Merkilegar upplýsingar um Danmörku og Grikkland

Margir fyrirlestrar á ráðstefnu frjálshyggjustúdenta í Sofia í Búlgaríu, sem ég sótti 17. október 2015, voru stórfróðlegir. Gamall kunningi minn, Otto Brøns-Petersen, talaði um Danmörku. Spurning hans var: Er velferðarríkið þrátt fyrir allt skilvirkt? Þau Hillary Clinton og Bernie Sanders höfðu í kappræðum Lýðræðisflokksins (Democrats) bæði lýst yfir aðdáun sinni á Danmörku. Brøns-Petersen benti hins vegar á, að norrænu ríkin búa við tiltölulega frjáls hagkerfi. Til dæmis mælist danska hagkerfið hið 22. frjálsasta í heimi þrátt fyrir þunga skattbyrði. Hann varpaði líka á skjá línuritum, sem sýndu, að hagsæld Dana er frá þeim tíma, þegar hagkerfið var jafnfrjálst og í Bandaríkjunum og skattbyrði sambærileg. Munurinn var sá, að Danir ákváðu á sjötta áratugnum að endurdreifa eftir föngum ávinningnum af atvinnufrelsi, en Bandaríkjamenn ekki. Hann bætti við, að danska hagkerfið væri að sumu leyti skilvirkt, en að í það vantaði nýsköpun. Brøns-Petersen minntist á það, að Danir hefðu iðulega mælst hamingjasamasta þjóð í heimi. Hann varpaði hins vegar á skjá línuriti, sem sýndi sterka almenna fylgni milli hagsældar og hamingju: Fátækar þjóðir eru óhamingjusamar, ríkar þjóðir hamingjusamar. Niðurstaða Brøns-Petersens var: Þjóðir eiga ekki að taka upp velferðarríki til þess að verða ríkar eða hamingjusamar, heldur geta þær tekið upp velferðarríki, af því að þær eru ríkar og hamingjasamar. Það er hins vegar vafamál, hversu lengi auðlegð þjóða endist, verði skattbyrðin of þung.

Aristides Hatzis, hagfræðiprófessor í Aþenu, talaði um gríska harmleikinn. Hann benti á, að gríska hagkerfið tók miklum framförum árin 1929–1980. Þá var meðalhagvöxtur um 5% á ári þrátt fyrir mikinn óróa í stjórnmálum. Grikkir gátu gengið í Evrópusambandið 1980, af því að margt gekk vel hjá þeim. En upp úr því hófst harmleikurinn. Sósíalistaflokkkurinn komst til valda undir forystu Andreasar Papandreu, og andstæðingar þeirra, sem kölluðu sig íhaldsmenn, fylgdu svipaðri stefnu, þegar þeir komust síðar til valda, og kallaði Hatzis þá „Sósíalistaflokk númer tvö“. Við tók kerfisbundin spilling, þar sem miðstéttin hrifsaði til sín fjárframlög Evrópusambandsins, sem áttu að renna í að styrkja innviði hagkerfisins, jafnframt því sem allir reyndu að svíkja undan skatti. Gríski draumurinn, sem nú hefði snúist upp í martröð, hefði verið að ljúka háskólaprófi snemma, starfa hjá hinu opinbera og komast á eftirlaun laust eftir fimmtugt. Allt hefði farið í neyslu, ekkert í fjárfestingar. Gríska hagkerfið væri ekki sjálfbært. Það væri ekki frjálst markaðshagkerfi, og varpaði Hatzis á skjá nokkrum línuritum til að sýna það. Studdist hann meðal annars við alþjóðlega vísitölu atvinnufrelsis og mælingar á samkeppnishæfni. Í ljós kom, að ótrúlega tafsamt og erfitt er til dæmis að stofna fyrirtæki eða ljúka gjaldþrotaskiptum í Grikklandi. Skilaboðin til erlendra fjárfesta væru í raun: Komið ekki til Grikklands! Tvær leiðir væru út úr ógöngunum, sagði Hazis. Önnur væri að leggjast á bæn og vona hið besta, hin að gera róttækar breytingar í frjálsræðisátt á hagkerfinu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband