Stoltenberg, Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur

Smáríki eru notalegar, mannlegar einingar, þar sem gæði eins og samheldni og gagnsæi njóta sín miklu betur en í stærri ríkjum. En smæðin veldur tvenns konar vanda. Í fyrsta lagi er markaðurinn lítill í smáríkjum. Þennan vanda má leysa með alþjóðlegu viðskiptafrelsi. Þá njóta smáríki kosta hinnar alþjóðlegu verkaskiptingar. Í annan stað eru smáríki auðveld skotmörk stærri ríkja, eins og reynsla áranna milli stríða sýnir best. Þessi vandi var leystur með Atlantshafsbandalaginu undir kjörorðinu: Sameinaðir stöndum vér, sundraðir föllum vér.
Framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins, Jens Stoltenberg, heimsótti Ísland á dögunum og hafði mörg orð um það í ræðu í Norræna húsinu 11. júní, hversu vinsamlegur hann væri Íslendingum. Hvernig sýndi hann það, þegar hann var forsætisráðherra Noregs árin 2008–2009? Ólíkt Færeyingum og Pólverjum, sem veittu okkur í bankahruninu aðstoð án skilyrða, neituðu Norðmenn öllum okkar óskum um aðstoð. Stoltenberg, sem er jafnaðarmaður, lagði flokksbræðrum sínum í Bretlandi, Alistair Darling og Gordon Brown, lið á alþjóðavettvangi og beitti sér gegn því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hlypi undir bagga, fyrr en við hefðum gengið að freklegum kröfum Darlings og Browns, sem þá þegar höfðu sett á okkur hryðjuverkalög. (Hryðjuverkalög! Á annað aðildarríki Atlantshafsbandalagsins!)
Norsk stjórnvöld aðstoðuðu síðan norska fjáraflamenn við að sölsa undir sig vænar eignir Glitnis á smánarverði, eins og ég lýsi nákvæmlega í skýrslu minni fyrir fjármálaráðuneytið, sem aðgengileg er á Netinu. Og það var dapurlegt að sjá Stoltenberg skálma um ganga Seðlabankans 27. febrúar 2009 eins og hann væri hér jarl, eftir að undarlegur norskur maður hafði verið ráðinn seðlabankastjóri þvert á stjórnarskrárákvæði um, að allir íslenskir embættismenn skyldu vera íslenskir ríkisborgarar. Það var eins og Hallvarður gullskór og Loðinn Leppur væru aftur komnir til Íslands.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 15. júní 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband