Hefnd Breta sæt

Íslendingar færðu út fiskveiðilögsögu sína einhliða í fjórum áföngum.
Fyrst gerði Ólafur Thors sjávarútvegsráðherra það 1952, þegar
landhelgin var færð úr þremur sjómílum í fjórar, en stækkunin var miklu
meiri en ætla mætti, því að firðir og flóar lentu innan landhelginnar.
Síðan gerði Lúðvík Jósepsson sjávarútvegsráðherra það, þegar landhelgin
varð tólf mílur 1958 og fiskveiðilögsagan 50 mílur 1972. Loks gerði
Matthías Bjarnason sjávarútvegsráðherra það, þegar fiskveiðilögsagan
var færð út í 200 mílur 1975. Í öll skiptin höfðu Íslendingar að
engu skilning grannþjóðanna á alþjóðalögum. Þeir sögðu, að lífsnauðsyn
lítillar þjóðar væri ofar hæpnum lagakenningum. Í öll skiptin beittu
Bretar valdi, og í þrjú þeirra sendu þeir herskip á Íslandsmið. En
Íslendingar héldu ótrauðir sínu striki og öðluðust alþjóðlega
viðurkenningu á rétti sínum til lífs og afkomu. Þeir eignuðust gjöful
fiskimið. Talið er, að íslenskur sjávarútvegur sé um 350 milljarða
króna virði. Nú hafa stjórnvöld samið með Icesave-samkomulaginu
svonefnda um að greiða Bretum og bandamönnum þeirra um 700 milljarða
króna eða tvöfalt virði sjávarútvegsins. Þeir hafa afhent Bretum aftur
allt það, sem Ólafur Thors, Lúðvík Jósepsson og Matthías Bjarnason með
einhuga fylkingu Íslendinga bak við sig börðust fyrir og fengu. Engin
skýr laganauðsyn knúði stjórnvöld til að gera þetta. Ekki má einu sinni
bera þetta undir dómstóla. Allur ávinningur þorskastríðanna er glataður. Í
fyrri þorskastríðum börðust Íslendingar og Bretar um þorska. Nú hafa
þorskar á þurru landi tekið völd á Íslandi og tapað fyrir Bretum, þótt
þeir verði farnir frá völdum, þegar þunginn af mistökum þeirra skellur
á þjóðinni eftir sjö ár. Hefnd Breta fyrir ósigra sína í fyrri stríðum
við Íslendinga hlýtur að vera sæt.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband