Einn með Davíðsheilkennið

lobbi1.jpgVart líður svo dagur, að Guðmundur Ólafsson hagspekingur á Útvarpi Sögu agnúist ekki út í Davíð Oddsson. Það er þess vegna vert að rifja upp, að Davíð flutti ræðu á morgunfundi Viðskiptaráðs ári fyrir hrun, 6. nóvember 2007, þar sem hann varaði við ofvexti bankanna og skuldasöfnun þeirra. „Allt getur þetta farið vel, en við erum örugglega við ytri mörk mörk þess sem fært er að búa við til lengri tíma,“ sagði Davíð. „Útrásaráformum þarf því að setja skynsamleg mörk. Sá óhófsandi sem að nokkru hefur heltekið okkur má ekki ráða ferðinni til framtíðar,“ sagði Davíð einnig. Hann var þá seðlabankastjóri og varð vitanlega að fara varlega á opinberum vettvangi. Ég sat þá í bankaráði Seðlabankans og var stundum viðstaddur, þegar Davíð hitti menn úr bönkunum, og var hann þá miklu afdráttarlausari í viðvörunum sínum og brýningum til þeirra um að sýna gætni. Ég get þess vegna ímyndað mér, hvernig hann hefur talað við Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, sem hann hitti sex sinnum til að vara við ástandinu. En einn maður var þá ósammála Davíð. DV spurði Guðmund Ólafsson hagspeking 17. nóvember 2007 vegna orða Davíðs: „Erum við þá ekki á bjargbrúninni þótt þjóðin skuldi mikið og viðskiptahallinn sé geigvænlegur?“ Guðmundur svaraði: „Nei það er bara órökstutt bull. Það veit enginn almennilega hvað við er átt með að þenslan sé of mikil og að hagkerfið geti ofhitnað. Þetta er bara vitleysa.“ Guðmundur gerði síðan gys að „bjargbrúnarkenningu“ Davíðs. „Hún felst í því að bankastjórinn hefur miklar áhyggjur af skuldasöfnun almennings og fyrirtækja í útlöndum og að við séum komin að mörkum þess sem þjóðfélagið þolir í þeim efnum. Þetta er í fyrsta skipti í veraldarsögunni sem seðlabankastjóri kvartar yfir því að almenningur kaupi leikföng.“

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband