Fjölsóttur fyrirlestur í Sofia

hhg_sofia_17_10_2015.jpgÉg flutti fyrirlestur um „Frelsi á Íslandi 930–2015“ í Sofia í Búlgaríu í gær, laugardaginn 17. október 2015. Fjölmenni sótti hann, og rigndi spurningum yfir mig að honum loknum. Ég lýsti Þjóðveldinu, þar sem réttarvarsla var í höndum einstaklinga, menn gátu valið um verndaraðila (goðana) og glæpir voru metnir til fjár. Ég greindi ítöluna, sem kveðið er á um í Grágás, en með henni var stjórnað aðgangi að bithögum á fjöllum til að forðast „samnýtingarbölið“ (tragedy of the commons). Ég rakti fátækt Íslendinga 1490–1787 til þess, að þróun sjávarútvegs var torvelduð með höftum og verðlagsstýringu: Íslendingar reru til fiskjar á opnum árabátum, á meðan þilskip sigldu hingað frá Englandi, Hollandi, Frakklandi og Spáni. Ég skýrði kvótakerfið, sem myndaðist hér frá 1975 (í síld) til 1990, þegar sett voru almenn lög um framseljanlega og varanlega aflakvóta. Ég ræddi um bankahrunið, en bankarnir gátu þanist út (aflað sér viðskiptavina) 2004–2008 vegna hins góða orðspors, sem Ísland hafði aflað sér 1991–2004; síðan bjargaði enginn íslensku bönkunum, á meðan öðrum bönkum í Evrópu var bjargað, meðal annars fyrir tilstilli bandaríska seðlabankans. Ég horfði fram á við og sagði, að Íslendingar hefðu engu að kvíða, gætu þeir haft stjórn á sér, en upp á það vantaði stundum eitthvað.

Mönnum fannst einkum fróðlegt að heyra um Þjóðveldið og kvótakerfið. Ég var spurður sömu spurninga um kvótakerfið og alls staðar annars staðar, þar sem ég hef á það minnst. Hvað um nýliðun? Svarið er, að vandinn var ótakmarkaður aðgangur og allt of margir að veiðum. Nýliðun er ekki markmiðið við þær aðstæður. Komið var á því kerfi, að menn kæmust ekki á veiðar, nema þeir hefðu kvóta. Þetta er sama lögmál og í landbúnaði. Menn geta ekki hafið búskap, nema þeir kaupi sér land og bústofn. Eini rétturinn, sem var tekinn af öðrum við það, að kvótum var úthlutað til þeirra, sem stundað höfðu veiðar, var rétturinn til að gera út með engum ábata, og sá réttur var samkvæmt skilgreiningu einskis virði. Hvað um arðinn? Af hverju átti hann að renna til útgerðarmanna? Svarið er, að það er skömminni skárra en að hann renni til ríkisins, sem notar fé sitt sjaldnast skynsamlega. Ríkið er ekki við; ríkið er þeir. Auk þess var úthlutun aflakvóta samkvæmt veiðireynslu eina leiðin til að loka fiskimiðunum eða girða þau af, sem vænleg var til árangurs, því að þá var högum manna lítt raskað: Þeir, sem vildu halda áfram veiðum, gátu þá keypt út hina, sem vildu hætta veiðum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband