Loftslag og loftslagsfræðingar

Forðum sögðu gárungarnir, að uppeldisfræði væri ekki til, aðeins uppeldisfræðingar. Sú hugsun hvarflaði að mér á dögunum, að svipað ætti við um loftslagsfræði. Hún sé ekki til, aðeins loftslagsfræðingar. Þessi vísindi eru undirorpin svo mikilli óvissu, að menn virðast geta trúað hverju sem er. Okkur hefur verið sagt í tvo áratugi, að jörðin væri að hlýna af mannavöldum, svo að stefndi í stórslys, nema við breyttum stórkostlega lífsháttum okkar, fórnuðum ýmsum þægindum og legðum víðtækt vald í hendur gáfumanna, sem vissu betur en við hin, hvert stefna skyldi. Meginrökin voru, að losun koltvísýrings í andrúmsloftið vegna brennslu lífrænna efna eins og kola og olíu myndaði hjúp, sem kæmi í veg fyrir eðlilega kólnun jarðar. Þetta voru í fæstum orðum gróðurhúsaáhrifin margfrægu. Á hundrað árum hefði hlýnað um eitt hitastig á jörðinni, og á sama tíma hefði losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloft aukist um 30%. Fjölmennur og vel-fjáður iðnaður hefur sprottið upp í kringum þessa kenningu, og gefa starfsmenn hans sér varla tíma til að líta á hitamælana, svo önnum kafnir eru þeir við að sækja ráðstefnur á framandi stöðum. Einn helsti talsmaður kenningarinnar, Al Gore, hefur tvisvar verið gestur íslensku bankanna, fyrst Kaupþings á Spáni, síðan Glitnis í Reykjavík. Lét forseti Íslands eins dátt við hann og útrásarvíkingana ósællar minningar.

En hitamælarnir sýna, að ekki hefur hlýnað á jörðinni síðustu tíu árin, þótt losun koltvísýrings hafi aukist talsvert á sama tíma. Vísindamennirnir sitja nú og klóra sér í kollinum, en sækja eflaust um fleiri styrki til að rannsaka þetta fyrirbrigði, jafnframt því sem þeir munu skipta þegjandi og hljóðalaust um fyrirsagnir á línuritum sínum. Nú hafa einhverjir komist í tölvupóst hjá bandaríska loftslagsfræðingnum Kevin Trenberth og starfsbræðrum hans. Þar hreykir einn þeirra sér af því í skeyti, að hann hafi notað talnabrellu til að sýna fram á skarpa hlýnun. Trenberth segir í öðru skeyti: „Staðreyndin er sú að við getum ekki gert grein fyrir því hvers vegna jörðin er ekki að hitna núna og það er skrípaleikur.“ Minnir þetta á, þegar kanadíski sjávarútvegsfræðingurinn Boris Worm birti í nóvemberhefti Science 2006 spá um, að fiskistofnar heims kynnu að hrynja næstu fjörutíu árin. Átaldi Morgunblaðið, sem þá var undir annarri stjórn en nú, Jóhann Sigurjónsson, forstöðumann Hafrannsóknarstofnunar, harðlega í forystugrein 5. nóvember fyrir að gera lítið úr þeirri spá. Fyrir misgáning sendi Worm tölvuskeyti til eins blaðamanns Seattle News, en skeytið hafði verið ætlað samstarfsfólki hans. Þar viðurkenndi Worm, að spáin um hrun fiskistofna hefði verið „fréttabeita til að vekja athygli“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband