Stóri bróðir, dísilbílar og blóðfita

Ég hlustaði á mjög fróðlegan fyrirlestur á ráðstefnu frjálshyggjustúdenta í Sofia í Búlgaríu 17. október. Boyan Rashev umhverfisfræðingur flutti hann, og var hann um mistæk ríkisafskipti.

Rashev benti á, að margt hefði batnað í umhverfi okkar síðustu áratugi. Vatn væri orðið hreinna og loft tærara. En ekki væri þó allt sem sýndist. Dísilbílar voru réttilega taldir nýta betur eldsneyti en bensínbílar, og þess vegna hefur Evrópusambandið stutt framleiðslu þeirra á ýmsan hátt, bæði með beinum styrkjum og með ýmsum ívilnunum, til dæmis í opinberum gjöldum. En gallinn er sá, að dísilbílar losa margvísleg önnur efni út í andrúmsloftið og menga það. Afleiðingin er, að loft er ekki eins hreint í borgum Evrópu og til dæmis í Bandaríkjunum og Japan.

Upp úr 1960 varð sú kenning vinsæl, aðallega að frumkvæði bandaríska líffræðingsins Ancels Keys, að hjartasjúkdóma mætti að nokkru leyti rekja til neysluvenja á Vesturlöndum, þar á meðal neyslu kjöts, eggja og smjörs. Þess í stað ætti að neyta grænmetis og kolvetnaríks matar. Bandaríkin settu sér manneldismarkmið í þessa veru, og skyndibitastaðir, veitingahús og matvælaframleiðendur um allan heim breyttu samsetningu vöru sinnar. Þessi kenning hefur reynst röng, en framkvæmd hennar hefur valdið miklu um offitu, sem er einn stærsti heilsufarsvandi okkar daga.

Stóri bróðir, hið opinbera, tók báðar kenningarnar upp á sína arma. En hann hafði rangt fyrir sér, og það hefur valdið loftmengun, offitu, verra lífi og fjölda dauðsfalla.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband