Hvað gerir Arion?

Sem kunnugt er á ríkisbankinn Arion (Kaupþing) 48 milljarða króna kröfu á félagið 1998 ehf., en það á aftur Haga (Bónus og Hagkaup-búðirnar). Hagar eru taldir 7–10 milljarða virði að bestu manna yfirsýn, svo að í raun á Arion það fyrirtæki. Nokkrir fulltrúar Arion hafa tekið sæti í stjórn 1998 ehf. Í gær, 26. nóvember 2009, upplýsti einn af fyrrverandi eigendum Haga, Jóhannes Jónsson, oft kenndur við Bónus, ótilkvaddur og í aðsendri grein í Fréttablaðinu, að Hagar hefðu sett Morgunblaðið í auglýsingabann. Þetta er óþolandi fyrir Arion banka og eigendur hans, íslenskan almenning. Geðþóttasjónarmið geta ekki ráðið ferðinni í þessum rekstri. Stjórnarmenn frá Arion í 1998 ehf. hljóta að taka í taumana. Auðvitað eiga Hagar að skipta auglýsingum sínum eftir lestri og áhorfi. Ef lestur Fréttablaðsins er 55% og Morgunblaðsins 45%, þá er eðlilegasta viðskiptasjónarmiðið, að 55% auglýsinganna renni til Fréttablaðsins og 45% til Morgunblaðsins (í krónum talið). Því má ekki heldur gleyma, að Hagar reka búðir úti á landi, þar sem Fréttablaðinu er ekki dreift ókeypis eins og á höfuðborgarsvæðinu.

Hagar eru ekki lengur einkafyrirtæki og meðferð fjár þess ekki lengur einkamál. Ef forráðamenn Arion banka láta sér ekki segjast, þá þarf að láta reyna á það fyrir dómstólum (eða jafnvel á götum og torgum úti), hvort þeir fá misnotað vald sitt á þann hátt, sem Jóhannes í Bónus lýsti hróðugur í Fréttablaðsgreininni. Annað er umhugsunarefni. Hagar keppa við ýmis önnur fyrirtæki á smásölumarkaði. Þetta félag virðist ekki þurfa að hafa miklar áhyggjur af 48 milljarða skuld sinni við Arion banka. Keppinautar þess standa hins vegar í skilum með sín lán. Nú bjóða Hagar viðskiptavinum sínum sérstök lán fram á næsta ár. Ég efast um, að keppinautarnir geti boðið svipuð kjör (þótt þeir neyðist ef til vill til þess). Þetta er líka óþolandi fyrir Arion banka og eigendur hans, íslenskan almenning. Skuldakóngarnir lokka með sérstökum jólalánum viðskiptavini frá keppinautum sínum. Stjórnarmenn frá Arion í 1998 ehf. hljóta að taka í taumana. Eflaust hefur stjórnarmönnunum frá Arion í 1998 ehf. sárnað ýmislegt, sem sagt hefur verið um þá síðustu vikur. Nú hafa þeir tækifæri til að sýna, að sú gagnrýni sé ekki á rökum reist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband