Furðuleg verðlaunaveiting

obama_portrait_crop.jpgBarack Obama Bandaríkjaforseti virðist vera vænn maður. Hann býður af sér góðan þokka, er vel máli farinn og kann bersýnilega að stilla skap sitt. Það var auðvitað stjórnmálaafrek að sigra tvær öflugustu kosningavélar heims, fyrst þeirra Clinton-hjónanna og síðan Lýðveldisflokksins (Repúblikana). Það ber líka Bandaríkjunum gott vitni, að þeldökkur maður skuli hafa orðið forseti þeirra. Þau eru ekki gallalaus, en þau eru lönd tækifæranna, fjölbreytni, frumkvæðis og sjálfsleiðréttingar. En hverju hefur Obama fengið áorkað í friðarmálum? Ég get ekki verið einn um að furða mig á því, að honum skuli nú hafa verið veitt friðarverðlaun Nóbels. Hann flytur vissulega fallegar og hjartnæmar ræður um frið og virðist þá einlægur. En hvar hefur hann komið á friði? Mér finnst þetta svipað og ef kennari gefur nemanda einkunn, áður en prófið er haldið. Verðlaunanefndinni norsku eru stundum mislagðar hendur. Indjánakona frá Guatemala, Rigoberta Manchu, fékk friðarverðlaunin 1992. Seinna kom í ljós (í bók eftir bandaríska mannfræðinginn David Stoll), að hún hafði ýkt og jafnvel falsað mörg atriði í sjálfsævisögu sinni, sem vakið hafði mesta athygli á henni. Skemmst er að minnast þess, þegar Al Gore fékk friðarverðlaunin 2007, skömmu áður en breskur dómstóll komst að þeirri niðurstöðu, að margt væri rangt eða ónákvæmt í frægri heimildarmynd hans um hlýnun jarðar. Hver ætti að fá verðlaunin? Ég hef eina tillögu: Hinn frjálsi markaður. Þar ræður verðið, ekki sverðið. Eins og sagt var á 19. öld: Tilhneiging okkar til að skjóta á náungann stórminnkar, ef við sjáum í honum væntanlegan viðskiptavin.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband