Er jörðin ekki að hlýna?

Breska ríkisútvarpið, BBC, hefur verið fremst í flokki þeirra, sem telja, að jörðin sé að hlýna af mannavöldum og að bregðast þurfi rösklega við, takmarka stórkostlega losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið, enda valdi þær þessari hlýnun. Nú bregður hins vegar svo við, að einn sérfræðingur BBC um loftslagsmál, Paul Hudson, skrifar pistil um þá staðreynd, að jörðin hefur ekki hlýnað frá 1998. Þótt óteljandi fundir hafi verið haldnir um hlýnun jarðar síðustu ellefu árin, óteljandi skýrslur verið skrifaðar um hana, óteljandi styrkir verið veittir vísindamönnum til að rannsaka hana, stendur eftir, að jörðin hefur ekki hlýnað þetta tímabil. Samt hefur losun gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið aukist stórlega. Hvað veldur? Þótt ég sé þeirrar skoðunar, að vísindin séu of mikilvæg til að láta vísindamönnunum þau einum eftir, dettur mér ekki í hug að efast um, að gróðurhúsalofttegundir valdi hlýnun og að jörðin hafi hlýnað mjög hratt á síðustu tveimur áratugum tuttugustu aldar. Þetta segja vísindamenn, og þessu trúi ég. En heilbrigð skynsemi segir okkur, að of lítið hafi verið gert úr náttúrlegum sveiflum í loftslagi. Hlýindaskeið var á landnámsöld, og þeystu þá engir bílar um á Íslandi. Til eru vísindamenn, sem hafa varpað fram öðrum tilgátum. Getur verið, að loftslagið breytist frekar eftir virkni sólar? Eða eftir hafstraumum? Eflaust ráða margir þættir loftslagi. Maðurinn er aðeins einn þeirra. Þurfum við ekki frekar að laga okkur að loftslaginu en að reyna að breyta því?

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband