu og Goriot, hinn ungi og metnaðargjarni Eugène de Rastignac, lifir langt umfram efni. Piketty vitnar óspart í ræðu, sem dularfullur náungi á gistiheimilinu, Vautrin, heldur yfir Rastignac um, hvernig hann eigi að öðlast frama með því að brjóta öll boðorð. En Vautrin hafði sjálfur fórnað starfsframa sínum fyrir myndarlegan afbrotamann, sem hann hafði lagt ást á (og er þetta ein fyrsta lýsingin í franskri skáldsögu á samkynhneigð). Vautrin er að lokum handtekinn fyrir ýmsa glæpi og getur því varla talist heppilegur kennari um það, hvernig eigi að safna auði og öðlast frama.
Í lok ræðu sinnar segir Vautrin, að á bak við illskýranleg auðæfi leynist jafnan einhver óupplýstur glæpur, sem eigi eftir að gleymast. Mario Puzo, höfundur Guðföðurins, einfaldaði síðar þessi orð: Á bak við mikil auðæfi leynist ætíð glæpur. Er sú afdráttarlausa fullyrðing miklu hæpnari en hin, sem Balzac lagði í munn Vautrins. Hvað sem því líður, er skáldsagan Faðir Goriot ekki um auð, heldur vöntun hans.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 18. maí 2019. Myndin er af Balzac.)
11.5.2019 | 08:07
Piketty, auður og erfðir
Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem sendi ári 2014 frá sér bókina Fjármagn á 21. öld, er átrúnaðargoð vinstri manna. Hann vill leggja ofurskatta á stóreignafólk, enda sé velmegun miklu meira áhyggjuefni en fátækt. Telur hann auð í höndum einkaaðila hafa tilhneigingu til þess við óheftan kapítalisma að hlaðast upp: hann vaxi oftast hraðar en atvinnulífið í heild.
Er þetta rétt? Bandaríska tímaritið Forbes birtir árlega lista um ríkustu milljarðamæringa heims. Árið 1987 voru sex af tíu efstu japanskir, aðallega eigendur fasteigna. Auður þeirra er nær allur horfinn. Hinir sænsku Rausing-bræður, sem voru í sjötta sæti, ávöxtuðu fé sitt betur, en þó aðeins um 2,7% á ári. Reichmann-bræður, sem voru í sjöunda sæti, urðu síðar gjaldþrota, þótt einn þeirra ætti eftir að efnast aftur. Kanadíski kaupsýslumaðurinn Kenneth Ray Thomson náði besta árangri á meðal hinna tíu ríkustu í heimi. Hann ávaxtaði fé sitt þó ekki nema um 2,9%. Hagvöxtur er oft meiri.Síðasti listi Forbes er frá 2018. Nú eru sjö af tíu efstu bandarískir, og sköpuðu flestir þeirra auð sinn sjálfur, þar á meðal Jeff Bezos í Amazon, Bill Gates í Microsoft, Mark Zuckerberg í Facebook og fjárfestirinn Warren Buffet. Nú er um tveir þriðju hlutar allra milljarðamæringanna á listanum menn, sem hafa skapað auð sinn sjálfir.
Þessi þróun er enn skýrari, þegar árlegur listi Lundúnablaðsins Sunday Times um þúsund ríkustu menn Bretlands er skoðaður. Árið 2018 höfðu hvorki meira né minna en 94% þeirra orðið auðugir af eigin rammleik. Þegar sá listi var fyrst birtur 1989, átti það aðeins við um 43% þeirra. Þá voru dæmigerðir auðmenn landeigendur, sem skörtuðu aðalstitli. Nú er öldin önnur.
Piketty kann að hafa rétt fyrir sér um, að hlutur auðmanna í heildartekjum sé nú stærri en áður, þótt kjör hinna fátækustu hafi vissulega um leið stórbatnað. En það er vegna þess, að heimskapítalisminn hefur gert þeim kleift að skapa auð, sem ekki var til áður. Þetta eru framkvæmdamenn og frumkvöðlar, skapendur auðs, ekki erfingjar.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2019. Myndin er af Buffett.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 08:15 | Slóð | Facebook
4.5.2019 | 10:19
Piketty um borð í Titanic
Tómas Piketty, helsti spekingur jafnaðarmanna um þessar mundir, hefur miklu meiri áhyggjur af auðmönnum en fátæklingum. Hann vill ekki aðeins dalina upp, heldur líka fjöllin niður, eins og Jón Trausti hefði orðað það. Í bók sinni, Fjármagni á 21. öld, víkur Piketty að feigðarför farþegaskipsins Titanic árið 1912 og segir, að stéttaskiptingin um borð hafi endurspeglað stéttaskiptinguna í Bandaríkjunum. Þótt hinn ógeðfelldi Hockley hafi verið hugsmíð James Camerons, hefði hann getað verið til.
Líking Pikettys er hæpin. Farþegar um borð í skipi hafa keypt miða hver á sitt farrými, svo að segja má, að þeir verðskuldi hver sinn stað. Líklega voru miðarnir á þriðja farrými á Titanic einmitt ódýrari, af því að gestirnir á fyrsta farrými greiddu hátt verð fyrir sína miða. Farþegar á skipi geta sjaldnast flust milli farrýma. En í Bandaríkjunum fyrir 1914 braust fjöldi manns með dugnaði og áræðni úr fátækt í bjargálnir, eins og dæmi margra örsnauðra innflytjenda sýndi.
Hinn ógeðfelldi Hockley var ekki til. Hann var hugsmíð. En margir raunverulegir auðmenn voru farþegar á Titanic. Tveir þeirra, Benjamin Guggenheim og John Jacob Astor IV, neituðu að fara um borð í björgunarbáta, fyrr en allar konur og börn hefðu komist þangað. Báðir fórust með skipinu. Ida og Isidor Strauss, sem áttu vöruhúsakeðjuna Macys, voru einnig farþegar. Ida neitaði að stíga niður í björgunarbát án manns síns. Hún vildi eins og Bergþóra forðum heldur deyja í faðmi manns síns.
Fátækur skipverji, George Symons, varð hins vegar alræmdur, þegar honum var falin umsjá björgunarbáts, sem tók fjörutíu manns. Hann hleypti þangað sex öðrum skipverjum og fimm farþegum af fyrsta farrými, en lagði síðan frá. Fátækir menn þurfa ekki að vera betri en ríkir. Manngæska skiptist eftir öðru lögmáli en andstæðurnar auður og ekla.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 4. maí 2019.)
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:22 | Slóð | Facebook
3.5.2019 | 16:58
Piketty: Tómlæti um fátækt
Munurinn á tveimur helstu spámönnum jafnaðarmanna á okkar dögum, John Rawls og Tómasi Piketty, er, að Rawls hefur áhyggjur af fátækt, en Piketty af auðlegð. Mér finnst skoðun Rawls heilbrigðari. Fátækt er böl, en auðlegð blessun. Ég get sofið á næturnar, þótt öðrum gangi vel.
Ef til vill var þess ekki að vænta, að Piketty gerði fátækt að neinu aðalatriði, því að mjög hefur dregið úr henni í heiminum síðustu áratugi. Samkvæmt nýlegri skýrslu Alþjóðabankans bjó röskur þriðjungur mannkyns við sára fátækt eða örbirgð árið 1990. En aldarfjórðungi síðar, árið 2015, var þessi tala komin niður í einn tíunda hluta mannkyns.
Hundruð milljóna Kínverja hafa brotist úr fátækt til bjargálna vegna þess, að Kína ákvað upp úr 1980 að tengjast alþjóðakapítalismanum. En hagkerfið á meginlandi Kína er aðeins eitt af fjórum kínverskum hagkerfum. Lífskjarabætur hafa orðið miklu meiri í þeim þremur kínversku hagkerfum, sem reist eru á ómenguðum kapítalisma. Árið 2017 var landsframleiðsla á mann 57.700 Bandaríkjadalir í Singapúr, 46.200 í Hong Kong og 24.300 í Taívan, en aðeins 8.800 í Kína. Og frjálsu kínversku hagkerfin þrjú sluppu við ofsakommúnisma Maós, en í hungursneyðinni vegna Stóra stökksins í Kína 19581962 týndu um 44 milljónir manna lífi.
Talnarunur um tekjur mega síðan ekki dylja þá staðreynd, að lífið er almennt orðið miklu þægilegra. Kjör fátæks fólks eru nú jafnvel um margt betri en kjör ríks fólks fyrir tveimur öldum vegna bíla, vatnslagna, húshitunar og húskælingar, ísskápa, síma, netsambands, ódýrra flugferða og ótal annarra lífsgæða. Venjulegur launþegi vann fyrir 186 ljósastundum (Lumen-stundum) um miðja þrettándu öld, en fyrir 8,4 milljónum árið 2018.
Lífið er ekki aðeins orðið betra, heldur lengra. Árið 1751 voru lífslíkur við fæðingu 38 ár í Svíþjóð, en árið 2016 82 ár. Árið 1838 voru lífslíkur við fæðingu 33 ár á Íslandi, en árið 2016 hinar sömu og í Svíþjóð, 82 ár. Heilsa hefur batnað og menntun aukist. Árið 1950 hafði um helmingur mannkyns aldrei gengið í skóla. Árið 2010 var þessi tala komin niður í einn sjöunda hluta mannkyns. Allt skiptir þetta máli í umræðum um auð og eklu.
(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 27. apríl 2019.)