Náskershirðin

hreinnloftsson.jpgFyrir einhverjum misserum kom Hreinn Loftsson, yfirritstjóri DV, hróðugur fram með orðið „náhirð“, en það notar hann um nokkra kunna stuðningsmenn Davíðs Oddssonar, þar á meðal Björn Bjarnason, Kjartan Gunnarsson og mig. Orðið sótti Hreinn áreiðanlega í kvæði Einars Benediktssonar um Fróðárhirðina, en það orti Einar, þegar hann tók að lengja eftir opinberum leyfum til að virkja þau fallvötn, sem hann hafði keypt af íslenskum bændum. Þótti Einari Jón Magnússon forsætisráðherra og aðrir stjórnmálamenn fara helst til gætilega. Kann hlutur Jóns í því máli þó að hafa verið betri en Einars, sem átti til fjárglæfra, svo að ekki sé meira sagt. Þegar ég hitti á dögunum Sigurjón M. Egilsson, sem vann með Hreini Loftssyni á DV, sagði hann mér, að Hreinn skrifaði nánast allar þær nafnlausu greinar í DV, þar sem orðið „náhirð“ væri notað. Ég hlýt hins vegar að segja, að mér er mikill sómi sýndur með því að vera nefndur í sömu andrá og þeir Björn og Kjartan, og ekki er síður heiður að því, sem talið er sameina okkur, stuðningnum við Davíð Oddsson. En Íslendingar ættu að hafa meiri áhyggjur af annarri hirð. Það er Náskershirðin, — hirðin í kringum Jón Násker, Jón Ásgeir Jóhannesson, skuldakóng Íslands, sem reynt hefur að breyta þessari eyju okkar úti í Dumbshafi í sannkallað Násker. Þessi hirð starfar á Baugsmiðlunum. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hefur Jón Násker haldið fjölmiðlum sínum, þótt hann sé löngu gjaldþrota, og notar hann þá ótæpilega til að leiða athyglina frá eigin sök. Fjölmiðlar hans hamast á öðrum útrásarvíkingum og auðjöfrum, en minnast sárasjaldan á Jón Násker og þá aðeins fyrir siðasakir. Jón Násker þykist ekki eiga DV, en auðvitað er Hreinn aðeins þar til að gæta hagsmuna hans. Blaðið er notað til óþrifalegri verka en aðrir Baugsmiðlar treysta sér til. Bankahrunið íslenska á sér margar og flóknar ástæður, ekki síst kerfisgalla í EES-samningnum og fádæma fautaskap Breta. En ef einhverjir nafngreindir íslenskir einstaklingar bera ábyrgð á því, þá eru það Jón Násker og klíkan í kringum hann, liðið á lystisnekkjunum og í einkaþotunum, sem safnaði skuldum eins og það ætti lífið að leysa, en beitti jafnframt fjölmiðlum sínum og auði gegn öllum þeim, sem þorðu að gagnrýna það. Og sá er annar munur á Náskershirðinni og okkur í „náhirð Davíðs“, að við fylgjum sannfæringu okkar, en Náskershirðin þiggur aðeins mála.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband