Ártíð Ólafs Thors

o_769_lafurthors.jpgHálfrar aldar ártíð Ólafs Thors var haldin hátíðleg á dögunum. Tveir menn sögðu mér, hvor í sínu lagi, að Ólafur hefði orðið forsætisráðherra í hvaða landi sem er. Þeir voru dr. Benjamín Eiríksson, hagfræðingur og bankastjóri, og Magnús Óskarsson borgarlögmaður. Ólafur rak útgerðarfyrirtækið Kveldúlf ásamt föður sínum og bræðrum og fór fyrst í framboð 1921 með þeim Jóni Þorlákssyni verkfræðingi og Einari H. Kvaran rithöfundi. Hann vakti þegar athygli. Þá sagði Jón Thoroddsen yngri, sem var ákafur jafnaðarmaður: „Einn selur sement, annar saltfisk og hinn þriðji sannfæringuna.“ Magnús Jónsson guðfræðidósent sagði þá á almennum kjósendafundi, að nú tíðkaðist sama aðferð og hjá laxveiðimönnum. Jón Þorláksson væri ryðgaði öngullinn, en Ólafur Thor girnilega flugan. Náði Jón kjöri, enda skipaði Ólafur þriðja sæti listans.

Ólafur var fyrst kjörinn á þing í Gullbringu- og Kjósarsýslu 1926. Lét hann strax að sér kveða á þingflokksfundum, og sagði Hákon Kristófersson í Haga háðslega: „Það er naumast okkur hefur bæst liðsaukinn!“ Minnir þetta á, þegar Sigurður Bjarnason frá Vigur var fyrst kjörinn á þing 1942. Hann hafði skrifað fyrir kosningar, að Alþingi þyrfti að endurheimta virðingu sína. „Og ætlar þú að vinna það afrek?“ spurði Ólafur. Allir þekkja gamansöguna af því, að Ólafur kom stundum seint á nefndarfundi fyrstu ár sín á þingi. Pétur Ottesen sagði þá við hann: „Ólafur, þú virðist fjandakornið ekki fara á fætur fyrr en um hádegið!“ Ólafur var fljótur til svars: „Það mundir þú nú líka gera, ef þú værir kvæntur henni Ingibjörgu minni!“ Kona Ólafs var Ingibjörg, dóttir Indriða Einarssonar, hagfræðings og leikskálds.

Ólafur Thors var hressilegur í framkomu. Eitt sinn var Benjamín Eiríksson staddur inni hjá honum og von á öðrum manni í heimsókn. Ólafur hreyfði hendur eins og hann væri að leika á fiðlu og sagði við Benjamín: „Ja, hvaða lag á ég nú að leika fyrir hann þennan?“ Gamall andstæðingur Ólafs, Jónas Jónsson frá Hriflu, sagði líka eitt sinn: „Það er einkennileg tilviljun, að hinn kunni hugsjónamaður íslenskrar leikmenntar, Indriði Einarsson, skyldi hafa átt að tengdasonum tvo mestu leikara á Íslandi, þá Jens Waage og Ólaf Thors.“ En þrátt fyrir allan sinn grallaraskap var Ólafur alvörugefinn maður, lífsreyndur, ráðríkur og vandur að virðingu sinni. Hann gaf dótturdóttur sinni gott ráð: „Ekki eyða ævinni í að sjá eftir eða kvíða fyrir.“

(Fróðleiksmoli í Morgunblaðinu 7. febrúar 2015.)

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband