Skrípaleikur í Arion

Strax eftir hrun flaug breski fésýslumaðurinn Phil Green til Íslands með einkaþotu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og bauð íslensku bönkunum að kaupa skuldir Baugs á 5% af virði þeirra. Því tilboði var hafnað, enda blasti við, að þetta voru samantekin ráð Jóns Ásgeirs og græna mannsins um að losna við skuldir félagsins. Jón Ásgeir hefur löngum stundað viðskipti á bak við felunöfn. Hann átti til dæmis Fréttablaðið á laun vorið 2003, þegar hann beitti því hvað harðast í stjórnmálabaráttunni. Nú á hann DV á laun og notar til þeirra verka, sem aðrir fjölmiðlar hans treysta sér ekki til. Allir muna, að Baugsmálið snerist ekki síst um, að Jón Ásgeir keypti fyrirtækið 10–11 í nafni annarra og seldi síðan Baugi á miklu hærra verði en þessir leppar hans höfðu keypt það á. Sá úrskurður dómstóla, að þetta teldust venjuleg viðskipti, var stórfurðulegur. Í ljós hefur komið, að norski fjárfestirinn, Reitan, sem átti hlut í Baugi, átti þann hlut í raun og veru ekki, heldur var leppur. Þetta var hlutur „með sölurétti“, sem merkti aðeins, að Norðmaðurinn lánaði Jóni Ásgeiri nafn sitt. Heppilegt þótti að sýna bankamönnum, að erlendir fésýslumenn vildu fjárfesta í Baugi.

johannes.jpgÍ mars varð Baugur gjaldþrota. En þá tóku Hagar við. Í ágúst á þessu ári sagði Jón Ásgeir í viðtali við Viðskiptablaðið, að þrír erlendir fjárfestar væru reiðubúnir til að leggja sextán milljarða inn í Haga. Af einhverjum ástæðum lækkaði þessi tala snarlega fyrir nokkrum dögum: Þá fluttu fjölmiðlar Jóns Ásgeirs fréttir af því, að þessir erlendu fjárfestar gætu lagt fram sjö milljarða, ekki sextán, í 1998 hf. (sem á Haga) gegn því, að fimmtíu milljarða skuldir félagsins yrðu afskrifaðar. Þetta mæltist vægast sagt illa fyrir. Nú hefur talan hækkað aftur. Nú lætur Jón Ásgeir föður sinn, sem hefur leikið jólasvein með góðum árangri í mörg ár, koma fram fyrir sig, því að ímyndarfræðingar hans hafa sagt honum, að gamli maðurinn hafi betri áru en hann sjálfur.

Látið er í veðri vaka, að jólasveinninn hafi gert tilboð í 1998 hf. ásamt erlendum fjárfestum, og þurfi ekki að afskrifa eina einustu krónu. Auðvitað gengur þetta ekki upp. Félagið skuldar fimmtíu milljarða og á eina eign, Haga, sem væri ef til vill 7–10 milljarða virði skuldlaust (að mati dr. Benedikts Jóhannessonar tryggingastærðfræðings). Ef eitthvert fé er í boði, þá væri fróðlegt að vita, hvaðan það er fengið. Ætla stjórnendur Arion að taka að sér hlutverk í þessum skrípaleik og sýna með því, að þeir séu miklu grænni en græni maðurinn, sem kom hingað forðum á einkaþotunni?

Ljósmynd: Mbl. Skapti Hallgrímsson


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband