Talnameðferð Pikettys

Screenshot 2019-06-08 at 12.49.39Hið nýja átrúnaðargoð jafnaðarmanna, franski hagfræðingurinn Thomas Piketty, telur fjármagn hlaðast upp í höndum örfárra manna, svo að leggja verði á alþjóðlega ofurskatta, 80% hátekjuskatt og 5% stóreignaskatt. Máli sínu til stuðnings þylur hann í bókinni Fjármagni á 21. öld tölur um þróun eigna- og tekjudreifingar í mörgum vestrænum löndum, þar á meðal Frakklandi, Bretlandi, Bandaríkjunum og Svíþjóð. Að baki þeim liggja að hans sögn margra ára rannsóknir.
En sýna gögn, að eigna- og tekjudreifing hafi orðið miklu ójafnari síðustu áratugi? Um það má efast. Sumar tölur Pikettys virðast vera mælingaskekkjur frekar en niðurstöður áreiðanlegra mælinga. Til dæmis er eina ástæðan til þess, að eignadreifing mælist nú ójafnari í Frakklandi og víðar en áður, að fasteignaverð hefur rokið upp. Því veldur aðallega tvennt: Ríkið hefur haldið vöxtum óeðlilega langt niðri, og einstök bæjarfélög hafa skapað lóðaskort á margvíslegan hátt, meðal annars með ströngu bæjarskipulagi. (Við Íslendingar þekkjum þetta hvort tveggja.) Ef hins vegar er litið á arð af því fjármagni, sem bundið er í fasteignum, þá hefur hann ekki aukist að ráði síðustu áratugi. Þess vegna er hæpið að tala um, að eignadreifing hafi orðið til muna ójafnari.
Tölur Pikettys um ójafnari tekjudreifingu í Bandaríkjunum vegna skattalækkana Ronalds Reagans virðast líka helst vera mælingaskekkjur. Árið 1981 var jaðarskattur á fjármagnstekjur lækkaður úr 70% í 50%. Þá brugðust fjármagnseigendur við með því að selja skattfrjáls verðbréf á lágum vöxtum, til dæmis skuldabréf bæjarfélaga, og kaupa þess í stað arðbærari verðbréf og aðrar eignir. En þótt tekjudreifingin hefði því ekki breyst, svo að heitið gæti, mældist hún ójafnari. Árið 1986 var jaðarskattur á tekjur síðan lækkaður úr 50% í 28%. Þetta hvatti hátekjufólk eins og lækna og lögfræðinga til að vinna meira og greiða sér frekar laun beint í stað þess að taka tekjurnar út í fríðindum eins og kaupréttar- og lífeyrissamningum. Enn þarf ekki að vera, að tekjudreifingin hefði breyst verulega, þótt hún mældist ójafnari. Piketty notaði líka tölur um tekjur fyrir skatt, en tekjudreifingin var vitanlega miklu jafnari eftir skatt.
Margar fróðlegar greinar um gallana á talnameðferð Pikettys birtast í bókinni Anti-Piketty, sem Cato Institute í Washington gaf út árið 2017.

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 1. júní 2019.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband