Iceslave-samningarnir

Íslendingar gerðu ekki neina samninga við Breta og Hollendinga um Icesave-reikningana, heldur fóru samningamennirnir svonefndu út og sneru heim með reikninginn. Fyrir hvað er þessi reikningur? Íslensk alþýða hefur aldrei stofnað til þeirra skulda, sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hefur viðurkennt þvert á ráð okkar færustu lögfræðinga, til dæmis þeirra Sigurðar Líndal og Stefáns Más Stefánssonar, og raunar þvert á samþykktir Alþingis frá því í sumar. Íslensk alþýða ber enga ábyrgð á þessum skuldum. Það gera einkaaðilar. Eins og Davíð Oddsson sagði við bankastjóra Landsbankans á fundi í Seðlabankanum snemma árs 2008: „Þið getið út af fyrir sig sett Björgólf Guðmundsson á hausinn og eruð sjálfsagt komnir langleiðina með það, en þið hafið ekkert leyfi til þess að setja íslensku þjóðina á hausinn.“ Davíð skrifaði einnig Geir H. Haarde harðort bréf 22. október 2008, þegar hann var enn seðlabankastjóri og Geir forsætisráðherra, þar sem hann mótmælti öllum fyrirætlunum um, að Ísland tæki á sig stórkostlegar skuldbindingar vegna Icesave-reikninganna. „Þetta eru ekki skuldbindingar íslenska ríkisins, þetta eru ekki skuldbindingar íslenskra borgara, þetta eru skuldir Landsbankans,“ sagði Davíð í bréfinu. Raunar hafa ýmsir erlendir aðilar viðurkennt, hversu fráleitt það er, að íslensk alþýða sé skuldbundin af viðskiptum einkaaðila úti í löndum. Til dæmis vann nefnd undir forystu Jean-Claude Trichet, núverandi bankastjóra Evrópska seðlabankans, á sínum tíma skýrslu, þar sem kemur fram sú skoðun, að evrópskar reglur um innstæðutryggingar gildi ekki, þegar um bankahrun er að ræða. Þá hefur Woulter Bos, fjármálaráðherra Hollands, einnig lýst því yfir opinberlega, að evrópska innstæðutryggingakerfinu sé ekki ætlað að standa undir bankahruni. Það er eins og íslenska ríkisstjórnin vilji ekki vita ekki af neinu af þessu. Ég efast ekki um góðan vilja hennar. En hana skortir þor, þrek og getu til að semja við útlendinga. Íslands ógæfu verður flest að vopni.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband