Afsögn Ögmundar

ogmundur_920618.jpgAfsögn Ögmundar Jónassonar á dögunum kom flestum á óvart. Jóhanna Sigurðardóttir setti honum bersýnilega stólinn fyrir dyrnar í Icesave-málinu. Furðu sætir hins vegar, að Steingrímur J. Sigfússon skuli dylgja um það, að Ögmundur hafi ekki treyst sér í sparnaðaraðgerðir í heilbrigðismálum. Það eru kaldar kveðjur frá flokksbróður og augljóst, að mikið hefur gengið á hjá Vinstri-grænum síðustu vikur og mánuði, þótt hljótt hafi farið. Samkór stjórnarsinna á Netinu hefur tekið hressilega undir með Steingrími. En hvers vegna má Ögmundur ekki eiga það, að hann er trúr sannfæringu sinni? Það er skiljanlegt, að hann geti ekki samþykkt frekari tilslakanir í Icesave-málinu. Ögmundur spyr eins og við hin: Hvers vegna í ósköpunum vill ríkisstjórnin ekki láta reyna á það fyrir dómstólum, hvort okkur beri að greiða skuldir, sem aðrir hafa stofnað til, áður en hún semur um greiðslu þeirra? Hvers vegna unir hún því, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn komi fram eins og handrukkari fyrir Breta og Hollendinga? Hvað er hið hræðilega, sem gerist, ef við segjum blátt áfram: Við borgum ekki? Varla senda Bretar fallbyssubáta hingað norður í Dumbshaf. Reynslan hefur líka margsýnt, að eitt ríki getur ekki komið í veg fyrir viðskipti annarra ríkja, enda eru Bretar vitaskuld bundnir af milliríkjasamningum eins og við. Ef við getum boðið fisk, ferðaþjónustu og rafmagn á góðu verði, þá munu alltaf vera til kaupendur, hvað sem Bretar segja. Ólafur Thors sagði við Harold Macmillan á sínum tíma, þegar leysa þurfti landhelgisdeiluna: „Nú erum við í vanda. Við getum ekki skotið. Þið viljið ekki skjóta.“ Stórþjóðir búa við hömlur eins og smáþjóðir. Þótt við eigum að standa við allar okkar alþjóðlegu skuldbindingar, megum við ekki láta Breta hræða úr okkur líftóruna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband