Piketty, auður og erfðir

Franski hagfræðingurinn Tómas Piketty, sem sendi ári 2014 frá sér bókina Fjármagn á 21. öld, er átrúnaðargoð vinstri manna. Hann vill leggja ofurskatta á stóreignafólk, enda sé velmegun miklu meira áhyggjuefni en fátækt. Telur hann auð í höndum einkaaðila hafa tilhneigingu til þess við óheftan kapítalisma að hlaðast upp: hann vaxi oftast hraðar en atvinnulífið í heild.

Er þetta rétt? Bandaríska tímaritið Forbes birtir árlega lista um ríkustu milljarðamæringa heims. Árið 1987 voru sex af tíu efstu japanskir, aðallega eigendur fasteigna. Auður þeirra er nær allur horfinn. Hinir sænsku Rausing-bræður, sem voru í sjötta sæti, ávöxtuðu fé sitt betur, en þó aðeins um 2,7% á ári. Reichmann-bræður, sem voru í sjöunda sæti, urðu síðar gjaldþrota, þótt einn þeirra ætti eftir að efnast aftur. Kanadíski kaupsýslumaðurinn Kenneth Ray Thomson náði besta árangri á meðal hinna tíu ríkustu í heimi. Hann ávaxtaði fé sitt þó ekki nema um 2,9%. Hagvöxtur er oft meiri.

warren-buffett-booksSíðasti listi Forbes er frá 2018. Nú eru sjö af tíu efstu bandarískir, og sköpuðu flestir þeirra auð sinn sjálfur, þar á meðal Jeff Bezos í Amazon, Bill Gates í Microsoft, Mark Zuckerberg í Facebook og fjárfestirinn Warren Buffet. Nú er um tveir þriðju hlutar allra milljarðamæringanna á listanum menn, sem hafa skapað auð sinn sjálfir.

Þessi þróun er enn skýrari, þegar árlegur listi Lundúnablaðsins Sunday Times um þúsund ríkustu menn Bretlands er skoðaður. Árið 2018 höfðu hvorki meira né minna en 94% þeirra orðið auðugir af eigin rammleik. Þegar sá listi var fyrst birtur 1989, átti það aðeins við um 43% þeirra. Þá voru dæmigerðir auðmenn landeigendur, sem skörtuðu aðalstitli. Nú er öldin önnur.

Piketty kann að hafa rétt fyrir sér um, að hlutur auðmanna í heildartekjum sé nú stærri en áður, þótt kjör hinna fátækustu hafi vissulega um leið stórbatnað. En það er vegna þess, að heimskapítalisminn hefur gert þeim kleift að skapa auð, sem ekki var til áður. Þetta eru framkvæmdamenn og frumkvöðlar, skapendur auðs, ekki erfingjar.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 11. maí 2019. Myndin er af Buffett.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband