Í hvaða liði eru þau?

johanna_sigurdardottir_official_portrait_936693.jpgErlendur hagfræðingur, Daniel Gros, sem situr í bankaráði Seðlabankans fyrir Framsóknarflokkinn, telur, að Íslendingar gætu sparað sér 185 milljarða króna í vaxtagreiðslur til Breta og Hollendinga, væri jafnræðisreglu innan Evrópska efnahagssvæðisins beitt. Bretar og Hollendingar ættu ekki að krefjast hærri vaxta af Íslendingum en þeir heimta af eigin tryggingarsjóðum. Þetta er athyglisvert sjónarmið, hvort sem menn telja, að gera hefði átt Icesave-samkomulagið við Breta og Hollendinga eða ekki. Að minnsta kosti er ljóst, ef gera þurfti samkomulagið, að þá átti að reyna að fá eins góð vaxtakjör og unnt væri. Aðstoðarmaður Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra, Indriði H. Þorláksson, bregst hins vegar illa við. Hann kveðst ekki vita, hvaða jafnræðisreglu Gros sé að tala um, og telur öll tormerki á að reikna út muninn á vaxtakjörum tryggingarsjóðanna í Bretlandi og Hollandi annars vegar og Íslendinga hins vegar.Þessi viðbrögð Indriða eru mér óskiljanleg. Hvers vegna tekur hann ekki fegins hendi öllum þeim röksemdum og sjónarmiðum, sem okkur geta orðið að gagni í baráttunni við Breta og Hollendinga? Hann talar eins og fulltrúi þessara erlendu þjóða, ekki sem málsvari Íslendinga.

Þetta er þó ekkert einsdæmi. Björg Thorarensen lögfræðiprófessor flutti ágæta ræðu á fullveldisdaginn í fyrra, 1. desember 2008, og gagnrýndi þar harðlega framferði Breta, sem beittu lögum gegn hryðjuverkasamtökum í því skyni að loka íslensku bönkunum í Bretlandi með þeim afleiðingum, að eignir bankanna rýrnuðu stórlega í verði. Ég hef fyrir því góðar heimildir, að þessi gagnrýni hafi kostað Björgu embætti dómsmálaráðherra, sem henni hafi ella verið ætlað. En í hvaða liði er það fólk, sem þannig hugsar? Breta eða Íslendinga?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband